Um það bil einn af hverjum fimm mun fá krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni.
Heilbrigður lífsstíll er engin trygging fyrir því að sleppa við þenna útbreidda sjúkdóm sem hefur fylgt manninum í þúsundir ára.
En vísindamenn vita að það er ýmislegt sem við getum gert til að reyna að koma í veg fyrir að frumur líkamans fari að hegða sér óeðlilega og skiptast stjórnlaust. Til dæmis hvað við látum ofan í okkur.
Og nú kann hópur vísindamanna frá National University of Singapore að hafa öðlast betri vitneskju um hvers vegna.
Í nýrri rannsókn hafa þeir að því er virðist fundið það sem þeir telja að gæti verið hinn “týndi hlekkur” milli óholls mataræðis og aukinnar hættu á að fá sjúkdóminn.
Rannsökuðu fjölskyldur í áhættuhópum
Markmið vísindamanna var í upphafi að kanna hvaða þættir auka hættu á krabbameini hjá fjölskyldum sem eru þegar viðkvæmar fyrir sjúkdómnum.
Því var byrjað á sjúklingum sem hafa erft stökkbreytt BRCA2 gen sem eykur líkurnar á að fá krabbamein í eggjaleiðurum, eggjastokkum og brjóstum.
Á rannsóknarstofunni gátu vísindamennirnir séð að frumur sjúklinga með þennan arfgenga galla virtust vera næmari fyrir efni sem kallast metýlglýoxal, sem er náttúruleg afurð sykurbrennslu líkamans.
Verndari frumanna
Vísindamennirnir tóku eftir að mikið magn af efninu virtist gera BRCA2 genið óvirkt, sem í sinni eðlilegu mynd verndar okkur fyrir krabbameini og gerir við skemmd erfðaefni í frumunum.
Þannig að svo virtist sem efnið aðstoði krabbameinsfrumurnar og hjálpi þeim að þróast á hindrana.
⇑ Tímalína: Þannig myndast krabbamein
Fruma skiptir sér
Fruman getur skyndilega byrjað að skipta sér óeðlilega hratt og hætt að hlýða hefðbundnum vaxtarboðum.
Fruman verður stjórnlaus
Fruman getur ekki gert við nýja galla (stökkbreytingar) í erfðavísunum sem eykur hættuna á myndun skaðlegra stökkbreytinga.
Fruman verður ódauðleg
Stökkbreytingin gerir frumuna ódauðlega, svo líkaminn verður ófær um að deyða hana. Stökkbreyttu frumurnar mynda nú æxli.
Æðar myndast
Æxlið leiðir af sér nýjar æðar til að tryggt sé að nægilegt súrefni sé fyrir krabbameinsvefinn svo hann geti stækkað frekar.
Innrás í líkamann
Krabbameinsfrumur úr æxlinu fara um líkamann með blóðrásinni, þar sem þær ráðast á ný líffæri og orsaka meinvörp.
Niðurstöðurnar sýndu einnig að afleiðingarnar geta verið nákvæmlega þær sömu hjá fólki sem hefur ekki erft stökkbreytt BRCA2, en hefur þess í stað mikið magn af metýlglýoxal.
Þetta geta til dæmis verið sjúklingar með sykursýki eða forstig sykursýki og þar geta verið tengsl við ofþyngd og óhollt mataræði.
„Rannsóknir okkar benda til þess að sjúklingar með hátt metýlglýoxalmagn geti verið í aukinni hættu á að fá krabbamein,“ útskýrir prófessor Ashok Venkitaraman, sem stýrir rannsókninni, í fréttatilkynningu.
“Auðvelt er að greina metýlglýoxal með blóðprufu fyrir HbA1C, sem hugsanlega er hægt að nota sem mæli. Ennfremur er hægt að stjórna háum metýlglýoxalgildum með hollu mataræði og lyfjum sem fyrirbyggjandi aðgerðir gegn krabbameini,” segir hann í tilkynningunni.
Þarfnast frekari rannsókna
Rannsóknarteymið telur að efnið geti gert genið tímabundið óvirkt og að óhollt mataræði eða ómeðhöndluð sykursýki geti aukið hættuna.
Hins vegar er mikilvægt að árétta að rannsóknin byggir aðeins á litlum vefjasýnum og tilraunum á rannsóknarstofu og því þarf mun fleiri og stærri rannsóknir til að staðfesta og skilja tengslin.
Rannsóknin birtist í vísindatímaritinu Cell.