Ekki er vitað hvenær manneskjur hófu að kyssast. En fyrstu skrásettu heimildirnar um kossa áttu sér stað í Mið-Austurlöndum fyrir meira en 4.500 árum.
Þetta staðhæfa fræðimenn við Kaupmannahafnarháskólann og Oxford University sem hafa rannsakað skriflegar heimildir frá hinni fornu Mesópótamíu, þar sem nú er Írak.
Greiningar á fornum leirtöflum með fleygskrift sýna að rómantískir og erótískir kossar tíðkuðust fyrir 2.500 árum f.Kr.
„Það hafa varðveist þúsundir af slíkum leirtöflum og sumar innihalda greinileg dæmi um að litið hafi verið á kossa sem eðlilegan þátt í mannlegri nánd í fornöld“, segir assýríufræðingurinn Troels Pank Arbøll sem hefur rannsakað leirtöflurnar í þaula.
Þar með er búið að færa fyrsta skrásetta kossinn um 1.000 ár aftar í tímann, því fræðimenn töldu elstu heimildina vera frá því um árið 1.500 f.Kr. á Indlandi.
Fornleifafræðingar vita af mörgum leirtöflum frá Mesópótamíu sem sýna manneskjur kyssast. Þessi er frá því um 1800 f.Kr.
En þetta nána og kærkomna samneyti manna og kvenna hefur vafalítið átt ríkan þátt í að dreifa bakteríum og veirum í samfélaginu.
Á mesópótamísku leirtöflunum er nefnilega að finna dæmi um sjúkdómseinkenni sem fylgja herpes-veirunni HSV-1 sem er í dag ein algengasta veirusýking meðal manna.
Fólk finnur fyrir kitli í munnvikum og kláða við kynfæri þegar einkenna herpesveirunnar verður vart. Fjórir milljarðar manns kljást við veiruna hverju sinni en nú er nýju bóluefni ætlað að stöðva þessa óværu og jafnframt að lækna þá sem hafa smitast.
„Hafi kossar verið viðtekin venja í mörgum samfélögum til forna, hafa afleiðingar af veirismiti verið stöðugar og viðvarandi um heim allan“, segir Sophie Lund Rasmussen sem starfar við Oxford University.