Í takt við það hvernig tölvur og snjallsímar koma æ meira í stað pappírs og penna verður æ sjaldgæfara að fólk handskrifi glósur í skólum eða háskólum.
Á stöku stað má þó enn sjá einstaka nemanda skrifa hjá sér með gamla laginu líkt og í rómantískri eftirsjá.
En hvaða aðferðir eru eiginlega best fallnar til skilnings þegar við þurfum að tileinka okkur nýjan lærdóm?
Vísindamenn hjá Tækni- og raunvísindaháskóla Noregs hafa nú rannsakað málið, fundið svarið og skrifað það niður – þó líklega á lyklaborð.
Yddaðu blýantinn
40 norskir stúdentar voru með skynjara á höfði látnir skrifa niður orð sem birtust á skjá – sumir á blað en aðrir á tölvu. Vísindamennirnir fylgdust með heilavirkninni á meðan.
Einkum var fylgst með þeim heilastöðvum sem tengjast lærdómi og alveg sérstaklega með taugatengingum milli þessara heilastöðva.
Lærdómur er flókið ferli og margar heilastöðvar koma þar við sögu, m.a. svonefndur dreki (hippocampus) sem talinn er tengjast lærdómsferli og minni og gegna stóru hlutverki við myndun nýrra minninga.

QWERTY lyklaborðið, sem fékk nafn sitt af röð fyrstu sex takkanna í efstu bókstafaröðinni, kemur frá ritvélum í kring um árið 1860. Það er hannað þannig að algengustu stafapörin séu ekki við hliðina á hvort öðru, sem gerir það hraðvirkara og skilvirkara en önnur lyklaborð.
Eftir endurteknar tilraunir virtist niðurstaðan alveg ljós.
Þeir sem handskrifuðu notuðu fleiri mismunandi heilastöðvar.
Vísindamennirnir sem unnu rannsóknina segja það þýða að stærri hluti heilans sé í notkun þegar handskrifað er og vilja tengja það meiri beitingu vitsmuna sem aftur stafi af því að þegar skrifað er á blað þurfum við jafnóðum að taka skýrari afstöðu til upplýsinganna.