Eyrnasuð: Þig langar ekki að upplifa það á tónlistarhátíð

Háværir tónleikar geta skilið eftir sig suð í eyranu. Afleiðingarnar eru þó langtum, langtum verri en „eingöngu“ eyrnasuð (Tinnitus). Taktu nú vel eftir.

Maðurinn

Lestími: 3 mínútur

 

Hvinur í eyra eftir mjög háværa rokktónleika getur verið til marks um að eyrað hafi skaddast. Hér er að sjálfsögðu átt við heyrnarskerðingu.

 

Árið 2017 þjáðust um 13 prósent allra Dana , þ.e. um hálf milljón manns, af sjúkdómnum „eyrnasuði“ (tinnitus). Þetta kom í ljós í víðtækri rannsókn þar í landi.

 

Þetta svaraði til 1,6 prósentu aukningar frá árinu 2010. Langflestir þeirra sem þjáðust af eyrnasuði voru eldri karlmenn.

 

Í Svíþjóð eru sambærilegar tölur enn hærri. Þar er talið að eyrnasuð hrjái um 15% þjóðarinnar. Þetta samsvarar hálfri annarri milljón manns. Á Íslandi er hlutfallið mjög svipað en hér er talið að á bilinu 10-20% allra þjáist af eyrnasuði.

 

Svipaða tíðni er að finna í Bretlandi og ýmsum Evrópulöndum.

 

Alvarlegar afleiðingar

 

Ráðlegt er að taka því alvarlega að heyra suð í eyranu. Því það er ekki „bara“ þetta skyndilega leiðindahljóð sem er vandamálið. Aðalvandinn er nefnilega fólginn í afleiðingunum sem lýsa sér í skertri heyrn og sjúkdómnum eyrnasuði.

 

Einungis þriðjungur þeirra sem þjáist af eyrnasuði finnur ekki fyrir neinum öðrum fylgikvillum.

 

Hinir tveir þriðju þjást af þunglyndi, kvíða, einbeitingar- og svefnörðugleikum, hljóðnæmni og kjálkaspennu. Þetta kom í ljós í viðamikilli breskri rannsókn sem gerð var við háskólann í Nottingham árið 2016.

 

Fyrir neðan myndina má lesa um ástæður eyrnasuðs.

 

Þannig nemur eyrað hljóð

Ytra eyrað beinir hljóðinu inn

 

Hljóðbylgjurnar sem hljómsveit eða söngvari framkalla lenda á ytra eyranu. Þaðan berast bylgjurnar gegnum eyrnagöngin og inn að hljóðhimnunni í miðeyranu.

 

2

Hljóð virkjar hljóðhimnu miðeyrans

 

Hljóðbylgjurnar lenda á hljóðhimnunni sem byrjar að titra. Nákvæmlega eins og gerist með trommuhúð. Hreyfingin virkjar þrjú örsmá bein – hamar, steðja og ístað – sem magna hljóðið og senda það gegnum himnu til innra eyra.

 

3

Innra eyrað breytir hljóði í boð

 

Innra eyrað er fyllt með vökva sem byrjar að hreyfast þegar hljóðbylgjurnar berast. Hreyfingarnar ýta við þúsundum smásærra, mjög næmra hárfrumna sem mynda rafboð. Heilinn túlkar boðin sem hljóð, þökk sé heyrnartauginni.

 

Þess vegna heyrist eyrnasuð

 

Kuðungur eyrans er með kuðungslögun, líkt og heitið gefur til kynna. Innan í kuðungnum er að finna þúsundir hárfrumna í seigfljótandi vökva. Þar sem kuðungurinn mjókkar stöðugt í átt að miðjunni eru ólíkar hárfrumur örvaðar í samræmi við tíðni hljóðsins.

 

Hreyfingar hárfrumnanna breytast að lokum í rafboð sem send eru með heyrnartauginni áfram til heilans.

 

Eftir háværa tónleika er hætt við að margar þessara hárfrumna séu í slíkum mæli oförvaðar að þær haldi áfram að senda boð til heilans, jafnvel eftir að tónlistin hættir.

 

Það eru þessi merki sem við heyrum sem hvin í eyranu. Yfirleitt hættir hljóðið eftir svolitla stund. Þeir sem hlusta ítrekað á háværa tónlist eða eru oft í miklum hávaða eiga það á hættu að hvinurinn verði viðvarandi. Þetta er það verulega óþægilega ástand sem kallast „eyrnasuð“.

 

Þetta ráða eyrun við

 

Hávært, venjulegt samtal er í kringum 60 desíbel. Í grennd við 90 desíbel verður hljóðstyrkurinn svo mikill að við þurfum að vernda eyrun ef dvalið er lengi í slíkum hávaða, t.d. á byggingarsvæði.

 

Rokktónleikar geta mæta vel verið í grennd við 120 desíbel.

 

Sársaukamörkin, sem sé hvað óverndað eyra þolir að heyra, eru í námunda við 125 desíbel. Slíkur hávaði myndast m.a. þegar þota hefur sig á loft.

 

Desíbelmörkin sem hljóðhimnan springur við eru í kringum 180 desíbel. Slíkur hávaði heyrist m.a. ef staðið er við hliðina á fallbyssu sem skotið er úr eða við hlið sprengju sem springur.

 

Ofangreind desíbelmörk ráðast einnig af tónhæð (Hz), lofthita, loftraka og fjarlægð.

 

Hljóð er mælt með mismunandi aðferðum allt eftir því hvaða upplýsingum er sóst eftir.

 

 

Hertz: Tónhæð er mæld í hertz, Hz. Hertz segir til um fjölda bylgna á sekúndu og gefur því til kynna tíðni hljóðsins. 1 Hz svarar þannig til einnar sveiflu á sekúndu.

 

 

Desíbel: Hljóðstyrkurinn er hins vegar mældur sem desíbel, db(A). Desíbelkvarðinn er lógaritmískur þannig að hækkun um 3 dB jafngildir tvöföldun hávaðans. Tvöföldun á 80 db(A) er sem sé ekki 160 db(A), heldur 83 db(A).

 

 

 

15.05.2021

 

Ritstjórn

 

 

 

(Visited 684 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR