Katrín Englandsdrottning var frómur kaþólikki og óskaði þess engan veginn að segja skilið við Hinrik 8.
Á miðöldum var engin leið fyrir hjón að skilja því hjónabandið var heilagt í augum kaþólsku kirkjunnar. Í biblíunni kom fram að hjón væru „eitt hold“ og að enginn maður gæti leyst upp það sem guð hefði sameinað.
Framhjáhaldi, svo og því að yfirgefa makann, var refsað með vandarhöggum eða sekt. Hinn seki var í versta falli útskúfaður úr kirkjunni og þá var frelsun sjálfrar sálarinnar í hættu.
Enginn annar en sérlega valdamikill maður þyrði að setja sig upp á móti þeirri kröfu kirkjunnar að hjónaband entist „þar til dauðinn aðskilur“. Slíkur maður var einmitt Hinrik 8., konungur Englands og hann tók höfnun ekki vel.
Holdsveiki engin afsökun
Páfanum Klemens 7. í Róm barst einkar undarlegt bréf dag einn í ágúst árið 1530. Hartnær eins metra breitt bókfellið var þakið innsiglum þekktra enskra aðalsmanna. Bréfið var meðal annars undirritað af Vilhjálmi Warham, erkibiskup af Kantaraborg.
Þessir ensku framámenn kröfðust þess að hjónabandi Hinriks 8. og Katrínar eiginkonu hans skyldi rift. Ef páfinn gengi ekki að þessum kröfum „myndi slíkt hafa í för með sér afdrifaríkar aðgerðir sem gagnast myndu Englandi og sem við hikum ekki við að beita“, kom fram í bréfinu.
Páfinn neitaði að beygja sig undir hótanir þessar og öskuillur konungurinn, Hinrik 8., tók málin í sínar hendur. Róttæk ákvörðun konungsins átti eftir að hrista upp í gjörvallri Evrópu.
Aðalsmenn í Englandi léðu Hinriki 8. stuðning með innsiglum á beiðni konungs um ógildingu hjónabands hans.
Skilnaðir voru bannaðir í Evrópu á tímum Hinriks 8. en þannig hafði því ekki ávallt verið farið. Í Rómarveldi til forna giltu rómversk lög en um var að ræða lagasafn sem m.a. leyfði skilnað.
Ástæða fyrir skilnaði, samkvæmt rómverskum lögum, gat m.a. verið sú að báðir aðilar óskuðu skilnaðar ellegar þá að annar aðilinn hefði verið úrskurðaður veikur á geði.
Þegar Rómarveldi leið undir lok á 5. öld eftir Krist var kristin trú opinber trú ríkisins og kaþólska kirkjan beið þess átekta að geta fyllt upp í valdatómið sem myndast hafði.
Kristin trú kærði sig engan veginn um frjálslegar reglur Rómverja hvað skilnað snerti. Kirkjufaðirinn Ágústínus af Hippo (354-430 e.Kr.) benti m.a. á framhjáhald sem löglega ástæðu skilnaðar.
Hjón sem hefðu skilið væru þó enn „bundin böndum dyggðarinnar“, benti Ágústínus á.
Hvorugt mátti ganga í hjónaband á nýjan leik fyrr en annar aðilinn væri látinn.
„Þar sem maður og kona mynda eitt hold fyrirskipum við að eiginkonur fylgi eiginmönnum sínum sem veikir eru af holdsveiki og eiginmenn sömuleiðis eiginkonum sínum“.
Alexander 3. páfi á 12. öld.
Þessi þvermóðskulega afstaða kirkjunnar mildaðist ekki næstu aldirnar. Alexander 3. páfi kunngjörði meira að segja á 12. öld að holdsveiki væri ekki næg ástæða þess að rjúfa hjónaband með skilnaði:
„Þar sem maður og kona mynda eitt hold fyrirskipum við að eiginkonur fylgi eiginmönnum sínum sem veikir eru af holdsveiki og eiginmenn sömuleiðis eiginkonum sínum“.
Konungar og keisarar ríktu opinberlega samkvæmt vilja guðs og fyrir vikið viðurkenndu flestir þjóðhöfðingjar afskipti kirkjunnar af hjónabandsmálum, því allir krýndir höfðingjar sóttust eftir blessun páfans.
Á miðöldum úði og grúði af óhamingjusömum hjónum
Engan veginn öll hjón lifðu saman í sátt og samlyndi. Sum voru neydd til að lifa saman, þrátt fyrir að kæra sig engan veginn hvort um annað, önnur voru þvinguð með ofbeldi og yfirgangi til að yfirgefa hitt.
