Fuglinn notaði eins konar tanngadda í gogginum til að halda bráðinni fastri.

Best varðveitta hauskúpa sem fundist hefur af Pelagornthidae-fugli, ætt mjög stórra sjófugla sem uppi var á tímabilinu fyrir 50 – 2,5 milljón árum, hefur nú fundist í Perú.

Þetta nýjasta eintak er um 10 milljón ára. Hauskúpan er 40 sm löng og vænghafið hefur verið allt að 6 metrar. Flugtakið hefur ekki verið sérlega tignarlegt, segir Mario Urbina, steingervingafræðingur hjá Náttúruminjasafninu í Perú. Vængina hefur skort talsvert á flughæfni nútímafugla og þessi fugl hefur því trúlega þurft að koma sér t.d. upp á klettabrún til að stökkva fram af.

Steingervingar þessara fugla eru afar sjaldgæfir, enda voru beinin mjó. Það hefur komið sér vel fyrir fuglana og auðveldað þeim flugið, en svo grannvaxin bein varðveitast sjaldnar til síðari tíma.

\"