Lifandi Saga

Hin dularfulla María Magdalena var nákomin frelsaranum

Lét hún stjórnast af sjö illum öndum, var hún vændiskona eða móðir heilags barns? Hugmyndir um þá konu biblíunnar sem mest hefur verið á milli tannanna á fólki undanfarin 2.000 ár hefur tekið stöðugum breytingum og hér gefur að líta skýringuna.

BIRT: 01/04/2024

Við gröf eina í útjaðri Jerúsalemborgar situr kona og grætur. Í gröfinni hvílir Jesú og konan sem grætur er María Magdalena, dyggur lærisveinn hans.

 

Þegar María kom þangað var gröfin mannlaus. Skyndilega birtust inni í gröfinni tvær verur sem lýsti af: „Kona, hví grætur þú?“

 

„,Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni og við vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann“, segir hún grátandi.

 

Hún snýr sér við. Á bak við hana stendur þriðja veran.

 

„María!“ hrópar maðurinn og um leið ber hún kennsl á Jesú.

 

„Meistari!“, kallar hún.

 

Einhvern veginn svona hljómar helsta kraftaverk kristindómsins – upprisa Jesú á páskadag. En þó svo að María hafi verið sjónarvottur stendur ekkert í biblíunni um það hver hún var og á hvern hátt hún tengdist Jesú.

 

Með því að lesa guðspjöllin og seinni tíma túlkanir á þeim kemur þó í ljós að sterk öfl hafa breytt orðspori Maríu Magdalenu verulega. Hér gefur að líta skýringar á nokkrum mótsagnakenndum lýsingum á þessari goðsagnakenndu konu biblíunnar.

 

María Magdalena fylgdi Jesú

Næst í röðinni á eftir Maríu mey, móður Jesú, er María Magdalena mikilvægasti kvendýrlingur kaþólsku kirkjunnar. Í nýja testamentinu er hartnær engar upplýsingar að hafa um hana en hún var þó vitni að tveimur mikilvægustu atburðunum í lífi Jesú: Krossfestingunni og upprisunni.

 

Fyrir bragðið hafa kristin kirkja, fylgjendur hennar, svo og allir trúarbragðafræðingar heims undanfarin 2.000 ár reynt að setja á svið sögu hennar og svara spurningunni um það hvaða máli hún skipti fyrir Jesú.

María Magdalena var sennilega frá borginni Magdala, á bökkum Genesaretvatns í norðurhluta þess sem nú heitir Ísrael.

Á dögum Jesú voru konur að öllu jöfnu lítils metnar í þjóðfélaginu en ef marka má trúarbragðafræðinga var þessu á annan hátt varið í frumkristni.

 

Fylgjendur Jesú voru jafnt karlar sem konur, fólk sem hafði sagt skilið við sitt fyrra líf til að fylgja honum sem lærimeistara.

 

Ein þeirra var María, með viðurnefnið Magdalena sem sennilega hefur átt að gefa til kynna borgina sem hún var fædd í, Magdala við Genesaretvatn.

 

María Magdalena var haldin illum öndum

Elstu og fyrir vikið trúverðugustu heimildirnar sem lýsingar á Maríu Magdalenu byggja á eru guðspjöllin fjögur sem talið er að hafi verið rituð 30-70 árum eftir andlát Jesú nærri árinu 33. Í þeim er hún nefnd á nafn alls 13 sinnum sem er oftar en við á um aðrar konur og marga karlmenn úr hópi lærisveinanna.

 

Nafn hennar ber á góma í fyrsta sinn hjá guðspjallamanninum Lúkasi sem segir að Jesú hafi ferðast bæja á milli og predikað um guðs ríki:

 

„Með honum voru þeir tólf, svo og nokkrar konur sem læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Þarna var María sem bar viðurnefnið Magdalena sem sjö illir andar höfðu yfirgefið, svo og Jóhanna […] og Súsanna og margar aðrar. Þær (konurnar, ritstj.) hjálpuðu þeim (lærisveinunum, ritstj.) með fjármunum sínum“.

Fornleifafræðingar grafa í fæðingarbæ Maríu Magdalenu

Fátt er vitað fyrir víst um líf Maríu Magdalenu en fræðimenn álíta hana vera frá fornaldarborginni Magdala. Árið 2009 hófu ísraelskir fornleifafræðingar uppgröft við borg þessa sem stendur við Genesaretvatn og fundu margt merkra muna.

