Sólarorkuver, eins og þetta í Mojave-eyðimörkinni í Bandaríkjunum, nýta spegla til að fanga sólarljósið. Í fleiri eyðimörkum stendur til að reisa stór sólarorkuver.

Vissulega væri afar heppilegt að koma sólarorkuverum fyrir í eyðimörkum. Með því að þekja aðeins 4% af öllum eyðimerkursvæðum heims með sólföngurum mætti fræðilega séð fullnægja allri orkuþörf heimsins. Það er fyrst og fremst kostnaðurinn sem veldur því að enn skuli ekki risin stór sólarorkuver t.d. í Sahara-eyðimörkinni. Slík orkuver eru mjög dýr og að auki þarf að leiða orkuna langa leið til notenda. Það er afar kostnaðarsamt að leggja jarðkapla eða háspennulínur. Pólitískur óstöðugleiki í Afríku á einnig sinn þátt í þessu, en tæpast leikur nokkur vafi á að þar verði einhvern tíma reist stór sólarorkuver.

Alþjóða orkumálastofnunin, IEA, hefur skipað starfshóp til að rannsaka möguleika þess að reisa orkuver í Sahara. Fyrsta tilraunin til að reka stórt orkuver á eyðimerkursvæði er reyndar þegar í gangi. Í Nevada-eyðimörkinni í Bandaríkjunum var 64 megawatta sólarorkuver tekið í notkun í júní 2007. Í Sameinuðu arabísku furstadæmunum á að reisa orkuver til að framleiða rafmagn fyrir 10.000 heimili.