Samhverfur líkami skapar betra jafnvægi þar sem þyngdin er jafnt dreift á báðar hliðar. Við eigum líka auðveldar með að ganga því vöðvar og útlimir á hvorri hlið geta unnið saman. Hjá langflestum dýrum er líkaminn því nokkurn veginn samhverfur með hægri og vinstri hlið sem eru að miklu leyti spegilmyndir hvor af annari.
En sumar tegundir hafa valið að fara þveröfuga leið. Fyrir þá er ósamhverfa spurning um líf og dauða – hvort sem það snýst um að laða að hitt kynið eða að geta gleypt bráð sína á skilvirkari hátt.
RAUÐSPRETTA

Rauðsprettur eru með tvö augu sömu megin á höfðinu sem hæfir einkar vel lífinu á hafsbotninum.
Rangeygður fiskur öðlast betri yfirsýn
Rauðsprettur og aðrir flatfiskar eru með skakkan kjaft og bæði augun eru staðsett sömu megin á höfðinu. Þetta sérstaka útlit er fullkomlega lagað að lífi á hafsbotni því með þessu móti getur fiskurinn horft upp á við með báðum augunum.
Flatfiskar fæðast hins vegar ekki með mishverfan haus. Þegar eggin klekjast út líkjast dýrin öllum öðrum fiskum en að um það bil þremur vikum liðnum byrjar annað augað að færast yfir á hina hlið höfuðsins og á sama tíma hliðrast kjálkarnir sem gerir það að verkum að kjafturinn hættir að opnast upp og niður, heldur opnast til hliðanna. Þegar hér er komið sögu eru beinin í höfuðkúpunni enn mjúk og geta fyrir vikið lagað sig að nýju höfuðlaginu. Tilraun sem gerð var í mars árið 2024 leiddi í ljós að ummyndun þessi orsakast af hormónum í skjaldkirtlinum.
VEIFUKRABBI

Karldýrið sveiflar hinni stóru kló sinni til að laða að kvendýr – en stærsta klóin vinnur ekki alltaf.
Risakló til marks um styrk
Veifukrabbar kallast svo sökum þess að önnur kló karldýrsins er miklu stærri en hin og með henni veifa karldýrin til að sýna styrk sinn og heilbrigði. Til þess að dýrin geti haldið jafnvægi er fremri fóturinn eilítið lengri þeim megin sem stóru klóna er að finna.
Álitleg kló í augum kvendýrsins ræðst hins vegar alfarið af tímasetningunni. Karldýr með stóra kló grefur dýpri holur fyrir eggin, þar sem sjórinn er kaldari og eggin klekjast út hægar. Í upphafi tímabilsins þegar nægur tími er fyrir klakið velja kvendýrin karlkrabba með stórar klær en þegar tímabilinu er við það að ljúka og klakið þarf að ganga hratt fyrir sig, velja þær karldýr með minni kló, sökum þess að sjórinn í litlu holunum sem geyma eggin er hlýrri.
SNIGILL

Flestir sniglar eru með kuðung sem myndar réttsælis vafning en unnt er að snúa við stefnunni með því að breyta einum tilteknum erfðavísi.
Einn tiltekinn erfðavísir ræður snúningi kuðungsins
Kuðungshús myndar vafning sem í flestum tilvikum vefst réttsælis. Hjá sumum tegundum vefst kuðungurinn rangsælis og svo eru til aðrar tegundir þar sem hvort tveggja þekkist.
Vísindamönnum tókst að beita CRISPR-genatækni á árinu 2019 til að slá því föstu að það er erfðavísirinn Lsdia1 sem ræður því hvort kuðungurinn vefst réttsælis eða rangsælis. Með því að gera örlitlar breytingar á erfðatáknrófinu með aðstoð CRISPR-genatækninnar tókst að láta kuðungshúsin vaxa rangsælis en ef ekkert var aðhafst uxu þau réttsælis.
Rannsóknir vísindamannanna leiddu í ljós að erfðavísirinn Lsdia1 verður virkur þegar kuðungseggið hefur skipt sér tvisvar og samanstendur fyrir vikið af fjórum frumum. Erfðavísirinn veldur myndun vöðvapróteins sem sér til þess að láta frumurnar fjórar annað hvort vaxa rétt- eða rangsælis.
SLANGA

Japönsk slanga hefur þróað mishverfan kjálka til þess að verða færari um að ná sniglum út úr kuðungum.
Skakkar tennur sjá fyrir betra biti
Japönsk slanga sem kallast pareas iwasakii, lifir eingöngu á sniglum sem lifa í kuðungum með réttsælis snúningi. Í því skyni að ná mjúkum, ætum búk snigilsins með hvað einföldustu móti út úr kuðungnum hefur slangan þróað með sér mishverfan skolt með um það bil 50% fleiri tönnum í hægri hlið en þeirri vinstri.
Japanskir vísindamenn hafa gert tilraunir sem leitt hafa í ljós að dýrin geta étið snigla úr kuðungum með réttsælis snúningi hartnær helmingi hraðar en þegar um er að ræða kuðunga með rangsælis snúningi. Sömu vísindamenn hafa jafnframt sýnt fram á að sniglar á þeim svæðum þar sem mikið er um pareas iwasakii hafa gegnum þróunarsöguna lært að verja sig gegn áti með því að breyta snúningi kuðunganna þannig að þeir vefjist oftar en ekki rangsælis.
KOLKRABBI

Augu kolkrabbans líta mjög mismunandi út vegna þess að þau eru aðlöguð ljósinu sem kemur að ofanfrá og neðanfrá.
Tvö augu sjá hvort sína birtutegundina
Kolkrabbinn histioteuthis heteropsis lifir í 200- 1000 metra djúpum sjó og þess má geta að birtuaðstæður eru gjörólíkar á þessari mismiklu dýpt. Þegar kolkrabbinn horfir upp á við sér hann rándýr og bráð líkt og skuggamyndir mót daufri birtunni lengst uppi. Þegar kolkrabbinn hins vegar horfir niður í djúpið gefa dýr hafsins aðeins frá sér ljós með náttúrulegum hætti, þ.e. lífljómun.
Þess vegna hafa þróast tvö gjörólík augu í kolkrabba þessum, annað stórt og hitt lítið og hefur hvort fyrir sig þróast með það fyrir augum að skynja bylgjulengdirnar og birtustigið sem ríkja fyrir ofan dýrið annars vegar og undir því hins vegar. Vísindamenn sem hafa fylgst með kolkrabbanum í neðansjávarmyndavélum hafa komist að raun um að dýrið hallar undir flatt þegar það syndir þannig að stóra augað horfir ávallt upp á við og hið litla stöðugt niður.