1. Geimvindill er týnt fraktskip
Undir lok ársins 2017 fór óþekkt vindlalaga fyrirbæri í gegnum sólkerfi okkar. Það hlaut nafnið ´Oumuamua og í kjölfar þess spruttu upp margar ráðgátur.
Athuganir á því pössuðu hvorki við smástirni, halastjörnu eða nokkur önnur þekkt fyrirbæri í alheimi. Þegar vísindamenn greindu hreyfingar þess í gegnum sjónauka uppgötvuðu þeir að ´Oumuamua jók hraða sinn meðan það fór í gegnum innri hluta sólkerfisins.
Hraðaaukningin var vissulega lítil en ´Oumuamua jók hraðann á þeim tíma þar sem þyngdarkraftur sólar ætti fremur að hafa dregið úr ferð þess.
Samkvæmt Avi Loeb sem er prófessor í stjarnfræði við Harvard University er skýringin á þessari hröðun ´Oumuamua sú að fyrirbærið sé í raun og veru glatað farartæki sem er knúið áfram af geislum sólar líkt og væri það með sólarsegl.
Út frá gögnum frá m.a. VLT-stöðinni í Chile hafa stjarnfræðingar reiknað út braut ´Oumuamuas í gegnum sólkerfið.
Avi Loeb telur mögulegt að framandi siðmenning gæti notað geimför með sólarseglum til að frakta vörur milli pláneta eða sólkerfa á öðrum svæðum sólkerfis okkar. Hafi Loeb á réttu að standa er heimsókn ´Oumuamua fyrsta stefnumót okkar við framandi siðmenningu.
2. FFH leggja undir sig stjörnuþokuna eins og veira
Árið 1966 kom út heimildarmyndin „Theory of Self-Reproducing Automata“ heimildarmynd þessi var hugarburður stærðfræðingsins John Von Neuman, frá því um miðja síðustu öld.
Neuman taldi að það væri mögulegt fyrir mekaníska lífveru – t.d. kóða – að skemma maskínur, fjölfalda sjálfa sig og smita nýja hýsla með nákvæmlega sama hætti og lífræn veira gerir.
LESTU EINNIG
Hvað ef geimverur í fjarlægum stjörnuþokum myndu raungera slíka hugmynd? Það er kjarninn í svonefndu von Neumann-geimfari: róbótastýrðum dróna sem er hannaður til að ferðast til annarrra stjörnuþoka og leggja undir sig plánetur og tungl með því að fjölfalda sig.
Hugmyndin er að dróninn geti lent á t.d. tungli – eða jafnvel jörðinni – og fjölfaldað sig með hráefnum eins og járni og nikkeli.
Þegar þessi mekaníska vera hefur búið til þúsundir af eftirmyndum af sjálfri sér og þurrausið hráefnin munu drónarnir halda áfram út í geim til að herja á ný himintungl. Þetta ferli heldur síðan áfram þar til þessi framandi siðmenning hefur gjörnýtt allar auðlindir sólkerfis.
3. Áhöfn FFH er um margt lík okkur
En komi fljúgandi furðuhlutir í heimsókn til okkar, hvernig verur eru það sem við munum mæta? Verða það litlir grænir menn sem skjóta dauðageislum? Krúttlegar geimverur eins og E.T? Eða kannski skrímsli með griparma sem spúa eitri?
Kenningar um hvernig viti borið líf fyrir utan jörðina gæti verið eru fjölmargar. En vísindamenn eru á einu máli um eitt: Byggingarsteinar lífs úti í geimnum líkjast líklega þeim sem finnast hér á jörðu.
Þó að framandi geimverur muni tæplega líta út eins og við, þá eru þær líklega úr sömu frumefnum.
Hér á jörðu eru 95% frumeinda í lífverum úr kolefni, ildi og vetni og þessi þrjú – ásamt helíum – eru algengustu frumefnin í alheimi. Því munu framandi lífverur vera gerðar úr blöndu af sömu efnum, segja vísindamenn.
Stjarnlíffræðingar eins og Simon Conway Morris við University of Cambridge telja því góðar líkur á að framandi geimverur muni líkjast okkur um margt.
„Ef málalyktir þróunar eru í stórum dráttum sambærilegar við þróun lífs hér á jörðu, þá á það einnig við um þróun æðri lífvera í gjörvallri Vetrarbrautinni og handan hennar,“ hefur hann sagt.