Habsborgararnir voru ein valdamesta konungsfjölskyldan í Evrópu en hún ríkti öldum saman yfir m.a. Austurríki, Spáni, Þýskalandi, Ítalíu og Portúgal.
Nú á dögum er konungsættin einkum þekkt fyrir svonefndan Habsborgarakjálka en með því er átt við framstæðan neðri kjálka sem kominn er til af margra alda innrækt, þar sem nánir fjölskyldumeðlimir giftust hver öðrum til að halda völdum og auðævum innan fjölskyldunnar.
Meðal Habsborgara á Spáni er neðri kjálkinn svo útstæður að sumir fjölskyldumeðlimir gátu hvorki borðað né talað eins og vera ber. Af þeim ellefu hjónaböndum sem Habsborgarar gengu í á Spáni á árunum 1516 til 1700 voru alls níu milli náinna ættingja og þetta sást greinilega.

Þegar Karl 2. Spánarkonungur lést árið 1700, einungis 38 ára að aldri, kom fram í skjölum sem greindu frá dánarorsökinni að hjarta hans hefði verið „á stærð við piparkorn, lungun tærð af berklum, þarmarnir rotnir, auk þess sem komið hafi verið drep í þá. Hann var aðeins með eitt eista sem var kolbikasvart og höfuð fullt af vatni.“
Habsborgarar liðu fyrir mikla innrækt
Þjóðhöfðingjar af ætt Habsborgara voru afkastamiklir drottnarar sem stjórnuðu stórum landsvæðum öldum saman með harðri hendi. Þegar þeir hins vegar hurfu inn í einkavistarverur sínar þurftu þeir að berjast við óendanlega marga líkamlega og geðræna ágalla.

Maxímillían 1. – Þýsk-rómverskur keisari
Var uppi: 1459-1519
Titlar: Hertogi af Búrgúndí, erkihertogi Austurríkis, þýskur konungur og þýsk-rómverskur keisari.
Maxímillían lærði ekki að tala fyrr en hann var níu ára gamall og hann haltraði, sennilega vegna þess að hann var með skakkan hrygg. Á fullorðinsárum var hann þjakaður af alvarlegu þunglyndi og kvíða. Hann var jafnframt með útstæða höku og of stóra tungu.

Karl 5. – Þýsk-rómverskur keisari
Var uppi: 1500-1558
Titlar: Hertogi af Búrgúndí, erkihertogi Austurríkis, konungur Spánar, Ítalíu og Þýskalands, svo og þýsk-rómverskur keisari.
Habsborgarahaka Karls 5. var svo framstæð að hann gat ekki lokað munninum almennilega. Stöðugt var að líða yfir manninn, sennilega af völdum flogaveiki. Á efri árum var konungurinn svo illa haldinn af gigt að hann gat ekki gengið.

Karl 2. – Konungur Spánar
Var uppi: 1661-1700
Titlar: Konungur Spánar.
Karl 2. var með gífurlega framstæða höku og átti í erfiðleikum með mál. Hann slefaði að sama skapi mikið, auk þess sem ofvaxin tungan kom í veg fyrir að hann gæti tuggið. Karl var jafnframt getulaus og ófrjór og með honum dó út Habsborgaraættin sem erfst hafði í beinan karllegg á Spáni.
Fjöldi fingra en engin börn
Auk þess að vera með stóra höku þurftu Habsborgarar einnig að kljást við aðra kvilla sem stöfuðu af innrækt. Sem dæmi má nefna að margir þeirra voru vanskapaðir á einhvern hátt, sumir voru með aukalega fingur eða tær og skakkan hrygg.
Margir þeirra voru að sama skapi ófrjóir og mikið var um fósturlát og andvana fæðingar.
Þrátt fyrir ótalmarga ágalla ríktu Habsborgarar í mörgum af valdamestu konungdæmunum í Evrópu frá 13. öld og allt til ársins 1918 þegar síðustu Habsborgararnir afsöluðu sér völdum.
Árið 2019 tókst að leiða sönnur á venslin milli innræktar og Habsborgarakjálka með vísindalegri rannsókn. Sérfræðingar rannsökuðu 66 andlitsmyndir af konungbornum Habsborgurum og fundu sterk tengsl milli umfangs innræktarinnar annars vegar og lögunar á hökum einstaklinganna á myndunum hins vegar.