Plánetan með lengsta umferðartímann um sólina og þar með lengsta árið í sólkerfinu er Neptúnus. Það tekur hvorki meira né minna en 60.182 jarðardaga að fara einn hring um Sólina, sem samsvarar tæplega 165 jarðarárum.
Á Neptúnusi myndi jafnvel elsta manneskja jarðar til þessa, hin franska Jeanne Calment, sem varð 122 ára og 164 daga gömul, ekki einu sinni geta haldið upp á eins árs afmælið sitt.
Umferðartími reikistjarnanna eykst með fjarlægð frá sólu. Þessu er lýst í 3. lögmáli þýska stjörnufræðingsins Johannes Kepler sem hljóðar svo: “Umferðartími reikistjarna í öðru veldi er í réttu hlutfalli við fjarlægðina til sólar í þriðja veldi”.
Þetta þýðir til dæmis að ef reikistjarna A er fjórum sinnum lengra frá sólu en reikistjarnan B, þá verður umferðartími A átta sinnum lengri en B.
Það er því nokkuð eðlilegt að Neptúnus, sem er ysta reikistjarnan, hafi lengsta árið á meðan umferðartíminn styttist fyrir hverja þá plánetu sem nær er sólu.
Dvergreikistjarna á metið
En sólkerfið nær lengra en til Neptúnusar. Mörkin eru oft sett þar sem gasþrýstingur utan úr geimnum og þrýstingur frá sólvindi jafna hvort annað. Það gerist ca. 150 milljarða km frá sólu.
Himintunglið með lengstu brautina, sem heldur sig ávalt innan marka sólkerfisins, er dvergreikistjarnan Eris sem fannst árið 2005.

Í samanburði við reikistjörnurnar hefur dvergreikistjarnan Eris mjög ílanga og verulega lengri braut um sólina. Sporbraut Neptúnusar er teiknuð hér með bláu.
Braut þessa litla hnattar er 559 jarðár. Ef við notum tímareikning Jarðar á Eris, væri nú árið 4 e.Kr.