Bænahús í Magdala frá dögum Jesú

Fornleifafræðingarnir telja rústir þessa 120 m2 bænahúss stafa frá árunum 500 f.Kr. til 70 e.Kr., þ.e. frá því áður en Rómverjar réðust inn í Jerúsalem og og eyðilögðu gyðingabænahúsið. Bænahúsið er talið vera meðal sjö elstu bænahúsa sem fundist hafa í Ísrael.

Steinn með lágmynd af kertastjaka

Í Magdala-bænahúsinu fundu fornleifafræðingar ferhyrndan útskorinn stein, prýddan lágmyndum. Ein þeirra sýnir sjöarma ljósastiku sem ætíð skyldi loga ljós á til marks um óslökkvandi trú gyðinga á guð.

Bænahús nr. 2 fannst

Árið 2021 grófu fornleifafræðingar upp annað bænahús í fornaldarborginni sem var mikilvægur samstaður gyðinga.

 

Fundurinn styrkir þá kenningu að Jesús hafi dvalið í borginni, sem var mikilvægur samkomustaður gyðinga.

Markúsi segist jafnframt svo frá að Jesú hafi rekið illa anda úr Maríu Magdalenu. En þó svo að urmul lýsinga á særingum sé að finna í Nýja testamentinu, þar sem þeir andsetnu rífa af sér fötin og kastast fram og aftur meðan á særingunum stendur, er enga lýsingu að finna á því hvernig Jesú losaði Maríu Magdalenu við illu andana.

 

Kristnu fólki þótti ofur eðlilegt að hún hafi verið þakklát og síðan fylgt Jesú í blíðu og stríðu. Og skýringuna á því að hún hafi „hjálpað Jesú með fjármunum sínum“ túlka skýrendur á þann veg að hún hafi verið efnuð kona.

 

Guðspjallamennirnir fjölluðu um Maríu Magdalenu

Guðspjallamönnunum fjórum kemur saman um að hún hafi verið viðstödd krossfestinguna, þó svo að lýsingar þeirra séu ekki allar á einn veg.

 

Lúkas nafngreinir ekki konurnar sem voru viðstaddar en Markús, Matteus og Jóhannes nefna hana hins vegar á nafn, ásamt hinum konunum sem fylgdust með þegar Rómverjar negldu Jesú við krossinn og létu hann hanga á Golgatahæð allt þar til hann gaf upp andann.

 

Guðspjallamennirnir eru enn fremur á einu máli um að örendur líkami frelsarans hafi verið tekinn niður og greftraður og bæði Markús og Matteus segja Maríu Magdalenu hafa verið viðstadda greftrunina en Lúkas á hinn bóginn nefnir „nokkrar konur“.

 

Seinni tíma sagnfræðingar hafa raunar sumir hverjir efast um að Jesú hafi í raun verið borinn til grafar. Flestum sakamönnum sem voru krossfestir var í kjölfarið varpað á afvikinn stað þar sem villihundar gátu étið líkin.

 

Hins vegar ber öllum guðspjallamönnunum saman um að María Magdalena hafi komið fyrst allra að tómri gröf Jesú.

„Yrði gerður tæmandi listi yfir helgar minjar kæmi í ljós að hver postuli hefði verið með minnst fjóra líkama og hver dýrlingur ekki færri en tvo eða þrjá“.
Sagði Jóhannes Kalvín hæðnislega um helgigripi kaþólskra.

Í Markúsarguðspjalli á hún þó að hafa komið að gröfinni ásamt tveimur öðrum konum. Þar birtist konunum engill sem sagði þeim að Jesú væri upprisinn frá dauðum.

 

Í Matteusarguðspjalli koma María Magdalena „og önnur María“ að gröfinni þar sem engillinn segir þeim að hinn látni sé upprisinn frá dauðum og síðan birtist Jesú þeim.

 

Í Lúkasarguðspjalli segir frá fjórum konum sem ganga til grafarinnar þar sem þeim mæta tveir englar en raunar ekki Jesú sjálfur. Í Jóhannesarguðspjalli er María Magdalena látin vera einsömul við gröfina þegar hún kemur auga á tvo engla fyrst og síðan einnig Jesú sem birtist henni og segir:

 

„Snertu mig ekki. Ég er enn ekki stiginn upp til föður míns“.

 

María Magdalena flutti fregnirnar af endurkomu Jesú til hinna lærisveinanna og eftir það er hún ekki nefnd oftar á nafn.

 

Páfinn bjó til iðrandi skækjuna

Þessar takmörkuðu upplýsingar um Maríu Magdalenu ólu af sér aldalangar þrætur meðal kristinna manna um hver hún hafi verið.

