Matvælaframleiðsla á sök á 37% allrar losunar gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt nýjum útreikningum losar þessi framleiðsla 17,3 milljarða tonna af koltvísýringi á ári sem er 19 sinnum meira en flugið.
Gróðurhúsaáhrif landbúnaðar stafa að mestu frá kvikfjárrækt, samtals meira en helmingur.
Til að bera saman loftslagsspor frá einstökum matvörum þarf að umreikna losun allra gróðurhúsalofttegunda í koltvísýringsígildi. Þannig er t.d. metan umreiknað í það magn koltvísýrings sem hefur samsvarandi gróðurhúsaáhrif.
1. Lambakjöt
Loftslagsspor: 21,4 kg koltvísýringsígildi, hvert kíló.
Sauðkindin er jórturdýr og þau mynda metangas við meltingu. Metan er 25 sinnum öflugri gróðuhúsalofttegund en koltvísýringur.
Við framleiðslu hvers kílós af lambakjöti verður losunin, talin í ígildum, jafnmikil og við ræktun 107 kg af kartöflum eða 26 kg af hafragrjónum.
2. Humar
Loftslagsspor: 20,2 kg koltvísýringsígildi, hvert kíló.
Fiskveiðiskip brenna mikilli dísilolíu og veiða á miklu dýpi, þar sem humar er yfirleitt veiddur og losa því meiri koltvísýring en fiskveiðar nær landi.
Þetta skeldýr er þó ekki mjög oft á matseðlinum og að samanlögðu eru gróðurhúsaáhrifin miklu minni en t.d. af svínarækt.
3. Nautakjöt
Loftslagsspor: 13,9 kg koltvísýringsígildi, hvert kíló.
Nautgriparækt losar einkum metangas og þótt bæði lambakjöt og humar leiði til meiri losunar á hvert kíló er framleiðsla nautakjöts mikil og heilaráhrifin miklu meiri.
Á heimsvísu voru framleiddar 118 milljónir tonna af nautakjöti 2019 og loftslagsáhrifin reiknast á borð við 1.640 milljónir tonna af koltvísýringi.
4. Smjör
Loftslagsspor: 10,6 kg koltvísýringsígildi, hvert kíló.
Rétt eins og gildir um nautakjöt stafar losun af framleiðslu mjólkurvara frá kúnni sem losar 200-650 grömm af metangasi á dag.
Smjörframleiðsla kostar meiri losun en aðrar mjólkurvörur því í 1 kg af smjöri þarf 20 lítra af mjólk.
5. Rækjur
Loftslagsspor: 10,5 kg koltvísýringsígildi, hvert kíló.
Gróðurhúsaáhrifin af frosnum, pilluðum rækjum stafa m.a. af mikilli orkunotkun við frystingu.
Til viðbótar losa veiðarnar mikið af koltvísýringi, eins og fiskveiðar almennt, einkum ef rækjan er sótt á mikið dýpi.