Flestar sænskar steingrafir hafa fundist í Falbygden. Meðan grafirnar í Danmörku og á Skáni eru úr granítsteinum, eru þessar grafir byggðar með kalk- og sandsteinum.

Erfiðisstunur mannanna rjúfa þögnina, meðan fléttuð reipin skerast harkalega í lófa þeirra. Voldug stólpagrindin rís hægt til lofts og enn eitt bjargið hnikast á sinn stað yfir grafhýsinu. Á þessum töfrum þrungna stað sem æðstipresturinn hefur valið, munu hinir dauðu dag einn fá hvíld.

Enn þann dag í dag setja jötnastofur mark sitt á skandinavískt landslag. Þær eru einnig nefndar stórsteinsgrafir vegna gríðarlegra bjarganna í veggjum og þaki þeirra. Grafirnar eru einkum útbreiddar í Danmörku þar sem þær er að finna um allt land. Upprunalega voru þær um 40.000, en í dag er enn að finna tæplega 7.000 þeirra. Í Svíþjóð hafa fundist um 400 stórsteinsgrafir. Þær dreifast eftir vesturströndinni við Haland og Bohuslän, en einnig á Skáni og Ölandi. Við Falbygden við Vestur-Götland er að finna 259 stórsteinsgrafir. Fæstar slíkar eru í Noregi þar sem fræðimenn hafa einungis fundið fáeinar í nágrenni Osló.

Skandínavísku stórsteinsgrafirnar eru byggðar á tímabilinu 3600 – 3000 f. Kr. Grafirnar eru breytilegar hvað efni og form varðar. Nokkur líkindi eru með dönskum og skánskum steingröfum, meðan grafirnar í Falbygden hafa eigin stíl. Grunngerð er þó hin sama, svo ætla má að sömu byggingaaðferðir hafi verið notaðar.

Einungis jötnar geta lyft steinunum

Það hefur löngum verið ráðgáta hvernig handverksmenn steinaldar komu 20 tonna þungum steini fyrir á sínum stað með fárra sentimetra nákvæmni, án þess að nýta byggingakrana nútímans. Á miðöldum var einfaldlega talið að stórsteinsgrafirnar væru verk jötna, eins og nafnið jötnastofa gefur til kynna. Síðar kom til vísindalegri nálgun á viðfangsefnið.

Danski konungurinn Friðrik sjöundi, sem var áhugamaður um fornleifafræði, setti árið 1857 fram tilgátu um byggingaraðferð á jötnastofum fornaldar. Þar lýsir hann hvernig steinsmiðirnir með „tröllsterkum höndum“ lyftu hinum þungu steinum upp frá jörðu með því að stinga vogarstöngum úr eikartré undir þá og rúlla þeim síðan upp eftir jarðrampa á „færibandi“ úr trjástofnum. Þessi konunglega tilgáta vann sér sess meðal fornleifafræðinga þegar síðar fundust leifar jarðrampa við bæði danskar og sænskar stórsteinsgrafir. Um langa hríð þótti þetta sannfærandi skýring, en árið 2004 fundu danskir fornleifafræðingar frá Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn ný ummerki sem afhjúpuðu fleiri leyndarmál stórsteinsgrafanna.

Við jötnastofuna Birkehøj á Norður-Sjálandi fundu fornleifafræðingarnir Torpen Dehn, Jörgen Vestfal og Svend Illum Hansen 50 sm breiða stólpaholu í fornri hæðarfyllingu. Holan var tilkomin vegna gríðarmikils trjástólpa sem bersýnilega hafði slegist fram og til baka. Skömmu síðar rannsökuðu fornleifafræðingarnir þrír jötnastofuna Månehøj á Suður-Sjálandi, og þar fundu þeir leifar eftir enn stærri stólpa sem hafði staðið að baki grafhýsinu. Þriðji fundurinn var síðan við Stuehøj á Norður-Sjálandi þar sem staurastólpar höfðu augljóslega verið notaðir við framkvæmdina og síðan fjarlægðir.