Konungur grátbað um skilnað
Eftir tveggja ára barnlaust hjónaband hugðist Frakklandskonungur, Lótar 2., segja skilið við eiginkonu sína. Hann sakaði eiginkonuna, Teutbergu drottningu, um að hafa framið blóðskömm með bróður sínum. Kirkjan hafði mál Lótars á forræði sínu næstu tíu árin en hann fékk þó ekki skilnað áður en hann lést árið 869.
Fjárhaldsmaður lét gelda eiginmann
Þegar franski guðfræðingurinn Pierre Abélard gekk að eiga aðalsdömuna Héloïse í leyni á 12. öld, fór giftingin fram án leyfis fjárhaldsmanns hennar, frændans Fulberts sem fylltist reiði og greiddi tveimur hrottum laun fyrir að gelda Abélard. Parið endaði lífdaga sína sitt í hvoru klaustrinu en skrifuðu hvort öðru bréf.
Útskúfuð drottning fann nýjan konung
Árið 1152 hugðist hinn frómi Frakkakonungur, Loðvík 7., losa sig við lífsglaða eiginkonu sínu, Elínóru. Hún svaraði á þann veg: „Ég gekk að eiga hlut, ekki karlmann!“ Kirkjan gaf þeim leyfi til að leysa upp hjónabandið. Átta vikum síðar gekk Elínóra að eiga Hinrik 2. sem síðar meir átti eftir að verða konungur Englands.
Árið 1971 fengu tveir bandarískir menn hjúskaparvottorð – fyrstir manna af sama kyni á síðari tímum. En það þurfti töluverð klókindi til að ná þessum sögulega áfanga.
Kirkjan gerði hjónabandið heilagt
Þrátt fyrir almenna viðurkenningu leikreglanna mætti kirkjan einnig mótlæti. Þess má t.d. geta að Filippus 2. Frakklandskonungur losaði sig við drottningu sína, Ingibjörgu af Danmörku, árið 1196, fyrir þær sakir að hún væri andfúl. Konungurinn gekk því næst að eiga konuna sem hann elskaði, Agnesi, dóttur þýsk-rómverska hertogans, Bertolds af Méran.
Kirkjunni hugnaðist ekki ákvörðunin. Eftir fjögurra ára þrætur við Cólestín 3. páfa og eftirmann hans, Innósens 3., fór svo að Filippus neyddist til að taka aftur við Ingibjörgu en að öðrum kosti hefði hann glatað velvild Páfagarðs og slíka ógn leit konungurinn alvarlegum augum.
Agnes var gerð útlæg til hallar einnar norður af París, þar sem hún lést af völdum hjartveiki ári síðar.
Leiðtogar kirkjunnar tóku þá ákvörðun á kirkjuþingi árið 1215, því sem kallað hefur verið fjórða Lateran-þingið, að herða tökin á giftu fólki. Ákvörðunin fól í sér að hjónabandið væri ekki einvörðungu samkomulag milli manns og konu, heldur skyldi hjónabandið héðan í frá flokkast sem náðarmeðal en með því er átt við helgan atburð í líkingu með skírn eða altarisgöngu.
Grundvallaratriði væri að kirkjan liti héðan í frá á hjónabandið sem órjúfanlega heild en raunin var sú að kirkjunnar menn voru ekki á einu máli um skilnað.
Einungis fáir skilnaðir áttu sér stað á miðöldum í Evrópu því það taldist vera alvarleg synd að rjúfa heilagt náðarmeðal og fólk óttaðist að enda í helvíti. Fólk lét sig frekar hafa það að þjást í ömurlegu hjónabandi en að glata aðgengi að himnaríki eftir andlátið.
Brúðurin skyldi rannsökuð fyrir fram
Bann kirkjunnar var ekki einungis af guðfræðilegum toga heldur snerist málið einnig um stefnu kirkjunnar í öryggismálum.
Stofnað hafði verið til margra hjónabanda innan aðalsins sem stjórnmálalegra og hernaðarlegra bandalaga og persónulegar tilfinningar óhamingjusamra hjóna máttu helst ekki hafa í för með sér milliríkjadeilur.
Ein afleiðing þessa var að furstadæmin í Evrópu réðu iðulega til sín fjölkunnugar konur með þekkingu á mannslíkamanum til að ganga úr skugga um hvort meyjarhaft væntanlegrar brúðar væri órofið.
Brúðurin varð að vera ósnortin til að tryggja að synir sem fæddust í hjónabandinu væru „löglegir“, réttmætir erfingjar krúnunnar. Enn fremur gat hrein mey ekki smitað eiginmann sinn af sjúkdómum á borð við lekanda.
Að sjálfri hjónavígslunni lokinni var einnig unnt að komast út úr hjónabandinu. Hjónabandinu skyldi nefnilega fullnægt kynferðislega til þess að það teldist gilt í augum kirkjunnar.
Ef kona sakaði mann sinn um getuleysi og tækist honum ekki að sýna fram á holdris frammi fyrir dómurum réttarins, var málið útkljáð:
Hjónabandinu hafði ekki verið fullnægt og taldist fyrir vikið ógilt í augum guðs og það numið úr gildi.
Þýski skylmingameistarinn Hans Talhoffer lýsir hér skilnaðareinvígi milli hjóna þar sem sá aðilinn sem beið lægri hlut lét lífið.
Leysa mátti upp hjónaband með einvígi
Ef kona hlaut sigur yfir eiginmanni sínum í einvígi var það til marks um að guð leyfði skilnaðinn.
Í bókinni „Fechtbuch“ (1467) greinir þýski skylmingameistarinn Hans Talhoffer frá því að konur á miðöldum hafi getað háð einvígi við eiginmanninn til að öðlast leyfi fyrir skilnaði.
Myndir í bókinni lýsa því hvernig heyja skuli einvígið og einvíginu er lýst í smáatriðum.
„Manninum er komið fyrir í þriggja feta breiðri holu sem grafin hefur verið og skal hún ná honum upp í mitti og önnur hönd hans vera bundin fyrir aftan bak. Konan á að vera vopnuð handslöngvu með stórum steini í“, stendur enn fremur. Konan og maðurinn skulu íklædd sams konar klæðnaði. Maðurinn á að hafa þrjár kylfur til yfirráða en konan þrjár handslöngvur með steini í.
Á myndunum má sjá djúp sár sem maðurinn hafði hlotið en bæði hjónin kepptu með lífið að veði. Ef maðurinn laut í lægra haldi, t.d. af völdum þreytu eða blóðmissis, var hann dreginn upp úr holunni og tekinn af lífi á torgi bæjarins. Ef konan hins vegar hlaut ósigur var henni stungið ofan í holuna og hún brennd lifandi.
Fræðimenn eru ekki vissir um hversu algeng slík einvígi voru á miðöldum í Þýskalandi.
Skilnaðir bannaðir með öllu
Kirkjan ítrekaði enn frekar skoðun sína á hjónabandi árið 1439. Á kirkjuþingi í Flórens það ár var tekin ákvörðun um að hjónaband væri órjúfanlegt í öllum kringumstæðum, jafnvel þótt annar aðilinn hefði gerst sekur um framhjáhald.
Ákvörðun þessi byggði ekki hvað síst á þeim orðum Matthíasarguðspjallsins að „það sem guð hefur sameinað, megi enginn maður sundur slíta“.
Þessar hertu reglur öðluðust fyrst og fremst mikilvægi á þeim svæðum Evrópu þar sem dómararnir höfðu fyrirmæli kirkjunnar í heiðri. Margir þýskir, hollenskir, enskir og svissneskir dómstólar leyfðu hjónaskilnað, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og héldu því enn fremur áfram eftir árið 1439.
„Hvað er verið að selja? Kynfæri karla og kvenna“.
Þetta hafði umbótasinninn Marteinn Lúter að segja um aflátsbréfin sem fólk greiddi fyrir og fékk þannig skriflegt leyfi kirkjunnar fyrir skilnaði.
Munurinn á skilnaðarvenjum jókst verulega þegar leið á 15. öldina, jafnframt því sem styrjaldir og faraldrar geisuðu en öldina á undan hafði hvort tveggja dregið tæplega helming íbúa þessara landa til dauða.
Dómstólar í Frakklandi voru m.a. farnir að veita leyfi fyrir ógildingu hjónabands ef konan óskaði eftir að giftast öðrum, eftir að ekkert hafði frést af örlögum eiginmanns hennar í minnst eitt ár.
Ástæðan var sú að borgir og heilu sveitirnar áttu á hættu að leggjast í eyði ef ekki fæddust börn og til þess að svo mætti verða varð fólk að stofna til hjónabands. Fengi konan leyfi til skilnaðar, var fyrrverandi eiginmaður opinberlega úrskurðaður látinn og ekkjan gat gengið í hjónaband á nýjan leik.
