Stjörnufræðingar eru nú sammála um að þegar efni nálgast svarthol nægilega mikið hætti það að fylgja beinni línu, heldur taki að hringsóla, rétt eins og vatnið gerir við niðurfallið í vaski.
Reyndar eru líkindin við vatn svo sláandi að vísindamenn hafa notað vatnshvirfla til að rannsaka aðstæður umhverfis svarthol.
Það hefur verið erfiðara að sýna fram á hvað verður um efnið þegar það nær svartholinu.
En nú hefur hópur breskra vísindamanna með megin aðsetur við Oxfordháskóla komist að því hvað gerist þegar efni nær inn í miðju svartholsins.
Eldri rannsóknir hafa sýnt að þegar efni lendir nálægt svartholi tætist það í sundur þar eð þær frumeindir sem næstar eru verða fyrir sterkari áhrifum aðdráttaraflsins en þær sem eru örlítið fjær.
Þetta fyrirbrigði veldur myndun skífunnar kringum svartholið, svonefndrar vaxtarskífu. Samkvæmt hinni almennu afstæðiskenningu Einsteins ættu að vera ákveðin mörk milli vaxtarskífunnar og svartholsins.
Þegar efni fer yfir þessi mörk fellur það niður í svartholið.
Fram að þessu hafa menn þó verið í vafa um hvort fallið sé jafnt og stöðugt eða þetta sé skyndilegt hrap. Það er hið síðarnefnda sem felst í kenningu Einsteins.
Útvarpsbylgjugeimsjónaukar nýttir
Oxford-vísindamennirnir rannsökuðu gögn frá svartholi í sólkerfi í 10.000 ljósára fjarlægð héðan, MAXI J1820+070.
Þetta svarthol er um 8,5 sinnum þyngra en sólin og sogar til sín efni frá tveimur stjörnum. Sogið veldur miklum ljósumbrotum sem unnt er að mæla frá jörðu.
Mynd af Vetrarbrautinni þar sem staðsetning sólkerfisins MAXI J1820+070 er merkt með hvítum krossi. Myndin til hægri sýnir flöktið af svartholinu árið 2018 - hér á degi 0.
Og slíkar mælingar hafa nú verið framkvæmdar. Til þess voru notaðir tveir útvarpsbylgjugeimsjónaukar, NuSTAR og NICER sem báðir eru á tiltölulega lágum brautum yfir jörðu. Gegnum þessa sjónauka gátu vísindamennirnir greint gögn frá mjög öflugum ljósblossa árið 2018.
Aðrir vísindamenn höfðu látið þess getið að þessum umbrotum hefði fylgt umframglóð sem þeir fengu ekki skilið. Oxford-hópurinn komst á þá skoðun að þarna kynni einmitt að mega finna sönnun fyrir kenningu Einsteins.
Þegar svarthol dregur til sín efni úr nærliggjandi stjörnu myndar efnið skífu sem snýst um svartholið þar til efnið fellur niður í það.
Þeir greindu gögnin frá sjónaukunum og báru saman við tölvulíkön og módel sem sýndu hvers konar ljós bærist frá efni sem fellur niður í svarthol og niðurstöður tölvunnar komu heim og saman við gögn sjónaukanna.
Þar með telja vísindamennirnir sannað að efni hrapi lóðbeint niður í svarthol. Næst á að rannsaka fleiri svarthol með sömu aðferð til að fá fulla vissu um hvort sama lögmál gildi um öll svarthol.
Rannsóknin birtist í Monthly Notices of the Royal Astronomical Society.