Þegar sagt er að niðurstöður könnunar eða rannsóknar séu „tölfræðilega marktækar“, merkir það að niðurstöðurnar ráðist örugglega ekki af tilviljun.
Þegar t.d. er verið að prófa virkni nýrra lyfja er nýja lyfið prófað á hópi fólks en samanburðarhópur fær efni sem ekki hefur neina virkni, svonefnda lyfleysu.
Fyrirfram hafa vísindamennirnir ákvarðað svonefnt p-gildi (probability-gildi) sem segir til um líkurnar á því að mismunandi áhrif í hópunum tveimur stafi ekki aðeins af tilviljun.
Að rannsókn lokinni spyrja menn sig svo: Hversu miklar líkur eru til að sá munur sem í ljós kom – eða meiri munur – hefði komið í ljós ef báðir hóparnir hefðu fengið lyfleysu? Séu þær líkur minni en hið upprunalega p-gildi, teljast niðurstöðurnar tölfræðilega marktækar.
Þetta þarf í sjálfu sér ekki að þýða að áhrif lyfsins séu mikil, heldur aðeins að samkvæmt rannsókn virðist lyfið hafa áhrif.
Þeir sem borða osta kafna í svefni
Unnt er að auka hið tölfræðilega öryggi með því að stækka rannsóknarúrtakið. Þá er á hinn bóginn líka erfiðara að greina hvort aðrir þættir en lyfið sjálft geti hafa haft einhver áhrif.
Í mjög stóru gagnamagni er t.d. oft unnt að finna tölfræðilegt samhengi sem augljóslega fær ekki staðist samkvæmt neinum rökum. Í Bandaríkjunum hefur t.d. fundist samhengi milli þróunar í neyslu osta og fjölda fólks sem vefur sig í rúmfötin í svefni og kafnar.