Holur afhjúpuðu steinaldarkrana

Fundir þessir urðu fornleifafræðingunum ærið umhugsunarefni. Margra ára vinna með steingrafir hafði veitt þeim umtalsverða þekkingu á byggingaraðferðum steinaldar, og þeir settu fram tilgátu um að steinsmiðirnir gætu hafa notað grind úr trjástofnum til að hnika við hinum þungu steinum – en þá skorti afgerandi sönnun. Slíka sönnun fengu þeir með fundi stólpaholanna. Greinileg ummerki eftir hreyfingar stólpanna sýndi fornleifafræðingunum að byggingarmeistarar steinaldar hljóti að hafa notað A-laga grind með feiknarlegum trjástólpum staðsettum beggja vegna grafarinnar. Grind þessa mátti reisa upp með einskæru vöðvaafli og þannig draga til og lyfta þungum björgum. Vogarstangaraflið gerði kleift að færa til steinana á mun auðveldari hátt en ella.

Frá árinu 2004 hafa fleiri fundir í Danmörku rennt stoðum undir tilgátuna. Enn hafa þó ekki fundist sambærilegar holur við sænskar stórsteinsgrafir. En fornleifafræðingurinn Toy Axelsson við Västgötlands-safnið telur að sama aðferð hafi verið notuð í Falbygden. Þar hafa menn ekki rannsakað og endurbyggt jötnastofur í sama mæli og í Danmörku,

Grafir fyrstu bændanna

Stórsteinsgrafir voru byggðar á tímaskeiði mikilla umbreytinga. Um 4000 f.Kr. barst akuryrkja til Skandinavíu. Eftir árþúsunda líf sem veiðimenn og safnarar komu fyrstu bændurnir fram. Skógurinn var ruddur undir akra, og húsdýr eins og svín, nautgripir og hænsnfuglar tryggðu jafnara fæðuframboð. Þegar forfeður okkar gerðust bændur þurftu þeir að gæta þess að sáning og uppskera færi fram á réttum árstíma. Húsdýrin þurfti að fóðra og síðan slátra, og þessir nýju lífshættir kröfðust meiri skipulagningar ólíkt frjálsu lífi veiðimannsins. Því tók fólk að safnast saman í stærri og skipulegri hópum. Meira kvað að nokkrum mönnum sem tóku frumkvæði að sameiginlegum verkefnum.

Hús voru reist, akrar afgirtir og reglubundnir lifnaðarhættir við árstímabundna umhirðu húsdýra setti ríkara mark á steinaldarmennina. Allt þetta átti sér stað í upphafi bændamenningarinnar þegar nýtt samfélag mótaðist í Skandinavíu. Í kjölfarið komu stórsteinsgrafirnar fram á sjónarsviðið. Sunnar í álfunni höfðu menn stundað akuryrkju og byggt stórsteinsgrafir í langan tíma. Skandinavar upplifðu mikið góðæri og á næstu öldum voru þúsundir af steingröfum byggðar.

Höfðinginn og æðstipresturinn hafa að líkindum valið heppilegan stað fyrir jötnastofurnar. Eftir að hafa ráðfært sig við reynda steinsmiði, en þeir fóru um byggðirnar líkt og byggingarverkfræðingar steinaldar, var hafist handa við að safna réttum byggingarefnum. Síðan snéru sérfræðingarnir aftur og reistu steingrafirnar með aðstoð meðlima ættbálksins.

Elstu stórsteinsgrafirnar frá 3600 f. Kr. eru svonefndar dysjar. Þetta eru jafnan hringlaga rými með stuttum gangi, en þær allra elstu eru kistulaga og án fordyris. Um 3300 f.Kr. kom fram ný gerð grafhýsa, en það voru jötnastofurnar. Flatarmál þeirra var stærra með fordyri sem lá hornrétt á lengdarhliðina. Nú var jafnan lengri gangur að sjálfu grafhýsinu, sem er aflangt og allt að 30 fermetrar að stærð.

Börkurinn miðlaði þrýstingi

Með jötnastofunum komu einnig framfarir í byggingartækni. Til að þétta holrými milli burðarsteina var múrað með flötum sandsteinum, svonefndum þurrmúr. Múrsteinarnir vor nákvæmlega tilhöggnir og þéttir með leir eða kalkmassa.

Annað þéttingarefni var birkibörkur. Samanbrotnum var honum troðið í sprungur til þéttingar, en jafnframt miðlaði hann þrýstingi frá tonnaþungum björgunum. Þá var lagður þaksteinn ofan á grafhýsið til að hindra regnvatn í að leka í gegn. Þakið leiddi regnvatnið að kanti burðarsteinanna, þar sem mikið magn af möl sá um að drena vatnið frá jötnastofunni.

