„Þeir myrtu afa minn. Þeir þvinguðu hann til að grafa eigin gröf og þegar hann hafði farið með bæn skutu þeir hann og köstuðu líkinu ofan í holuna“.
Þannig hljóðuðu orð Minníar Lee Langley í sjónvarpsviðtali árið 1983, þegar hún lýsti hryllilegum upplifunum sínum 60 árum áður.
Þegar þetta var, árið 1923, varð hún vitni að kynþáttaárás sem síðar meir var farið að nefna Rosewood-blóðbaðið, þá aðeins níu ára gömul.
MYNDSKEIÐ: Sjáðu fréttamynd með eftirlifendum.
Rosewood brenndur
Rosewood var lítill, friðsamlegur bær í Flórída í Bandaríkjunum með um 200 íbúa sem flestir voru þeldökkir.
Friðsældin tók skjótan endi dag einn í janúar árið 1923 þegar mörg hundruð hvítir menn komu til bæjarins. Skömmu áður átti hvít kona í nágrannabæ einum að hafa orðið fyrir árás þeldökks manns og nú hugðist hópurinn refsa þeim seka sem sögur hermdu að færi huldu höfði í Rosewood.
Næstu daga á eftir breyttist þessi litli bær í sannkallað helvíti sem einkenndist af aftökum og brennum sem fóru fram án dóms og laga.
Lögreglan hélt sig fjarri bænum meðan á þessu stóð og það fjölgaði stöðugt í hópi hvítu mannanna sem þátt tóku í voðaverkunum og urðu þeir flestir um þúsund talsins.
Þegar hvítu mennirnir yfirgáfu Rosewood viku síðar hafði bærinn breyst í rjúkandi rústir en bærinn varð óbyggilegur eftir þetta.
Hartnær allar byggingar í bænum Rosewood voru brenndar til grunna árið 1923.
Eftirlifendur fengur bætur
Opinberar tölur herma að átta manns hafi verið myrtir í blóðbaðinu en samkvæmt sjónarvottum voru þeir langtum fleiri.
Óháð því hversu margir voru myrtir er rétt að geta þess að engir voru dæmdir fyrir voðaverkin og blóðbaðið í Rosewood var nánast farið í glatkistuna allt þar til ársins 1982, þegar blaðamaður einn á staðnum rifjaði atburðina upp.
Þessi nýi áhugi á málinu varð til þess að haldin voru réttarhöld árið 1994 þar sem ríkið Flórída var dæmt fyrir að láta undir höfuð leggjast að tryggja öryggi bæjarbúa og að hafa jafnframt vanrækt réttindi þeirra.
Flórída-ríki var dæmt til að greiða öllum þeim sem lifðu blóðbaðið af 150.000 Bandaríkjadali, þar með einnig Minní Lee Langley.
Skópússari einn varð fyrir því óheppni að hnjóta og hrasa og varð það kveikjan að blóðugustu kynþáttaóeirðum sem orðið hafa í Bandaríkjunum.