Aldrei fyrr hefur verið jafn margt fólk á jörðinni og nú en engu að síður höfum við aldrei verið viðlíka einmana. Nýleg rannsókn hefur leitt í ljós að einsemdartilfinningin hefur aukist til muna á undanförnum tveimur áratugum.
Einsemd er nefnilega algerlega óháð því hversu margt fólk við umgöngumst. Þessi óþægilega tilfinning getur sem sagt allt eins gripið um sig þegar við erum umkringd vinum.
Einsemd er engan veginn hættulaus. Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að hún geti kallað fram ýmsa alvarlega sjúkdóma hér og þar í líkamanum og að hún auki hættuna á ótímabærum dauðdaga.
Til allrar hamingju hafa vísindin þó einnig yfir góðum fregnum að ráða. Vísindamönnum hefur nefnilega tekist að afhjúpa nákvæmlega á hvern hátt einsemdin veldur skemmdum í heila okkar og líkama og brátt verða þeir tilbúnir með sérstaka lækningu sem getur fengið einmanaleikatilfinninguna til að hverfa í einni svipan.
Tilfinningin dreifir sér
Flestir finna fyrir einsemd einhvern tímann á lífsleiðinni en til allrar hamingju er oft um tímabundna líðan að ræða. Sífellt stærri hluti fólks skynjar einsemdina þó áfram og hún verður að langvarandi vanda fyrir bæði líkama og sál.
Í samanburðarrannsókn einni frá árinu 2022 grannskoðuðu ástralskir vísindamenn alls 57 vísindalegar rannsóknir sem allar snerust um tíðni einsemdar meðal ólíkra aldurshópa í 113 löndum.
21 prósent eldri borgara í Austur-Evrópu upplifa langvarandi einsemd.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að einsemd hrjáir aðallega unglinga og eldri borgara yfir sextugu og að tíðnin er ólík frá einu landi til annars. Einungis fimm hundraðshlutar Evrópubúa á aldrinum 18-59 ára höfðu upplifað einsemd en hins vegar var sambærilegt hlutfall fyrir unglinga á bilinu 9-14 prósent.
Þegar skoðaðir voru fullorðnir Evrópubúar sem komnir voru yfir sextugt, höfðu um 9% upplifað einsemd en dreifingin var jafnframt sú að einsemdin hrjáði einungis um 5% Norður-Evrópubúa en alls 21% þeirra íbúa Austur-Evrópu sem komnir voru yfir sextugt.
Í rannsókn einni sem gerð var í Þýskalandi árið 2021 kom í ljós að einmanaleiki meðal ungs fólks hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2000. Y-öxull skýringarmyndarinnar sýnir meðalniðurstöður í einsemdarprófi sem lagt var fyrir ungt fólk.
Í áþekkri greiningu sem gerð var árið 2021 rannsökuðu þýskir vísindamenn þróun einsemdar meðal ungs fólks á árunum 1976 til 2019. Niðurstöður þeirra leiddu í ljós að einmanaleikatilfinningin hélst nokkurn veginn óbreytt fram til aldamótanna en fór síðan hækkandi sem nam um það bil einum hundraðshluta á ári.
Ástæða hækkunarinnar er óþekkt er vísindamenn nefna til sögunnar útbreiðslu internetsins sem hugsanlega orsök, svo og þá tilhneigingu fólks að flytjast búferlum og setjast að víðs fjarri æskuheimilinu.
Einsemd þrífst í vinahópi
Einsemd mætti skýra sem neikvæða tilfinningu sem fólgin er í því að félagsleg tengsl okkar við aðra uppfylla ekki þarfir okkar. Fólk er hins vegar misjafnt og hefur hver og einn sínar þarfir sem gerir það að verkum að sumt fólk finnur fyrir einsemd við nákvæmlega þær sömu aðstæður sem öðrum líður vel í.
Þessi einstaklingsbundna skilgreining á einsemd á þátt í miklum mun hvað snertir einmanaleikatilfinningu ólíkra þjóðfélagshópa. Sem dæmi hafa unglingar ákaflega mikla þörf fyrir að mynda nána vináttu og hættir fyrir bragðið einkar mikið við einsemd.
Gamlir, fúllyndir karlar og ruglað gamalt fólk sem ekki man nokkurn skapaðan hlut. Fjöldinn allur af sögusögnum segir okkur hvernig veiklun heilans hafi áhrif á okkur í ellinni. Margt af þessu eru mýtur sem ekki halda vatni.
Skilgreiningin táknar enn fremur að einsemd þarf ekki endilega að fela í sér félagslega einangrun þó svo að sú sé engu að síður oft raunin. Sumt fólk þrífst afar vel eitt með sjálfu sér og finnur ekki fyrir einsemd þótt það sé í takmörkuðum tengslum við aðra.
Á sama hátt geta margir fundið fyrir einsemd þrátt fyrir að vera umkringdir öðrum. Einsemd ræðst nefnilega ekki af fjölda vina, heldur einnig af gæðum vináttunnar. Góð vinátta einkennist m.a. af nálægð, viðurkenningu og skilningi.
