Í neðsta hluta trektarinnar notar jurtin slím til að melta smádýr.

Í ferðum sínum til Filippseyja hafa grasafræðingar frá Cambridge-háskóla uppgötvað nýja kjötætuplöntu af könnuberaætt eða Nepentheceae. Plantan er óvenju stór miðað við aðra könnubera, en trektin, sem er full af vökva og jurtin notar sem gildru fyrir skordýr og önnur smádýr, er allt að 30 sm há og þvermálið getur orðið 16 sm. Þetta er þannig stærsti könnuberi sem fundist hefur í 150 ár.

Plantan hefur fengið heitið Nepenthes attenboroughii og vex í lággróðri innan um allt að tveggja metra háa runna. Grasafræðingarnir áætla að af þessari sjaldgæfu jurt sé minna en ein á hverjum 20 ferkílómetrum.