Íslamska tímatalið hófst 16. júlí 622 e.Kr., þegar Múhameð spámaður og fylgjendur hans yfirgáfu Mekka og héldu til Medínu til að komast undan trúarofsóknum.
Fyrir landflóttann hafði Múhameð í u.þ.b. áratug fengið röð opinberana og lítill hópur farinn að fylgja honum.
En Múhameð og nýja trú hans voru þyrnir í augum öflugra ættibálka í Mekka og því hélt Múhameð til Medínu, þar sem hann settist að og stofnaði fyrsta múslimasamfélagið.
Nýtt dagatal múslima
Íslamska dagatalið var sett á laggirnar árið 638 af kalífanum Umar, sem var bæði tengdafaðir Múhameðs og leiðtogi múslima eftir dauða spámannsins.
Samkvæmt sögusögn einni kvartaði embættismaður kalífans yfir því að hann ætti erfitt með sumar skipanir kalífans því þær væru ekki dagsettar.
Fram til þessa höfðu Arabar nefnt hvert ár – til dæmis Ár jarðskjálftans – eftir mikilvægustu atburðum ársins. En eftir að hafa ráðfært sig við ráðgjafa sína ákvað kalífinn að kynna dagatal með árum – sem hófst með brottför Múhameðs frá Mekka.
Íslamska tímatalið fylgir ferðum tunglsins og er eitt ár því aðeins 353-355 dagar.
Múslimaárið er styttra
Hið nýja tímatal kalífans var svokallað tungldagatal þar sem 12 mánuðir ársins fylgja ferðum tunglsins. Í gregoríska tímatalinu sem notað er á Vesturlöndum fylgir tímatalið þess í stað braut jarðar um sólina.
Þetta þýðir að mánuðir í íslamska dagatalinu eru 29-30 dagar og að eitt ár er því bara 353-355 dagar.
Af sömu ástæðu fylgir árið ekki árstíðum og mörg múslimska lönd nota einfaldlega íslamska dagatalið til að tímasetja trúarhátíðir – til dæmis Ramadan – á meðan gregoríska dagatalið er notað fyrir daglegt líf.