 

Árið 591 e.Kr. batt Gregoríus 1. páfi endi á allar slíkar rökræður.

 

Þegar þetta var, geisaði faraldur í Rómarborg. Gregoríus var þess fullviss að iðrun og yfirbót myndu fá himnaföðurinn til að hætta að refsa mönnunum þegar hann yrði þess áskynja að þeir refsuðu sjálfum sér fyrir syndir sínar.

 

Hinn 14. september hélt Gregoríus fyrir vikið ræðu um Maríu Magdalenu í kirkju heilags Klementíusar í Róm. Hann sagði hana hafa verið iðrandi skækju sem öðlast hefði frelsun guðs. Gregoríus beitti því bragði að sameina þrjár konur í eina: Maríu Magdalenu og tvær aðrar konur úr biblíunni:

 

„Þá konu sem Lúkas kallar syndsamlega og Jóhannes nefnir Maríu, tel ég eiga að vera Maríu þá sem Markús segir sjö illa anda hafa verið rekna úr“.

Urmull kvenna var við gröf Jesú og eru minnst þrjár þeirra sagðar hafa borið nafnið María.

María var tískunafn fornaldarinnar

Á dögum Jesú hét um það bil fjórða hver kona í Palestínu annað hvort Mariam eða Mirjam en um er er að ræða aramísku og hebresku myndirnar af nafninu María. Í biblíunni úir og grúir af Maríum og er þeim iðulega ruglað saman.

 

– María, móðir Jesú

Jómfrú fæddi Jesú

María bjó með foreldrum sínum í Nasaret og var lofuð smiðnum Jósef sem ung stúlka. Þó svo að María yrði þunguð án afskipta Jósefs entist hjónaband þeirra.

 

– María, móðir Jakobs

Kona bar myrru

Jakob var einn af lærisveinum Jesú og var móðir hans, María, einnig meðlimur safnaðarins. Hún og aðrar konur komu með ilmandi myrru að gröf Jesú samkvæmt gyðingahefð þess tíma.

 

– María, eiginkona Klopa

Svilkona Maríu meyjar

Hún hefur að öllum líkindum verið gift bróður Jósefs og því verið svilkona Maríu meyjar. Hún var viðstödd krossfestinguna og sumir textar herma jafnframt að hún hafi verið við gröfina ásamt Maríu Magdalenu.

 

– María frá Betaníu

Grét við fætur frelsarans

Ásamt systur sinni, Mörtu, skrifaði hún Jesú og leitaði ásjár hans vegna bróðurins, Lasarusar sem var við dauðans dyr. Jesú lífgaði Lasarus seinna upp frá dauðum, fjórum dögum eftir andlátið.

Önnur konan á að hafa verið María frá Betaníu, systir Lasarusar sem Jesú vakti upp frá dauðum. Hin ljúfa María frá Betaníu hafði smurt fætur Jesú með dýrum ilmefnum, gerðum úr svokallaðri nardusjurt og þerrað síðan fætur hans í hári sínu (Jóhannesarguðspjall).

 

Hin konan var ónafngreind syndug kona úr Lúkasarguðspjalli sem hafði þvegið fætur Jesú með smyrsli úr alabasturskrukku, baðað þá með tárum sínum og þerrað með hári sínu.

 

Lúkas greinir ekki frá syndum konunnar en Gregoríus páfi telur engum vafa undirorpið að hún hafi verið vændiskona.

 

Notkun ilmefna telur páfinn hafa verið leið vændiskvenna til að leiða menn til glötunar og hver önnur en skækja myndi nota nautnalegt hár sitt til að þerra með fætur karlmanns?

 

Það að María Magdalena hafi verið haldin illum öndum rímaði ákaflega vel við að hún væri spillt kona sem seldi líkama sinn.

 

Þegar Jesú rak illu andana á brott horfðist skækjan í augu við syndir sínar og iðraðist. Böðuð í tárum öðlaðist hún fyrirgefningu Jesú og með sama hætti áttu bænir og iðrun að frelsa Rómverja undan oki faraldursins, ef marka mátti Gregoríus.

 

María Magdalena gerðist einsetukona og varð dýrlingur

Sú mynd af Maríu Magdalenu sem Gregoríus páfi púslaði saman var hin viðtekna skoðun kirkjunnar á konunni í 1.400 ár en þess má þó geta að bera fór á nýjum útgáfum af persónu hennar strax á 10. öld. Í mörgum frásagnanna er hún alls ekki sögð hafa verið vændiskona, heldur sú sama og María frá Betaníu, systir Lasarusar.

