Árið 1921 var austurríski hægriöfgamaðurinn Adolf Hitler kjörinn formaður lítils þýsks stjórnmálaafls, NSDAP, þ.e. nasistaflokksins, í München.
Þessi nýi leiðtogi nasistanna sem áður hafði reynt fyrir sér sem listmálari, hafði mikla þekkingu á því valdi sem myndir og tákn geta haft á mönnum.
Hann átti sjálfur virkan þátt í að hanna og útbúa mörg þeirra merkja sem við tengjum við nasisma í dag.
Allt þar til Hitler komst til valda árið 1933 höfðu nasistar unnið hug og hjörtu Þjóðverja með því að nota söguleg tákn sem efldu þjóðerniskennd og þrá eftir þeim tíma þegar Þýskaland hafði verið stórveldi.
Þegar Hitler var orðinn kanslari réð hann bókmenntafræðinginn og heimspekinginn Joseph Goebbels sem áróðursmálaráðherra og réð jafnframt kvikmyndaleikstjórann Leni Riefenstahl til að varpa ljóma á nasistana með nýjustu upptökutækni sinni í kvikmyndinni „Sigur viljans“ árið 1935.
Allt þetta var gert á þann hátt að láta stöðugt í ljós bæði dulda og augljósa merkingu tákna og merkja.
Rýnum í áróðursmaskínu Hitlers og rannsökum nokkur mikilvægustu tákn nasista.
Hakakross: Ísaldartákn í forgrunni

Hersýning nasista í Nürnberg árið 1936
Fjögur stór L hverfast um sameiginlegan miðpunkt og mynda þannig kross með brotnum örmum.
Hinn misheppnaði listamaður Adolf Hitler tók hakakrossinn svo miklu ástfóstri að hann notaði hann sem miðlæga táknmynd á fána sem hann teiknaði fyrir flokk sinn, NSDAP.
Hitler valdi breiðan svartan hakakross, lét hann standa upp á rönd með því að snúa tákninu um 45 gráður og kom krossinum þvínæst fyrir á hvítum hring með rauðum bakgrunni.
Hakakrossinn var engan veginn nýr af nálinni því Hitler hafði notað eitt elsta tákn heims á fánann sinn.
Um það bil 10.000 árum fyrir Krist hafði ísaldarmaður einn, þar sem nú er Úkraína, rist nokkra hakakrossa á fuglsmynd úr loðfílstönn en sennilega voru krossarnir hugsaðir sem heillagripir.
Tákn þetta sást svo aftur á m.a. bronsöld í Grikklandi og Indlandi þar sem það var notað sem heillatákn í trúarbrögðum hindúa, svo og búddatrú. Á indverska fornmálinu sanskrít kallaðist hakakrossinn svastíka sem er dregið af orðinu „svasti“ sem táknaði velferð og vellíðan.
SS-rúnir: Uppskrúfaðar rúnir

Hermaður úr einkalífvarðasveit Hitlers, með SS-rúnir á hjálmi sínum og kraga.
Hin rasíska hugmyndafræði nasista , var undir áhrifum frá germanska þjóðernissinnanum Guido von List (1848-1919), Austurríkismanni sem notaði rúnir víkingatímans í leit að horfinni gullöld í því skyni að útbúa sitt eigið „forngermanska rúnastafróf“.
Rúnina sem táknaði S og málvísindafólk segir hafa verið kallað *sōwilō ‚sól‘ á járnöld, vildi von List kalla „sigurrún“.
Þegar Heinrich Himmler leitaði að tákni fyrir hermennina í úrvalssveit sinni, SS-sveitinni, árið 1933 fannst honum köntuð rúnin sem von List hafði notað, henta fullkomlega.
SS-meðlimurinn og grafíklistamaðurinn Walter Heck fékk 2,50 ríkisdali í þóknun fyrir hönnun sína á tveimur S-rúnum sem minntu einna helst á eldingar en þær sagði hann bæði geta táknað SS og staðið fyrir baráttuhrópið „Sieg, Sieg“ (sigur, sigur).
Einstöku sagnfræðingar hafa raunar haldið því fram að Walter Heck hafi öðru fremur haft í huga eldingartáknið sem á að tákna háspennu og andagiftin hafi átt rætur að rekja til þess.
Hauskúpa (Totenkopf): Nasistar eignuðu sér prússneskt tákn

