Aljóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, varar við því að apabólufaraldurinn í Evrópu geti orðið stjórnlaus.
Þessi viðvörun birtist samhliða því að WHO lýsir því yfir að faraldurinn sé orðinn að heilbrigðisógn á heimsvísu.
Þessi dramatíska hækkun viðbúnaðarstigs kemur í kjölfar þess að apabólutilvikum fjölgar hratt. Fjöldi staðfestra smita hefur sexfaldast á innan við einum og hálfum mánuði.
Fyrstu þrjú tilvikin uppgötvuðust í Bretlandi í maí og nú hafa yfir 21.000 smit verið skráð í meira en 75 löndum. Fimm andlát hafa verið tilkynnt.
Langflest smit hafa fundist í Evrópu og Bandaríkjunum og Vestur-Evrópa er það svæði þar sem tilvikum fjölgar hraðast.
Við erum alveg við það að hafa misst af tækifærinu til að hemja þennan faraldur.
Boghuma Kabisen Titanji, aðstoðarprófessor í læknisfræði hjá Emoryháskóla í Atlanta, BNA.
Um helmingur allra staðfestra smita á heimsvísu (21.148 þann 28. júlí 2022) hefur greinst í aðeins fjórum ríkjum: Spáni, Þýskalandi, Englandi og Frakklandi.
Fleiri ríki í Vestur-Evrópu skora einnig nokkuð hátt: Holland, Portúgal, Ítalía, Belgía og Sviss.
Bandaríkin eru sem stendur á toppi listans með nærri 5.000 staðfest smit en Ísland er samkvæmt þessum tölum í 41. sæti með 9 smit (28. júlí). Miðað við höfðatölu eru smitin þó mun fleiri hérlendis en í Bandaríkjunum.
„Það er mat Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar að hætta á apabólufaraldri sé enn viðráðanleg um allan heim nema í Evrópu þar sem við teljum hættuna verulega,“ segir framkvæmdastjóri stofnunarinnar, Tedros Adhanom Ghebreyesus, í fréttatilkynningu þar sem heilbrigðisyfirvöld voru hvött til að lýsa yfir hæsta viðbúnaðarstigi.
Appelsínugulu deplarnir tákna staðfest smit og stærð þeirra ræðst af fjöldanum. Bláu deplarnir sýna þau sex Afríkuríki þar sem apabóla er landlæg.
Alþjóðlegar tölur
Þrjú fyrstu staðfestu apabólusmitin voru skráð í Englandi 7. og 13. maí í ár en strax um miðjan júní voru staðfest smit orðin fleiri en 3.000 í alls 47 ríkjum.
Innan við einum og hálfum mánuði síðar, 25. júlí, hafði fjöldinn sexfaldast og var kominn yfir 18.000 í 75 ríkjum, að langstærstum hluta í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum. Þremur dögum síðar hafði smitum fjölgað um 3.000. Þessar tölur miðast við 28. júní.
1. BNA – 4.906
2. Spánn – 3.738
3. Þýskaland – 2.540
4. Bretland – 2.432
5. Frakkland – 1.837
6. Holland – 878
7. Kanada – 745
8. Brasilía – 696
9. Portúgal – 588
10. Ítalía – 426
Leggst einkum á sam- og tvíkynhneigða karlmenn
Aðeins ein rannsókn hefur verið gerð á útbreiðslu apabólunnar. Samkvæmt niðurstöðum hennar smitast fyrst og fremst karlmenn sem haft hafa kynmök við aðra karla.
Alls voru 528 smitaðir í 16 löndum rannsakaðir og spurðir og niðurstöðuskýrsla rannsóknarinnar var birt í New England Journal of Medicin þann 21. júlí í ár.
Þar kemur fram að af hinum smituðu voru 98% karlar sem skilgreindu sig sem samkynhneigða eða tvíkynhneigða. Af þeim voru 41% einnig með HIV-smit.
Samkvæmt niðurstöðunum má rekja 95% smittilvika til kynferðislegs samneytis.
„Smitið er einkum meðal karlmanna sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum – einkum þeirra sem eiga sér fleiri bólfélaga,“ segir framkvæmdastjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus.