 

Í Frakklandi suðu munkar saman nýjar sögur um Maríu Magdalenu eftir upprisu Jesú: Rómverjar áttu að hafa hrakið hana á brott og hún á að hafa siglt til Frakklands ásamt öðrum lærisveinum þar sem hún hafi komið að landi í Marseille.

 

Hér hafi hún predikað kristilegan boðskap, gert kraftaverk og síðan dregið sig í hlé frá umheiminum og lifað sem einsetukona í helli næstu 30 árin, án matar og drykkjar. Að lokum hafi munkur einn fundið hana. Hún hafði trúað honum fyrir að hún væri María Magdalena og því næst gefið upp andann.

Listamaðurinn Donatello gerði tréskurðarmynd af Maríu Magdalenu í kringum 1440 þar sem hún kemur fyrir sjónir sem gömul, horuð kona.

Á þessum tímum var mikil sala í helgimunum og fyrir vikið upphófust heiftarlegar deilur um jarðneskar leifar Maríu Magdalenu.

 

Benediktsklaustrið Vézelay í Búrgund og dóminíkuklaustrið Saint Maximin í Próvins sögðust bæði vera með bein hennar og skálduðu upp afar flóknar sögur sem áttu að sanna að um væri að ræða bein hennar í raun og veru.

 

Þúsundir munka fóru í pílagrímsferð til beggja klaustra því fáir dýrlingar hafa notið jafn mikilla vinsælda og María Magdalena. Bæði klaustrin fóru þess á leit við páfann að hann úrskurðaði að þeirra bein væru hinar réttu jarðnesku leifar Maríu Magdalenu og árið 1295 fann Bonifasíus 8. páfi sig knúinn til að leysa þrætumálið.

 

Málið var hið vandræðalegasta fyrir páfann því einn fyrirrennara hans lýst því yfir að þriðju líkamsleifarnar tilheyrðu hinni raunverulegu Magdalenu.

 

Bonifasíus var beittur miklum þrýstingi þegar hann valdi beinin í Saint Maximin-klaustrinu. Með því vali tryggði hann sér velvild hins valdamikla rannsóknardómara, Bernard Gui sem sjálfur hafði útbúið sönnunargögn fyrir Saint Maximin um réttan uppruna beinanna.

Sagnfræðiheimildir staðfesta að Jesús hafi dáið á krossinum, en hins vegar þykir vafasamara að hann hafi unnið „undursamleg verk“.

Endurreisnartímabilið breytti ímynd Maríu Magdalenu

Í Saint Maximin-klaustrinu var að finna höfuðkúpu með húðflipa á enninu, þar sem sagt var að Jesú hefði kysst Maríu Magdalenu, svo og glerkrukku með nokkrum hárum og enn fremur silfurkistu með kraftaverkabeinunum sjálfum. Þessir helgigripir löðuðu að ógrynni pílagríma sem klaustrið hafði gríðarmiklar tekjur af.

 

Lánið lék hins vegar við reglu dóminíkubræðranna árið 1515 þegar franska drottningin Lovísa frá Savoyen, lagði lykkju á leið sína og hélt þangað. Drottningin var svo bergnumin af gersemum staðarins að hún réð fransiskumunkinn Guyart des Moulins til að semja myndskreytta ævisögu um líf Maríu Magdalenu.

 

Guyart des Moulins skoðaði helgisagnirnar gaumgæfilega og komst m.a. að raun um að biblían greindi hvergi frá því að Jesú hefði kysst Maríu Magdalenu á ennið.

„Meira að segja Jesú drýgði hór með Maríu Magdalenu“.

Þetta á Marteinn Lúter að hafa sagt í kvöldverðarveislu árið 1532.

Hin áhugasama drottning Lovísa bað Guyart des Moulins um að leiða hið sanna í ljós. Sér til aðstoðar hafði hann einn viðurkenndasta fornmenntafræðing Evrópu, Jacques Lefèvre d’Étaples.

 

Lefèvre taldi guðspjöllin fjögur vega þyngra en túlkun Gregoríusar og tilgerðarlegar helgifrásagnir kaþólsku kirkjunnar.

 

„Aðferðir rannsóknarinnar eru þær að draga skuli ályktanir með hliðsjón af guðspjöllunum einum saman“, ritaði hann árið 1517 í bók sína „De Maria Magdalena, et tridvo Christi disceptatio“.

