Vísindamenn hafa þróað plastflögur sem draga í sig þau óhreinindi sem vatnið leysir úr þvottinum. Hver flaga endist í 100 þvotta.

Tækni

Ekki er víst að öllu lengur þurfi mikið af vatni og rafmagni til að þvo þvott. Vísindamenn við Leeds-háskóla hafa nefnilega smíðað þvottvélina Xerox sem ekki notar nema einn bolla af vatni ásamt þvottaefni í hvern þvott.

Leyndardómurinn er fólginn í 20 kg af plastflögum sem settar eru í vélina áður en hún er sett í gang. Plastefnið er sérstakt og drekkur í sig þau óhreinindi sem blanda vatns og sápu leysir úr fötunum. Vísindamönnunum hefur tekist að fjarlægja hvers kyns venjuleg óhreinindi, svo sem t.d. kaffi og varalit. Það er svo líka stór kostur að vegna þess hve vatnið er lítið, mega fötin heita þurr þegar þau koma úr vélinni. Orkunotkunin er heldur ekki nema 2% af því sem venjuleg þvottavél þarf á að halda.

Nú vinna vísindamennirnir að því að bæta endingu plastflaganna. Þær duga nú í um 100 þvotta eða hálfs árs venjulega notkun, en síðan tekur að draga úr hæfni þeirra. Auk endingartímans beina menn einnig sjónum að umhverfisvænna efni en plasti. Þvottavélar svelgja nú um 13% af vatnsnoktun í venjulegu heimilishaldi.