Apabóla er skyld miklum skaðvaldi
Apabóluveiran er skyld bólusóttarveirunni og sjúkdómurinn hefur verið þekktur í mönnum síðan hann greindist árið 1970.
Dánartíðni er hins vegar miklu lægri en af völdum bólusóttar, virðist vera um 1% en bólusótt dró um 30% til dauða.
Bólusótt hafði endanlega verið útrýmt 1980 eftir mikla bólusetningarherferð en apabóla hefur ekki verið áberandi. Hún hefur einkum fundist í Vestur- og Mið-Afríku, þar sem hún er nú landlæg í sex löndum.
Að sjúkdómur sé landlægur merkir að hann er stöðugt til staðar en útbreiðslan sé hins vegar fyrirsjáanleg og tiltölulega viðráðanleg.
Kýli á handleggjum, fótum og kynfærum eru eitt helsta einkenni apabólu.
Einkenni apabólu
Meðgöngutími apabólunnar, sá tími sem líður frá smiti þar til einkenni koma fram, er að meðaltali á bilinu 6-16 dagar en getur þó verið bæði styttri og lengri.
Sjúklingurinn smitar ekki aðra meðan hann er einkennalaus. Helstu einkennin eru þessi:
- Hiti
- Kuldahrollur
- Höfuðverkur
- Vöðvaverkir
- Þreyta
- Bólga í kirtlum
- Blöðrukýli og/eða útbrot á kynfærum, endaþarmsopi, hand- og fótleggjum eða á hálsi. Kýlin gróa en skilja eftir sig varanleg ör.
Enn hefur ekki fengist nein vísindaleg skýring á því hvers vegna apabóla – og þá sérstaklega vestur-afríska afbrigðið – dreifist nú á miklum hraða um allan heim.
Áður hafa verið færðar sönnur á að í Afríku hefur bólan breiðst út við nána, líkamlega snertingu við sjúkling eða vegna snertingar við t.d. rúmföt eða handklæði sem sjúklingur hefur notað.
Munnvatnsdropar liggja líka undir grun sem smitberar en ekkert bendir til að smitið sé loftborið eins og t.d. Covid-19.
Það hafa heldur ekki verið færðar sönnur á að sjúkdómurinn smitist beinlínis við kynmök – sem sagt við að líkamsvessar frá kynfærum berist milli einstaklinga.
Það hefur vissulega tekist að finna leifar erfðaefnis veirunnar í sæði, munnvatni, þvagi og saur – en virkar veirur hafa hingað til ekki fundist í sæði smitaðra karla.
„Umframbirgðir“ af bóluefni gætu komið til bjargar
Eftir að bólusóttinni var endanlega útrýmt 1980 var hætt að bólusetja börn við þeim skæða sjúkdómi.
Árið 2008 var þó varað við því í skýrslu að einmitt apabóla gæti orðið að heimsfaraldri ef hún næði fótfestu í óbólusettu mannkyni.
Evrópska lyfjastofnunin, EMA, hefur reyndar einmitt viðurkennt bólusóttarbóluefnið Imvanex til notkunar gegn apabólu í Evrópusambandinu. Bóluefnið er þróað af danska fyrirtækinu Bavarian Nordic.
Bólusóttarbóluefnið Imvanex er nú viðurkennt til meðferðar gegn apabólu í ESB.
Imvanex hefur verið viðurkennt í ESB síðan 2013 og nú vonast menn til að bóluefnið dugi líka gegn apabólu en apabóluveiran er náskyld bólusóttarveirunni.
Síðasta útkall
Og alþjóðlegt átak er aðkallandi. Veirufræðingurinn Boghuma Kabisen Titanji, aðstoðarprófessor í læknisfræði hjá Emoryháskóla í Atlanta, BNA, sló því nýlega alveg föstu á alþjóðlegri ráðstefnu.
„Við erum alveg við það að hafa misst af tækifærinu til að hemja þennan faraldur.“
Bandarískur prófessor í faraldursfræði talaði á sömu ráðstefnu um sjúkdóm sem hefði fengið að ganga óáreittur í Afríku og sagði:
„Við höfum gefið sjúkdómnum svigrúm til að þróast og breiðast meira út en nokkru sinni fyrr – og nú er hann skyndilega orðinn að vandamáli okkar allra.“