 

Hann var því sammála öðrum fræðimönnum þess tíma og aðhylltist þá skoðun siðabótarinnar að túlka skyldi orð biblíunnar en þetta hefur verið nefnt „biblíuaðferðin ein“.

 

Lefèvre aðgreindi því iðrandi synduga konu Gregoríusar páfa í þrjár konur: Maríu Magdalenu, Maríu frá Betaníu og ónafngreindu konuna úr Lúkasarguðspjallinu.

 

Milliríkjadeila geisaði í Evrópu

Kirkjunnar menn voru agndofa yfir þessari vísindalegu niðurstöðu Lefèvres sem gerði að engu aldagamlar tilraunir til að sameina þrjár konur í eina Maríu Magdalenu.

 

Málið barst æðstu ráðamönnum kirkjunnar í júlí árið 1518. Útsendari páfans, Lorenzo Campeggio, fundaði í Lundúnum með biskupnum af Rochester, fræðimanni sem studdi málstað Lefèvre.

 

Síðar meir taldi franski sendiherrann í Englandi páfanum hughvarf þannig að hann fór að aðhyllast eina samsoðna Maríu Magdalenu. Þessi viðhorfsbreyting olli því að einn fremsti hugsuður Evrópu, Erasmus frá Rotterdam, ritaði sendiherra Frakklands bréf og fór þess á leit að hann styddi málstað Lefèvre.

„Kristur elskaði hana meir en hina lærisveinana og hafði fyrir sið að kyssa hana og kyssti hana iðulega á munninn“.
Tekið úr Filippusarguðspjallinu.

Mikið var í húfi því afleiðingarnar af endurskoðaðri Maríu Magdalenu myndu verða víðtækar. Trúarleg rit, sálmar, ræður og allir helgigripirnir gætu glatast og farið yrði að efast um óskeikulleika páfastóls.

 

Hinn 9. nóvember 1521 féll úrskurðurinn þegar rit Lefèvre um Maríu Magdalenu voru útilokuð frá guðfræðideildinni í hinum virta Sorbonne-háskóla í París. Árið 1551 birtust bækurnar svo á lista spænska ríkisins yfir forboðin rit.

 

Ritskoðunin var ótvíræður boðskapur til fræðimanna um að láta sig málefni þessarar vinsælu helgu konu engu varða meir.

 

María Magdalena var fullkomin lúterstrúarkona

Kaþólska kirkjan hafði raunar öðrum hnöppum að hneppa en að þagga niður í Lefèvre þegar þarna var komið sögu.

 

Þýski munkurinn Marteinn Lúter hengdi í október árið 1517 hinar þekktu 95 ádeilugreinar á kirkjuhurð í Wittenberg. Rit hans voru jafnframt árás á dýrlingatrú kirkjunnar og söfn helgigripa, auk þess sem hann gagnrýndi harðlega svokölluð aflátsbréf sem seld voru í nafni páfans.

 

Lúter áleit dýrlinga vera verk djöfulsins og naut hann stuðnings siðaskiptafrömuðarins frá Genf, Jóhannesar Kalvín sem lýsti því yfir að allar helgar minjar væru ekki annað en svik og prettir.

 

„Væri gerður tæmandi listi yfir helgar minjar, kæmi í ljós að hver postuli hefði verið með minnst fjóra líkama og hver dýrlingur ekki færri en tvo eða þrjá“, sagði hann hæðnislega.

 

Hvað snerti frásagnirnar af ferð Maríu Magdalenu til Frakklands, þá áleit Kalvín slíkt hafa verið algera firru.

Listamenn dáðu Maríu Magdalenu

Hin fagra, ríka, tælandi, iðrandi eða fróma María Magdalena hefur verið óþrjótandi myndefni öldum saman og hafa ótalmargir listamenn gert af henni myndir í ýmsum hlutverkum.

Helsti sjónarvottur að upprisunni

Í ljósi þess að María Magdalena var viðstödd mesta kraftaverk Jesú, upprisuna, kom hún iðulega fyrir á veggmyndum kirknanna. Þegar fram liðu stundir hurfu allar aðrar persónur sem viðstaddar höfðu verið upprisuna og einungis aðalsjónarvotturinn, María Magdalena og upprisinn frelsari hennar sáust í garðinum við gröfina.

Iðrandi syndari

Á barokktímabilinu á 17. öld hafði hlutverk Magdalenu breyst á þann veg að hún var nú iðrandi syndari. Þetta gaf tækifæri til myndbirtingar þrýstins, hálfnakins líkama hinnar iðrandi nautnalegu Maríu Magdalenu. Kirkjan lét sér fátt um finnast en listaverkasafnarar hrósuðu happi.

Heilagur einsetumaður í klettahelli

Franskir kaþólikkar á miðöldum töldu Maríu Magdalenu hafa flutt kristindóminn með sér frá Jerúsalem til Frakklands, þar sem hún varði síðustu æviárum sínum sem einsetukona í helli í Próvins. Dag hvern flugu fjórir englar með hana til himins, einungis sveipaða síðu hárinu og svo til baka í hellinn aftur.

Tálkvendi með áburð í krukkunni

Á 19. öld lofsamaði enska listahreyfingin sem kennd er við forrafaelíta, úrkynjaðar konur úr fornöld og máluðu fyrir vikið Maríu Magdalenu sem ríka og kynþokkafulla daðurdrós. Einkenni þessara málverka er alabasturskrukka með áburði til að smyrja fætur Jesú með.

Hin efnaða velgjörðarkona Jesú

Hugmyndin um Maríu Magdalenu sem efnakonu sem séð hafi Jesú farborða, er gefin til kynna í mörgum málverkum frá síðmiðöldum og endurreisnartímabilinu. Hún er iðulega sýnd vera að lesa en hún var persónugervingur hins djúphugla lífs sem var ímynd kristilegs fullkomleika.

 

Móðir Jesúbarnsins

Í kirkjunni Kilmore Church á skosku eynni Isle of Mull útbjó listamaðurinn Stephen Adam árið 1908 umdeilda glermósaíkmynd af Jesú og þungaðri Maríu Magdalenu. Sú hugmynd að þau tvö hafi getið af sér barn er einmitt þungamiðjan í metsölubók Dans Brown „Da Vinci lyklinum“ (2003).

Marteinn Lúter lagði ekkert af mörkum til að sundurgreina hina samsettu Maríu Magdalenu aftur í þrjár konur, heldur lét hann hana áfram vera syndsamlega konu sem frelsaðist, ekki sakir fórnfýsi, heldur einungis trúarhita síns vegna.

 

Hún gegndi hlutverki siðferðislegrar fyrirmyndar og var á þann hátt fullkominn siðabótarsinni sem veitt gat venjulegum kirkjugestum innsýn með fordæmi sínu.

 

Lúter hafði enga þörf fyrir að leggja áherslu á langvarandi einveru meinlætakonunnar í hellinum, heldur tengdi hann hana við einfalt líf venjulegs fólks sem allir þekktu.

 

Jafnvel Jesú var dreginn niður í svaðið þegar Lúter á að hafa sagt í drykkjuveislu einni sem haldin var árið 1532 „að jafnvel Kristur hafi drýgt hór með Maríu Magdalenu“.

 

Orð hans hafa ugglaust verið hugsuð sem röksemdir gegn þeim sem fordæmdu veikleika annarra til að upphefja sjálfa sig.

 

María var fyrirmynd kvenna á Viktoríutímanum

Eftir siðaskiptin var farið að leggja minni áherslu á syndsamlega fortíð Maríu Magdalenu innan kaþólsku kirkjunnar en skækjuímyndin lifði áfram góðu lífi sums staðar þó svo að bent væri á iðrun hennar í auknum mæli.

 

Tárin sem hún hafði grátið við fætur Jesú voru sönnun um iðrun hennar og kaþólska kirkjan, svo og prestar siðabótarinnar, predikuðu um fótaþvottinn.

 

„Hún sem var vön að setja hár sitt í liði breytti því nú í handklæði. Augu hennar sem lýstu áður af losta breyttust í lind hreinsandi tára. Tunga hennar sem var vön að mæla hégóma og þvaður breyttist í tól sem hún lofaði guð með“, útskýrði hreintrúarmaðurinn Thomas Watson á 17. öld.

 

Vinsældir Maríu Magdalenu höfðu engan veginn dvínað. Á 18. öld mátti bæði lesa um hana í ljóðum og rómantískum skáldsögum, auk þess sem hún var vinsælt viðfangsefni listmálara barokktímans.

 

Aðallinn í Evrópu lét enn fremur reisa „Magdalenuklefa“, litlar einsherbergis byggingar utan alfaraleiðar, þar sem aðallinn gat sótt trúarlega hughreystingu.

Frá miðri 18. öld gátu konur á útjaðri samfélagsins unnið sér inn fæðu og húsnæði sem þvottakonur á svonefndum Magdalenuheimilum.

Vændiskonur bjuggu á Magdalenuheimilum

Í því skyni að frelsa fallnar og glataðar konur opnaði kirkjan um miðja 18. öld sérstök heimili sem ætlað var að bjarga þessum konum frá götunni og ljá þeim nýjan sess í samfélaginu.

 

Enska biskupakirkjan opnaði árið 1758 fyrsta frelsunarheimilið fyrir „fallnar konur“ í Prescot Street í hverfinu Whitechapel í Lundúnum. Skilgreiningin átti einkum við um vændiskonur, ógiftar og þungaðar, svo og blásnauðar konur sem enga fjölskyldu áttu.

 

Skömmu síðar settu safnaðarnefndir hér og þar á laggirnar áþekk heimili víðs vegar í m.a. Englandi, Írlandi og Bandaríkjunum. Heimilin voru nefnd í höfuðið á Maríu Magdalenu sem þegar þarna var komið sögu var tákngervingur hinnar iðrandi vændiskonu. Heimilin starfræktu þvottahús þar sem konurnar unnu hörðum höndum allan liðlangan daginn. Að launum fengu þær fæði og húsaskjól en engin laun.

 

Fyrstu heimilin voru opin öllum og konurnar gátu komið og farið eins og þær lysti. Í Svíþjóð opnuðu góðgerðarfélög og Hjálpræðisherinn nokkur Magdalenuheimili á árunum upp úr 1852, þar sem konunum gafst færi á að sækja sér menntun og voru aðstoðaðar við að fá vinnu sem þjónustustúlkur á einkaheimilum eða í verksmiðjum.

 

Í Ástralíu starfrækti kaþólska kirkjan á árunum milli 1890 og 1960 mörg þvottahús. Þar voru skikkaðar til starfa unglingsstúlkur sem lent höfðu á villigötum og komið hafði verið fyrir á Magdalenuheimilum kirkjunnar.

Í upprunalegu útgáfunni, þar sem skækjufortíðin var ekki nefnd, varð María Magdalena að fyrirmynd þess sem var heilagt og fordæmi hinnar hreinu, fórnfúsu og elskandi konu.

 

Frá miðri 19. öld varð hún fyrirmynd Breta að hinni ósérhlífnu eiginkonu sem fann heilagan kærleika í öllum skylduverkum innan heimilisins. Hin fullkomna kona skyldi hvorki hafa afskipti af stjórnmálum né heldur trúmálum.

 

Eftir borgarastyrjöldina í Bandaríkjunum (1861-1865) varð María Magdalena ekki einvörðungu holdgervingur hinnar óeigingjörnu konu heldur jafnframt fyrirmynd karla sem kusu að lifa venjulegu heimilislífi með sómakærri eiginkonu umfram það að drekka sig fulla á barnum.

 

María Magdalena öðlaðist ný skapgerðareinkenni árið 1863 þegar franski trúarbragðasagnfræðingurinn Ernest Renan hafnaði hugmyndum miðalda um djöfla.

 

Ernest Renan lýsti Maríu Magdalenu sem taugaveiklaðri konu og hefði Jesú tekist að lækna kvilla hennar. Vitnisburður hennar um upprisuna hafi verið til marks um ýkt hugmyndaflug hennar og löngun, sagði Ernest sem var áhugasamur um sálarlíf fólks.

 

Hann lýsti Maríu Magdalenu í rómantískum stíl sem tilfinninganæmri og ástríðufullri sál en skrif hans öfluðu honum margra lesenda úr hópi upplýstra Evrópubúa á 19. öld.

 

Kærasta Jesú?

Goðsögnin um Maríu Magdalenu sem vændiskonu lifði enn góðu lífi á 20. öld en þessi fagra skækja sem hafði þerrað fætur herra síns með tælandi hárprýðinni bjó þá enn yfir aðdráttarafli. Árið 1945 ýtti fornleifafundur enn og aftur undir vangaveltur þess eðlis að Jesú og María Magdalena hefðu verið elskendur.

 

Við uppgröft í grennd við Nag Hammadi-bókasafnið í Egyptalandi leit dagsins ljós texti frá 3. öld sem glatast hafði á miðöldum. Skjalið hafði að geyma Filippusarguðspjallið sem segir frá því að María Magdalena hafi verið lagskona Jesú.

 

„Kristur elskaði hana meira en hina lærisveinana og hafði fyrir sið að kyssa hana beint á munninn“, segir í nokkrum endurgerðum línum úr illa förnu bókfellinu.

 

Ef marka má sagnfræðinga fól koss þó ekkert kynferðislegt í sér heldur var einungis eins konar kveðja.

