Nú á dögum hanna verkfræðingar vélræna staðgengla manna sem geta líkt eftir svipbrigðum og líkamstjáningu fólks af sífellt meiri nákvæmni.
Vélmenni sem lítur nákvæmlega út eins og þú og hefur nákvæmlega sömu hæfileika – þetta hljómar eins og fjarlægur framtíðardraumur, en þessi draumur gæti í raun orðið að veruleika innan fárra ára.
Þökk sé örri þróun innan t.d. skynjaratækni og stjórnalgrímum, er nú hægt að stjórna vélmennunum af mikilli nákvæmni og innlifun.
Og ekki nóg með að við getum nú stjórnað vélmennum hratt og örugglega úr fjarlægð, þau munu fljótlega fara að líkjast fólkinu sem stjórnar þeim sem getur verið ögn ógnvekjandi.
Nú þegar geta þau kiprað augum, brosað örlítið skakkt og lyft augabrúnum. Bráðum geta þau líka farið í vinnuna fyrir þig eða faðmað gömlum veiku ömmu þína á meðan þú ert á ferðalagi.
Komdu og kíktu á fimm fullkomnustu vélmennin.
NEYÐARHJÁLPIN

Vélmenni fer á hættusvæði
Staðgenglar geta farið um hættulegt landslag, safnað upplýsingum um aðstæður og sent myndir í rauntíma; m.a. þess vegna sér fyrirtækið á bak við hermivélmennið Beomni gífurlega möguleika fyrir fjarstýrð vélmenni við að hjálpa í tengslum við hamfarir.
Hermivélmennin geta aðstoðað yfirvöld og neyðarhjálparstofnanir við að meta umfang tjóns, greina hættur og skipuleggja björgunaraðgerðir.
Hermivélmenni geta einnig afhent lyf, mat og vatn á meðan heilbrigðisstarfsfólk getur í öruggri fjarlægð lesið púls og hitastig, metið ástand slasaðra og veitt skyndihjálp.
Kostir: Vélmenni geta framkvæmt neyðarverkefni sem gætu verið hættuleg mönnum.
Gallar: Rannsóknir sýna að neyðarvélmenni geta ekki innrætt von og huggun eins vel og menn.
HJÚKRUNARFRÆÐINGURINN

Vélræn heimilishjálp hefur tíma
Fleiri hermivélmenni, þ.m.t hinn þýski Robody, eru sérstaklega hönnuð til að starfa sem fjarstýrð heimilishjálp. Skjár í höfði vélmennisins endurskapar andlit stjórnandans og sveigjanlegir handleggir og hendur gera því mögulegt að halda í hönd manns eða leysa hagnýt og viðkvæm verkefni eins og að sækja ávöxt.
Þökk sé hermivélmenni eins og Robody getur heilbrigðisstarfsfólk séð sjúklinga sem það annars gæti ekki komist í snertingu við.
Kostir: Hermivélmennið gefur umönnunaraðilum meiri tíma til að sýna umhyggju, samúð og nærveru.
Gallar: Það er erfiðara að upplifa nærveru í gegnum hermivélmenni.
ÞJÓNNINN

Hermivélmenni bjóða upp á kaffi
Árið 2021 opnaði Café Dawn í Tókýó í Japan. Þar samanstendur starfsfólkið af 120 sentímetra háum OriHime hermivélmennum á hjólum. 60 stjórnendur sem eru, vegna líkamlegrar fötlunar, bundnir við heimili sitt, sjúkrarúmið eða hjólastól, fjarstýra hermivélmennunum í gegnum iPad að heiman eða frá sjúkrahúsinu og fá greitt fyrir starf sitt. Kaffiþjónn kaffihússins er líka vélmenni.
Kostir: Einangrað og einmana fólk upplifir andlega örvun þökk sé reynslunni af því að hjálpa og hafa samskipti við aðra.
GALLAR: Vélmennin eru þung og hættir til að valda tjóni á húsgögnum – eða gestum.
NEMINN

Veik börn eru með í kennslustofunni
Ef barn kemst ekki í skólann, t.d. vegna veikinda, getur það samt tekið þátt í kennslunni í gegnum hermivélmenni eins og hið norska AV1. Vélmenninu er stjórnað með myndavél, hljóðnema og hátalara. Í gegnum spjaldtölvu, tölvu eða farsíma getur barnið fjarstýrt vélmenninu að heiman.
Hægt er að hreyfa höfuð og handleggi þannig að nemandinn geti vakið athygli á sjálfum sér og tekið virkan þátt í kennslunni, til dæmis með því að rétta upp hönd.
Rannsóknir hingað til benda til þess að hermivélmennið hjálpi nemendum að halda í við önnur börn, bæði félagslega og námslega.
Kostir: Barnið getur haldið sambandi við bekkjarfélaga og komið í veg fyrir að dragast aftur úr í námi.
GALLAR: Hætta er á að tækið geri fjarveru barnsins enn augljósari sem getur ýtt undir neikvæða líðan.
VAKTMAÐURINN

Hermivélmenni fylgjast með
Á nokkrum iðnaðarsvæðum og verksmiðjusölum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum hafa öryggisverðir verið sendir heim og hermivélmennið EVE leyst þá af hólmi.
Hið 1,86 metra háa og 86 kílógramma þunga vélmenni á hjólum sem norska fyrirtækið 1X stendur á bak við, er dæmi um vélmenni sem getur tekið að sér öryggisverkefni og til dæmis eftirlit á nóttunni.
Tveir armar EVE með griphendur geta opnað dyr, tekið hluti upp, tekið lyftuna og stjórnað lyklaborði. EVE er búið myndavélum og skynjurum svo það geti t.d. athugað skilríki fólks.
Mannlegur stjórnandi getur fylgst með og stjórnað varðsveit með allt að 15 EVE vélmennum og með VR heyrnartólum séð í gegnum augu vélmennanna og stjórnað handleggjum þeirra og höndum.
KOSTUR: Vélmennin þreytast aldrei og geta dekkað stór svæði þar sem fáa þarf til að stjórna heilli hjörð af EVE.
Ókostur: Vélmennin eiga enn á hættu að verða rafmagnslaus eða bila.