Bjarnarskinnshúfa með hauskúpu frá fyrri heimsstyrjöld.
Þegar SS-foringinn Heinrich Himmler hugðist umbuna meðlimum úrvalssveitar sinnar fyrir sérlega dygga þjónustu gaf hann þeim hring með höfuðkúputákni og tveimur krosslögðum beinum.
Hringnum fylgdi bréf þar sem Himmler hafði m.a. ritað „hauskúpan er áminning um að við þurfum ávallt að vera reiðubúin að fórna eigin lífi fyrir líf gjörvalls þjóðfélagsins“.
Hauskúpan prýddi að sama skapi einkennisbúningahúfur SS-liðsforingjanna, auk þess sem hún var notuð sem kragamerki á búningum hinna svokölluðu SS-hauskúpusveita en þeir hinir sömu stjórnuðu útrýmingarbúðum nasista.
Táknið hafði lengi verið notað sem hertákn í þýska hernum en þess má geta að margir hermenn í riddaraliðinu báru eins konar stílfærða höfuðkúpu á höfuðfötum sínum.
Járnkrossinn: Nasistatákn frá miðöldum

SS-liðsforingjar með járnkrossinn á kraga einkennisbúningsins á málverki frá árinu 1942.
Hinn 1. september árið 1939 hratt Adolf Hitler af stað heimsstyrjöldinni síðari með því að senda herlið inn í Pólland. Samtímis innleiddi hann á nýjan leik gömlu þýsku hernaðarorðuna Járnkrossinn.
Meðan á heimsstyrjöldinni stóð voru hartnær fimm milljón þýskir hermenn heiðraðir með ferningslöguðum krossinum með arma sem breiðast út líkt og axarblöð.
Orða þessi var útbúin í tveimur útgáfum, í 1. og 2. flokki og var hún prýdd með litlum hakakrossi í miðjunni.
Járnkrossinn sem tákn hefur verið þekktur allar götur frá því árið 1813 þegar Friðrik Vilhjálmur 3. Prússakonungur tók hann í notkun sem heiðursmerki í Napóleonsstyrjöldunum.
Arkitektinn Karl Friedrich Schinkel hannaði merkið en hann hafði til hliðsjónar þýskan orðukross frá 12. öld.
Eftir ósigur nasista árið 1945 var hakakrossinn fjarlægður af járnkrossinum og allir þeir sem heiðraðir höfðu verið með járnkrossi fengu nýjan, endurbættan kross.
Örninn: Að láni frá Rómarveldi

Luftwaffe flýgur yfir styttu af erninum í Berlín í tilefni afmælis Hitlers 20. apríl 1939. Ríkisörninn horfir til vinstri. Flokksörninn til hægri.
Örn sem breiðir út vængi sína og grípur með klónum um krans með hakakrossi í miðjunni.
Adolf Hitler valdi þetta áhrifamikla myndefni þegar hann kaus að gera örninn með hakakrossinum að þjóðartákni í Þýskalandi nasismans.
Örninn fyrirfannst í tveimur útgáfum, annars vegar horfði hann til vinstri og nefndist „Reichsadler“ (ríkisörn) en sá var tákn alls ríkisins. Hin myndin, þar sem goggurinn sneri til hægri, kallaðist „Parteiadler“ (flokksörn) og var tákn nasistaflokksins.
Ríkisörninn var að sama skapi með þéttari fjaðraham er flokksörninn.
Sú hefð að nota erni sem valdatákn á rætur að rekja til Rómarveldis þar sem rómverskir hermenn báru svonefndan „aquila“ (örn) sem stríðsfána.
Þýsk-rómversku keisararnir fluttu rómverska örninn með sér norður fyrir Alpana og Hitler kynnti vísvitandi þennan tignarlega fugl aftur til sögunnar til að minna á gullöld Þjóðverja hér áður fyrr.