Þetta tókst vísindamönnum við háskólann í Suður-Danmörku að sýna fram á þegar þeir lögðu spurningalista fyrir nemendur áttunda bekkjar.
„Ég á vini í bekknum en enga nána vini.“
Matthías, Nemandi í 8. bekk
Matthías, 15 ára, greindi t.d. frá því að hann fyndi fyrir einsemd þrátt fyrir að eiga vini:
„Mér finnst gaman í skólanum. En ég er engu að síður einmana í bekknum, ef þannig má að orði komast. Ég á reyndar vini í bekknum en þeir eru ekki nánir vinir mínir. Ég tengist engum í bekknum […] einmana á þann hátt. Líkt og það vanti einhvern … einhvern sem hugsar um mig. Það finnst mér vanta.“
Heilinn skreppur saman
Langvarandi einsemd er ekki aðeins óþægileg heldur getur hún jafnframt haft áhrif á samsetningu heilans.
Þetta tókst þýskum heilasérfræðingum við Charité-háskólasjúkrahúsið í Berlín að sýna fram á árið 2019 þegar þeir rannsökuðu níu heimskautavísindamenn sem voru á leið í 14 mánaða langan leiðangur til Suðurskautslandsins, án samneytis við vini og ættingja.
Heilasneiðmyndir sem teknar voru fyrir og eftir ferðina leiddu í ljós að heilasvæðið gyrus dentatus í heilaberkinum hafði minnkað um sjö hundraðshluta og að önnur svæði heilabarkarins, m.a. það sem á latínu kallast orbitofrontal cortex, hafði skroppið saman um þrjá til fjóra hundraðshluta.
Heimskautavísindamennirnir áttu enn fremur í meira basli með að einbeita sér og að leysa verkefni sem kröfðust rúmfræðilegrar greindar.
Einmana heila hungrar í samveru
Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að bæði sultur og einsemd virkja stjórnstöðvar heilans fyrir grunnþarfir og þær hvetja okkur til að gera eitthvað í málunum.
1. Heilasvæði stýrir félagslífi
Félagslegt líf okkar stjórnast af tóttarennisberkinum (orbitofrontal cortex) (rautt) fremst í heilanum. Hann virkjar m.a. svokallaðan forfleyg (fjólublátt) og ennisblöðin (blátt) sem gagnast okkur við að lesa í skapferli annarra og að aðlaga hegðun okkar í samræmi við þær upplýsingar.
2. Einsemd skapar ríka þörf
Einsemd dregur úr virkninni í félagsstöðvunum þremur. Á hinn bóginn eykst virknin í svæði sem kallast SN/VTA (gult) í miðheilanum. Svæði þetta orsakar ríka þörf fyrir að uppfylla grunnþarfir í líkingu við mat, kynlíf og félagslegt samneyti.
3. Þörf gangsetur félagsleg tengsl
Ef svæðið SN/VTA hefur virkjast af völdum einsemdar sendir það frá sér boð til tóttarennisbarkarins sem hvetur okkur til að viðhafa félagslegt samneyti og sér til þess að ennisblöðin og forfleygurinn geri okkur kleift að hitta annað fólk.
Jafnvel skammvinn einsemd getur haft áhrif á heilann en þess má geta að áhrif einsemdar komu hópi bandarískra fræðimanna við MIT háskólann verulega á óvart árið 2020.
Þeir skiptu þátttakendum tilraunarinnar í tvo hópa og var annar hópurinn látinn svelta í tíu klukkustundir en hinn hafður í algerri einangrun í jafn langan tíma.
Að þessu loknu voru teknar sneiðmyndir af heilum allra þátttakendanna á meðan þeir horfðu á myndir af girnilegum mat annars vegar og glaðlegum vinahópum hins vegar.
Heilinn framleiðir meira af efninu oxýtósíni í takt við hækkandi aldur, ef marka má niðurstöður rannsókna.
Sneiðmyndirnar leiddu í ljós að sultur og einsemd hafa nánast alveg sömu áhrif á heilann, því hvort tveggja virkjar svæði í miðheila sem kallast SN/VTA sem hrinti af stað gífurlegri þörf fyrir annað hvort fæðu eða félagslegt samneyti.
Tilraunin leiddi í ljós að félagslegt samneyti er okkur svo mikilvægt að framþróunin hefur beinlínis gert það að verkum að heilann þyrstir í félagsskap annarra eftir einungis örfárra klukkustunda einveru.
Einsemd deyðir
Eyðileggingin sem einsemd veldur í heilanum hefur greinileg áhrif á andlega heilsu okkar. Rannsóknir hafa m.a. leitt í ljós að einsemd veldur einkennum geðrænna kvilla á borð við þunglyndi, kvíða og streitu.