Þrátt fyrir að byggingaraðferðin hafi verið hin sama, þá nýttu steinsmiðir sér ólík efni eftir svæðum. Í Danmörku og á Skáni voru það miklar steinblokkir úr graníti og gneisi, sem lágu á jörðinni eftir síðustu ísöld. Grafhýsin í Falbygden eru hins vegar úr lausum kalk- og sandsteinsblokkum.

Kjötlaus bein lögð til grafar

Stórsteinsgrafirnar voru grafreitir steinaldar. Í Danmörku má fremur nefna þær beina-grafreiti heldur en eiginlegar grafir í skilningi okkar. Mikið af mannabeinum hafa fundist, en heilar beinagrindur eru afar sjaldséðar. Beinin eru yfirleitt af mörgum einstaklingum og liggja á rúi og stúi. Stundum hafa beinin verið flokkuð, t.d. í hauskúpur og lærleggi. Á öðrum stöðum vantar tiltekin bein, t.d. alla kjálka.

Fundirnir benda til að beinin hafi þá fyrst verið lögð til grafar þegar allt kjöt var horfið af þeim. Menn hafa áreiðanlega stöðugt forfært, flokkað og endurgrafið beinin sem lið í óþekktu helgihaldi. Í sumum frumstæðum samfélögum eru lík álitin óhrein og ekki grafin fyrr en þau eru laus við allar kjötleifar. Kannski hefur hið sama verið uppi á teningnum í Danmörku.

Helgisiðirnir við beinaflokkunina hafa ef til vill verið viðleitni til að skapa reglu í ríki hinna dauðu með því að raða hvítum beinunum skipulega upp. Í Svíþjóð var annar háttur hafður á. Í Jötnastofunni Onskulle í Västergötland er gólfi grafhýsisins skipt í litla reiti með smásteinagörðum. Þar fundust 19 beinagrindur í sitjandi stöðu, hver í sínum reit. Slíkir greftrunarsiðir hafa einnig fundist í Falbygden, en þar hafa fornleifafræðingar fundið heillegar beinagrindur ásamt rafperlum, skarti og rándýratönnum. Þrátt fyrir að byggingarlagið sé hið sama, eru greftrunarsiðir breytilegir eftir stöðum.

Þá má einnig lesa helgisiði úr byggingarlagi stórsteinsgrafanna. Jötnastofur hafa stundum verið settar af karmsteinum, steinþröskuldum og dyrasteinum í löngum ganginum, kannski sem tákn fyrir ferðalagið úr heimi lifenda í ríki hinna dauðu. Gangur var svo lágreistur að skríða þurfti inn í grafhýsið – e.t.v. bragð hönnuða til að árétta erfiðleikana við að komast í ríki dauðans.

Stefna ganganna hefur einnig haft sína merkingu. Við danska jötnastofu hafa fundist stefnulínur úr röð steina. Steinaröðin flúktaði við stefnu gangsins og var lögð utan við til að afmarka rétta stefnu á grunnfleti grafhýsisins. Rannsóknir á sænskum steingröfum benda til að stefna þeirra hafi verið valin með tilliti til stöðu tunglsins á haust- og vorjafndægrum. Þessi árstími hefur skipt sköpum fyrir sáningu og uppskeru, og því gegnt veigamiklu hlutverki í vaxandi bændamenningu.

Hvít tinna táknar tunglið

Sumir steinanna í grafhýsunum skera sig úr því þeir koma ekki að viðlíka gagni og aðrir byggingarsteinar. Fundist hafa svonefndir tvíburasteinar, tveir helmingar klofins steins sem standa nákvæmlega í pörum. Ef til vill voru þeir álitnir búa yfir mikilli helgi eða haft aðra táknræna merkingu.

Mikið magn af brenndri tinnu hefur einnig fundist í gröfunum og hefur hún haft bæði hagnýtan tilgang er varðar helgisiði. Hvítri tinnu var stráð yfir gólf gangs og grafhýsis. Tinnan hefur aukið ljósmagn í gröfinni, þegar eldurinn úr stæðinu endurspeglaðist á tinnunni. Í sumum menningarsamfélögum táknar hvítur litur hreinleika og getur tengst hvítum beinum og tunglinu.

Við fáum aldrei vissu um lifnaðarhætti steinaldarmanna. En með því að rannsaka byggingaraðferðir þeirra fáum við ofurlitla innsýn í heimsmynd þeirra. Tvær lítilmótlegar stólpaholur flettu hulunni af hvernig þungum björgum var komið á sinn stað. Vafalaust verða nýir fundir til að varpa frekara ljósi á lifnaðarhætti steinaldarmanna.