Uppreisn gegn kirkjunni
Á 16. öld byrjuðu ýmsir guðfræðingar að hreyfa við mótmælum gegn ströngum reglum kirkjunnar. Einn þeirra var hollenski guðfræðingurinn og heimspekingurinn Erasmus af Rotterdam:
„Það hlýtur að hafa verið djöfullegur óvinur sem eyddi rétti okkar til hjónaskilnaðar“, lét Erasmus konu eina segja í verki hans, „Samtöl í þekkta fjölskylduhópnum“, frá árinu 1518 en í verki þessu beinir höfundur spjótum sínum einmitt að kirkjunni.
Erasmus af Rotterdam var einn fremsti hugsuður 16. aldarinnar og málsvari réttar til hjónaskilnaðar.
Gagnrýnendur bentu á tvöfalt siðgæði kirkjunnar. Efnuð hjón gátu skilið hvort við annað svo fremi þau gætu greitt fyrir syndaaflausn. Umbótasinnanum Marteini Lúter til mikillar gremju þénaði kaþólska kirkjan stórfé á sölu á undanþágum, þ.e. svokölluðum aflátsbréfum.
„Hvað er verið að selja? Kynfæri karla og kvenna. Skítugur og ósiðlegur varningur sem í hæsta máta hæfir þessum sölumönnum og sem græðgi og guðleysi hefur ýtt undir þörfina fyrir“, þrumaði Lúter yfir lýðnum.
Hinrik 8., Englandskonungur, gat hins vegar ekki notfært sér aflátsbréfin þar sem hann sóttist ekki eftir skilnaði heldur ógildingu hjónabandsins.
Áður en Katrín gekk að eiga Hinrik árið 1509 hafði hún nefnilega verið gift bróður hans Artúri en sá hafði látist af völdum sjúkdóms árið 1502.
Samkvæmt 3. Mósebók gamla testamentisins taldist það vera „óhreinn verknaður“ að ganga að eiga fyrrverandi eiginkonu bróður síns og slík hjón dæmdust til að vera barnlaus, var sagt.
Hinriki hafði tekist að verða sér úti um undanþágu kirkjunnar til að ganga að eiga Katrínu áður en þau gengu í hjónaband árið 1509 og þau höfðu eignast dóttur saman.
Þeim hafði hins vegar ekki orðið sonar auðið og Hinrik óttaðist að guð áliti hjónaband hans og Katrínar vera syndsamlegt.
Katrín gerði að engu allar væntingar konungsins um að láta ógilda hjónabandið með því að upplýsa að hjónabandi hennar og Artúrs hefði aldrei verið fullnægt.
Konungurinn lagði grunn að eigin kirkju
Þegar bréfið um skilnað Hinriks barst páfanum árið 1530 var siðabótin vel á veg komin. Mótmælendatrúin barst til nokkurra þýskra ríkja, til Norðurlandanna og hluta af Hollandi, þar sem skilnaður nú var leyfilegur ef eiginmaðurinn t.d. hafði yfirgefið heimilið.
Páfinn hafnaði skilnaðarumsókn Hinriks með þeim afleiðingum að konungurinn rauf öll tengsl við Róm og lagði grunninn að eigin trúarstefnu.
Nú þegar Hinrik var orðinn að yfirmanni nýstofnuðu ensku biskupakirkjunnar gat hann rift hjónabandi sínu og Katrínar og gengið að eiga fyrrum hirðdömu drottningarinnar, Önnu Boleyn, árið 1533.
Þær gátu unnið eins og karlmenn, drukkið sig fullar þar til þær ældu og jafnvel orðið guðdómlegir drottnarar landsins. Egypskar konur voru öllum konum frjálslegri á fornöld.
Hinrik 8. var þeirrar skoðunar að nýju, ensku biskupakirkjunni bæri að leyfa hjónaskilnaði en sú skoðun hans mætti gífurlegri andspyrnu innan enska þjóðþingsins og ekki náðist að vinna að öllu leyti úr ósk konungsins áður en hann lést árið 1547.
Tillagan um að lögleiða hjónaskilnaði hlaut ekki brautargengi í stjórnartíð eftirmanns hans, hins níu ára gamla Játvarðar 6. Skilnaðarbannið var raunar mildað eilítið á 17. öld en var samt í raun réttri við lýði langt fram á 19. öld.
Lesið meira um hjónaskilnaði á miðöldum
- Harry L. Munsinger: The History of Marriage and Divorce: Everything You Need to Know, Archway Publishing, 2019 S.B. Kitchin: A History of Divorce, Leopold Classic Library, 1912