Þarmaslangan er færð inn um munninn með hefðbundinni smásjáraðgerð. Slangan er rúlluð upp í litlu hylki þar til hún er komin neðst í magasekkinn.

Læknisfræði

Nú er brugðist við alvarlegri offitu með skurðagerð og annaðhvort er þá komið fyrir hring neðan við magann, þannig að mikið hægi á streymi úr magasekknum niður í smáþarmana, eða reyrt að hluta af maganum og smáþörmunum. Eftir slíka aðgerð léttist fólk til mikilla muna, en á hinn bóginn er líka örlítil hætta á að sjúklingurinn deyi á skurðarborðinu. Hjá bandarísku fyrirtæki hafa menn nú þróað valkost sem bæði er mun ódýrari og að líkindum líka miklu öruggari.

Þetta er þarmaslanga úr þunnu plasti sem þekur fyrstu 60 sm af veggjum smáþarmanna þannig að þar komast engin næringarefni út í blóðið. Slangan er einfaldlega sett inn gegnum munninn með hefðbundinni smásjáraðgerð og er rúllað út eftir að búið er að koma henni í gegnum magasekkinn. Allt saman tekur í mesta lagi hálftíma og slönguna má fjarlægja á 10 mínútum ef hún skyldi rifna eða eftir að sjúklingurinn er kominn niður í hóflega þyngd.

Afbrigði af aðferðinni hefur verið reynt á rottum og reyndist valda mikilli megrun, auk þess sem hún hafði áhrif gegn sykursýki 2 sem er algengur fylgikvilli offitu. Nú síðast hefur þarmaslangan, sem kallast „Endobarrier“, verið reynd á 150 sjúklingum og þeir léttust einnig á skömmum tíma, jafnvel þótt þeir borðuðu sig fullsadda. Enn er þó nokkuð í land þar til þarmaslangan kemst í almenna notkun. Fyrst þarf að gera tilraunir á stærri hópi sjúklinga og að auki langtímatilraunir til að fá úr því skorið hvort óhætt sé að ganga með slönguna í smáþörmunum í langan tíma.