Hugtakið „woke“ – að vera vakandi gagnvart óréttlæti í samfélaginu – á rætur að rekja aftur til byrjunar 20. aldar.
Hugtakið tengist sögulega baráttu bandarískra blökkumanna gegn kynþáttahatri. Uppúr 1930 var þetta algengt slang meðal þeirra í BNA, þar sem blökkumenn voru hvattir til að vera vakandi og ævinlega á varðbergi gagnvart óréttlæti kynþáttahaturs.
Sem dæmi notaði blús-söngvarinn Leadbelly frasann „stay woke“ árið 1938 í laginu Scottsboro Boys sem fjallar um hóp blökkumanna sem verða ranglega ákærðir fyrir að hafa nauðgað tveimur hvítum konum.
Hugtakið náði meiri útbreiðslu á sjöunda áratugnum með mannréttindahreyfingu þeirra og merkti þá í meira mæli að vera vel upplýstur eða meðvitaður um hvers konar kynþáttahatur og kúgun.

Frá því að varða aðeins baráttuna gegn kynþáttahatri lýsir hugtakið „woke“ í dag virkum stuðningi við nánast hvaða framsæknu álitamáli sem er.
Lögregluofbeldi endurvakti ,,woke”
Núverandi notkun á hugtakinu má rekja frá því uppúr 2010 eftir fjölda atburða þar sem bandarísk lögregla réðist með miklu ofbeldi og jafnvel skothríð gegn svörtu fólki.
Hreyfingin Black Lives Matter nýtti sér hugtakið „stay woke“ til að vekja athygli manna á kynþáttahatri í BNA en síðan hefur hugtakið einnig verið notað til að lýsa virkum stuðningi við umdeild baráttumál jaðarhópa eins og t.d. LGBT-réttindabaráttu og feminisma.
Núna þykir hugtakið ákaflega umdeilt og hefur verið gagnrýnt af hægri mönnum, þegar það er notað til þess að benda á ójöfnuð. Hér á Íslandi hafa íhaldsmenn hæðst að því sem þeir kalla „góða fólkið“.
Það er þó einkum í BNA sem „woke“ er nú notað af íhaldsmönnum og repúblikönum sem ámæli við demókrata eða þá sem teljast vera á vinstri vængnum.