 

Náið samband Maríu Magdalenu við Jesú er enn fremur aðalatriðið í Maríuguðspjallinu, texta aftan úr fornöld sem birtist í fornmunaverslun í Kaíró árið 1896 sem var ekki þýddur og gefinn út fyrr en árið 1955.

 

Ritið sem fannst er frá 4. til 5. öld en fræðimenn telja ekki ólíklegt að það byggi á eldri útgáfu frá 2. öld.

 

Í Maríuguðspjallinu er María Magdalena sögð vera sá lærisveinn Jesú sem skilur frelsarann best, Pétri til mikillar armæðu en hann varð síðar fyrsti páfinn í Róm.

Fræðimenn verða að túlka Maríuguðspjallið út frá ófullkominni útgáfu, þar sem aðeins níu af upprunalegum 19 síðum guðspjallsins hafa varðveist til dagsins í dag.

Ef marka má danska guðfræðinginn og sóknarprestinn Marianne Aagaard Skovmand sem þýddi Maríuguðspjallið úr koptísku yfir á dönsku, er ritið mikilvægt fyrir þær sakir að það sýnir hlið á Maríu Magdalenu sem kristin kirkja hefur þagað yfir í hartnær 2.000 ár:

 

„Hér er um að ræða konu sem vogar sé að andmæla karlmönnum. Og hún segist jafnframt hafa verið trúnaðarvinur Jesú“.

 

Kristin kirkja hefur hvorki viðurkennt Filippusarguðspjallið né Maríuguðspjallið en þetta hefur þó ekki komið í veg fyrir að trúarhópar, trúarbragðafræðingar og hugmyndaríkir rithöfundar hafi kynnt til sögunnar kenningar um að María Magdalena og Jesú hafi átt í nánu sambandi, jafnvel af kynferðislegum toga eða verið gift.

 

Sú hugmynd að Jesú og María Magdalena hafi eignast barn saman og þannig lagt grunninn að röð afkomenda er einmitt þungamiðjan í metsölubók Dans Brown, „Da Vinci lykillinn“ frá árinu 2003. Bókin seldist í 80 milljón eintökum á heimsvísu.

 

Ef marka má valinkunna sagnfræðinga eru engin sönnunargögn fyrir því að Jesú og María Magdalena hafi átt í ástarsambandi.

 

Ástralskur prófessor í trúarbragðafræði, að nafni Philip C. Almond, er þeirrar skoðunar að þessar vinsælu tilgátur stafi af því að margt kristið fólk nútímans sjái engan tilgang með því að sýna Jesú ávallt sem einhleypan skírlífismann.

 

Hinar ýmsu sögur um Maríu Magdalenu spegla í raun trúarlegar hugmyndir þeirra sem sögurnar fæddust hjá. Ekkert annað er að finna um sjálfa konuna í guðspjöllunum en að hún hafi verið einn af fylgjendum Jesú, hafi séð hann deyja á krossinum og komið að gröf hans. Afgangurinn eru brátt 2.000 ára getgátur.

Lestu meira um Maríu Magdalenu

Philip C. Almond: Mary Magdalene: A Cultural History, Cambridge University Press, 2023

HÖFUNDUR: THERESE BOISEN HAAS , ANDREAS ABILDGAARD

© Library of Congress/Wikimedia Commons,© AVRAM GRAICER/Wikimedia Commons, © Hanay/Wikimedia Commons, © University of Haifa/Yoli Schwartz,© Peter Paul Rubens/Wikimedia Commons,© Sailko/Wikimedia Commons,© Finnegan, F.: Do Penance or Perish. A Study of Magdalen Asylums in Ireland/Wikimedia Commons,© Ashmolean Museum, Oxford/Wikimedia Commons

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Bólusótt: Ósýnilegur ógnvaldur herjaði í Evrópu

Maðurinn

Hvers vegna eru sumir smámæltir?

Spurningar og svör

Hvort er bjór betri úr dós eða flösku?

Lifandi Saga

Þýsk fórnarlömb sprengjuflugmanna tóku þá af lífi

Alheimurinn

Fær það virkilega staðist að tvær sólir geti verið í sama sólkerfi?

Náttúran

Hvernig geta slöngur klifrað?

Alheimurinn

Vetrarbrautin full af svartholum

Maðurinn

Hve lengi er hægt að vera kvefaður?

Maðurinn

Við drekkum einn bolla af nefslími dag hvern

Tækni

Hvað gerist ef díselolíu er dælt á bifreið sem knúin er bensíni?

Jörðin

Undravert yfirborð jarðar

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.