Orkan geymd sem þrýstiloft.

Tækni

Ný tilraun til að varðveita rafmagn neðanjarðar, sem nú stendur yfir í Iowa í Bandaríkjunum, gæti rutt brautina fyrir stöðuga raforku frá vindmyllum. Nú er þessi framleiðsla afar óstöðug þar eð vindmyllur framleiða rafmagn þegar vindurinn blæs en þess á milli dettur framleiðslan niður. Á flatlendinu í Iowa eru fjölmargar vindmyllur og þegar þær framleiða meiri raforku en þörf er fyrir, er umframorkan nýtt í sérstöku orkuveri sem þjappar lofti. Þrýstiloftinu er síðan dælt 900 metra niður undir yfirborðið, niður í gljúpan sandstein þar sem það ryður jarðvatninu frá. Vatnið og loftþétt klöppin fyrir ofan, halda þrýstiloftinu kyrru á sínum stað. Þegar svo þörf er fyrir meiri orku en vindmyllurnar framleiða er þrýstiloftið leitt aftur upp á yfirborðið þar sem það knýr túrbínur sem aftur framleiða rafmagn.

Orkutapið í þessu varðveisluferli er tiltölulega lítið. Af hverjum 100 kílówöttum sem notuð eru til að þjappa lofti, skila sér um 85 kílówött frá túrbínunum út á rafnetið. Orkulagerinn í Iowa er nógu stór að afkasta 268.000 kílówöttum 16 tíma á sólarhring og dugar þannig fyrir notkun um 75.000 heimila.