SPURNINGAR OG SVÖR
Vatnspípan er að líkindum upprunnin á Indlandi og hefur borist þaðan til Mið-Austurlanda. Fyrstu vatnspípurnar hafa líkast til verið gerðar úr kókoshnetum með löngu röri. Óvíst er hvenær pípan kom fram en sumir telja það geta hafa verið á 14. öld.
Vatnspípan er samsett úr allmörgum hlutum en það er vatnsgeymirinn sem er mest áberandi. Hann er oft skreyttur og getur verið gerður úr málmi, gleri, brenndum leir eða hálf-eðalsteini. Á vatnsgeyminum er pípuhausinn og slanga til að soga reykinn að sér. Þegar sogið er gegnum slönguna myndast undirþrýstingur í vatninu. Reykurinn fer því í gegnum vatnið og kólnar þar áður en hann berst inn í slönguna.
Þegar margir reykja vatnspípu í einu, t.d. á tehúsum, hefur oft hver sitt munnstykki sem slöngunni er smeygt upp á. Í Mið-Austurlöndum tengjast vatnspípureykingar félagslegu samneyti, spjalli og íhugun.