Í annálum Egyptalands til forna hafa fáar persónur látið eftir sig jafn merk eftirmæli og Nefertítí drottning.
Hún var þekkt fyrir einstaka fegurð og stjórnmálalega snilligáfu og hún ríkti við hlið eiginmanns síns, faraósins Akenatons, á einhverju viðburðaríkasta tímabili í gjörvallri sögu Egyptalands á 15. öld f.Kr.
Hún innleiddi fyrstu eingyðistrú sögunnar, ásamt eiginmanni sínum og var í forsvari fyrir ríki í mikilli þróun, allt þar til skyndilega var hætt með öllu að geta hennar í sagnfræðiheimildum Egypta á 12. stjórnarári eiginmannsins en söguheimildir Egypta þóttu annars einkar nákvæmar.
Sagnfræðinga og sérfræðinga í menningu Forn-Egypta greinir á um hvað orðið hafi um Nefertítí.
Sérfræðingar hafa birt ýmsar kenningar þess eðlis að þessi fornfræga drottning hafi af ýmsum ástæðum getað fallið í ónáð hjá eiginmanni sínum, Akenaton sem hafi hrakið hana á brott úr hirðinni.
Önnur tilgáta er sú að Nefertítí hafi ofur einfaldlega andast, annað hvort af eðlilegum orsökum eða þá af völdum einhvers af mörgum faröldrum þess tíma.
Nefertítí er þekkt fyrir fegurð sína og glæsibrag en hún gegndi jafnframt mikilvægu hlutverki í sögu Egyptalands.
Tók Nefertiti sér nýtt nafn?
Þriðja kenningin og sú sem hvað flestir hafa aðhyllst í seinni tíð, er sú að Nefertítí hafi í raun skipt um nafn og ríkt undir öðru nafni eftir andlát Akenatons.
Þessi kenning byggir á áletrun sem fannst árið 2012 þar sem gefið er til kynna að Nefertítí kunni að vera sama persóna og Neferneferuaten, kvenfaraó sem ekki hafði tekist að bera kennsl á áður og sem ríkt hafi eftir dag Akenatons.
Þær gátu unnið eins og karlmenn, drukkið sig fullar þar til þær ældu og jafnvel orðið guðdómlegir drottnarar landsins. Egypskar konur voru öllum konum frjálslegri á fornöld.
Tilgáta þessi er studd af þeirri staðreynd að Nefertítí hefur verið sýnd sem faraó á mörgum fornminjum sem fundist hafa, m.a. þar sem hún ekur í stríðsvagni eða tilbiður guðinn Aton.
Þrátt fyrir mýmargar kenningar skortir sagnfræðinga þó enn mikilvægan hluta af ráðgátunni um Nefertítí og örlög hennar eru fyrir vikið enn sveipuð dulúð.