Nýja sárabindið er gert úr nanótrefjum, sem halda æðum opnum og slökum.

Læknisfræði

Vísindamenn við Texas-háskóla hafa þróað nýja gerð sárabinda úr nanótrefjum sem brotna niður í líkamanum. Sárabindin eru ofin með svonefndum rafspuna, þar sem örsmáar nanótrefjar eru ofnar saman í dúk – í þessu tilviki sem sagt sáraumbúðir.

Einn af kostum nýja sárabindisins er sá að það losar köfnunarefnisoxíð þegar raki kemst að því. Köfnunarefnisoxíð heldur æðum opnum og slökum og það kemur að margvíslegu gagni. Sárabindið mun m.a. auðvelda sárum að gróa og bæta blóðstreymi í ákveðnum hlutum líkamans. Að auki getur efnið auðveldað mönnum að geyma líffæri til ígræðslu lengur en nú er unnt.