Forfeður þeirra réðu yfir mest allri Norður-Ameríku. Um þessar mundir eru flestir afkomendur þeirra dæmdir til að lifa lífi sem vafalítið fengi forfeðurna til að snúa sér við í gröfinni.
Frá því í byrjun 19. aldar hafa norður-amerískir indíánar misst nánast öll sín landsvæði og er þeim nú safnað saman á verndarsvæðum sem dreifast yfir öll BNA.
Ættbálkarnir sem telja tæplega 600, búa nú á 326 verndarsvæðum. Samkvæmt tölum frá bandarískum yfirvöldum ná verndarsvæðin yfir 227.000 km2 sem er 2,3% af flatarmáli BNA.
Þetta felur í sér að svokölluð „indíánalönd“ samsvara ríflega tvöfaldri stærð Íslands.
MYNDSKEIÐ: Hvað þýðir orðið ,,verndarsvæði” fyrir þig?
Ríki á landið
Þrátt fyrir að indíánarnir hafi nokkra sjálfstjórn á verndarsvæðunum eiga þeir þó ekki þá jörð sem þeir búa á.
Dómsúrskurður frá árinu 1831 kvað á um að indíánarnir megi búa á jörðunum en að ríkið eigi landsvæðin og hafi lokaorð um hvernig megi ráðstafa þeim.
Þennan rétt hefur ríkið margsinnis nýtt sér, m.a. til þess að vinna úran eða prófa kjarnorkuvopn á svæðum sem heyra undir verndarsvæðin, m.a. í Arizona og Nevada, þar sem vatnsból indíánanna eru enn þann dag í dag menguð og á óíbúðarhæfum svæðum.
Efnismikil rannsókn á erfðaefni hefur varpað ljósi á ráðgátuna um það hvaðan amerískir indíánar komi upprunalega. Rösklega 100.000 DNA-sýni voru rannsökuð með tilliti til vísbendinga um þræði sem tengja okkur við ísöldina.
Lögfræðilega séð eru ættbálkarnir skilgreindir sem „innlendar, lægra settar þjóðir“ sem felur í sér að þeir mega hvorki kaupa né selja land. Því verða frumbyggjar Norður-Ameríku að láta sér duga jörð sem er einatt afar hrjóstug, menguð og óheppileg fyrir t.d. landbúnað.
Auk þess hefur bandarísk löggjöf stundum veitt hvítum mönnum leyfi til að kaupa jarðir á verndarsvæðunum sem felur í sér að sum verndarsvæðin samanstanda af brotum sem tengjast ekkert nauðsynlega saman.
Í dag býr um ein milljón af 2,5 milljónum bandarískra indíána á verndarsvæðunum.
Á verndarsvæðum halda indíánar menningu sinni lifandi en fátækt, alkóhólismi og há dánartíðni barna plaga frumbyggja Ameríku enn þann dag í dag.
Stærstu verndasvæði BNA
Flest þessara ríflega 300 verndarsvæða indíána í BNA eru tiltölulega lítil en stærst þeirra er Navaho Nation sem er á stærð við Írland og skarast við þrjú bandarísk fylki. Á verndarsvæðunum hafa indíánar svokallað ættbálka-fullveldi og geta í einhverjum mæli sett lög sem stangast á við löggjöf þessara fylkja. Sem dæmi geta ættbálkalögin leyft spilavíti á verndarsvæðunum þrátt fyrir að fylkin banni slíkt.

Navajo Nation
Stofnað: 1868
Landsvæði: Arizona, Utah og Nýja-Mexikó
Flatarmál: 71.000 km2
Íbúafjöldi: Um 175.000
Ættbálkur: Navajo
Efnahagur: Innfæddir lifa m.a. af landbúnaði, ferðamennsku, handverki (einkum silfursmíði og teppagerð) og námugrefti. Auk þess vinna fjölmargir við stjórnsýslustörf og í heilbrigðiskerfinu.

Uintah and Ouray Indian Reservation
Stofnað: 1886
Landsvæði: Utah
Flatarmál: 17.000 km2
Íbúafjöldi: Um 19.000
Ættbálkur: Ute
Efnahagur: Tekjur verndarsvæðisins byggja einkum á olíu- og gasvinnslu. Auk þess stundar Ute-ættbálkurinn landbúnað, kúabúskap, ferðamennsku og rekur einnig spilavíti.

Tohono O’odham Nation
Stofnað: 1917
Landsvæði: Arizona
Flatarmál: Tæpir 11.000 km2
Íbúafjöldi: Um 11.000
Ættbálkur: Tohono O’odham
Efnahagur: Margir á verndarsvæðinu lifa undir fátækramörkum en reyna að vinna fyrir sér m.a. með landbúnaði og rekstri spilavíta. Einnig fær ættbálkurinn nokkrar tekjur frá handverki og vinnslu sólarorku.