Einsemd hefur hins vegar ekki einvörðungu áhrif á heilann því einmanaleikinn setur allan líkamann í viðbragðsstöðu með því að auka framleiðslu streituhormónsins kortísóls sem hefur í för með sér skemmdir í frumum, vefjum og líffærum og getur þetta haft alvarlegar afleiðingar.
Einsemd eykur hættuna á ótímabærum dauðdaga um 22 af hundraði.
Aukin kortísólframleiðsla veldur því m.a. A ð blóðþrýstingurinn hækkar og hættan á alvarlegum hjarta- og æðasjúkdómum eykst. Þá hættir ónæmiskerfið að gera fullt gagn og líkaminn verður verr varinn gegn sýkingum, krabbameini og sykursýki. Einsemd hefur að sama skapi áhrif á atferli okkar sem gerir það að verkum að þeir sem eru einmana borða síður holla fæðu, sofa verr og fá ónóga hreyfingu.
Í spænskri samanburðarrannsókn frá árinu 2018 voru bornar saman mýmargar rannsóknir á þessu sviði og leiddi hún í ljós að einsemd eykur hættuna á ótímabærum dauðdaga um 22 af hundraði.
Einsemd herjar á allan líkamann
Einsemd skaðar ekki einvörðungu heilann og andlega líðan okkar heldur getur hún að sama skapi haft banvæn áhrif víðar í líkamanum.
1. Einsemd truflar svefnstöðvar
Þeir sem eru einmana eiga oft í basli með að sofna, vakna iðulega á nóttunni og eru ekki úthvíldir að morgni. Ástæðan er sú að einsemd hefur í för með sér tilfinningalegt álag sem m.a. bitnar á undirstúku heilans sem svefninum er stjórnað í.
2. Hjartað finnur fyrir streitu
Einsemd veldur því að heilinn eykur framleiðslu nýrnahettnanna á streituhormóninu kortisóli. Hormón þetta orsakar m.a. hærri blóðþrýsting og eykur, til lengri tíma litið, hættuna á alvarlegum hjarta- og æðasjúkdómum á borð við hjartaáfall og heilablóðfall.
3. Ónæmiskerfið orsakar sjúkdóm
Einsemd kemur ójafnvægi á ónæmiskerfið með þeim afleiðingum að það framleiðir svokallaða forbólgumyndandi frumuboða. Efni þessi valda þrálátum bólgum í vefjum líkamans sem geta verið fyrirboðar sykursýki, krabbameins eða elliglapa.
Aukin hætta á sjúkdómum og dauða gerir það að verkum að gífurleg þörf er fyrir úrræði gegn einsemd. Nú á dögum er einsemd meðhöndluð með ýmiss konar meðferðarúrræðum og þjálfun.
Hugræn atferlismeðferð miðast t.d. við að breyta neikvæðum hugsunum yfir í jákvæðari sýn á aðstæðurnar. Núvitund getur gagnast til að draga úr streitu og kvíða en þjálfun í félagsfærni beinist að því að þróa getu til að byggja upp og viðhalda tengslum við aðra.
Í alvarlegum tilvikum er unnt að beita þunglyndis- eða kvíðastillandi lyfjum til að draga úr einkennum sem tengjast einsemd en slík lyf ráðast raunar ekki á líffræðilegu starfsemina sem liggur til grundvallar einsemdinni og áhrifum hennar á líkamann. Vísindamenn róa fyrir vikið að því öllum árum að þróa ný lyf.
Mýs varða leiðina
Vísindamenn hafa m.a. áhuga á tiltekinni gerð boðefna í heila sem kallast tachýkínín. Ýmsir sálrænir ferlar stjórnast af þessum efnum, m.a. sársauki, streita, kvíði og hugsanlega félagslegt atferli.
Árið 2018 tókst taugasérfræðingnum Moriel Zelikowsky við Tækniháskólann í Kaliforníu að sýna fram á að tachýkínín safnast upp í heila þeirra músa sem haldið er einangruðum lengi og þróa með sér einkenni einmanaleika.
Þegar hún svo meðhöndlaði mýsnar með efni sem dró úr virkni tachýkínínsins fóru mýsnar skyndilega að hegða sér eðlilega, líkt og þær glímdu ekki lengur við einsemd.
Tilraunir með mýs hafa leitt í ljós að boðefni sem kallast tachýkínín (rautt) safnast fyrir í heilum músa sem eru einangraðar frá öðrum músum.
Tachýkínín er enn fremur að finna í heila manna og ef efnin hafa sömu áhrif þar og í músum kann meðhöndlun Moriels Zelikowskys að greiða götuna fyrir áhrifaríkum lyfjum sem hefta einmanaleikann áður en hann fer að valda skemmdum í líkamanum.
Þessar nýlegu rannsóknir færa þeim milljónum manna von sem þjást af einsemd. Hugsanlega mun vísindamönnum takast að draga úr sívaxandi einkennum þessarar lífshættulegu tilfinningar með notkun lyfja og nýrrar þekkingar á náttúrulegum óvinum einsemdarinnar, á borð við nánd og skilning.