„Svartur laugardagur“ er heitið á ofsafengnum átökum sem áttu sér stað í höfuðborg Egyptalands, Kaíró, laugardaginn 26. janúar 1952. Óeirðirnar leiddu af sér þjófnað og bruna um 750 bygginga víðs vegar í stórborginni, þar sem m.a. hótel, veitingastaðir, bankar, stórverslanir, kvikmyndahús og kaffihús voru lögð í rúst.
Ástæða eyðilegginganna var árás Breta á opinbera egypska byggingu, svo og nokkra herskála í borginni Ismailia daginn á undan sem kostuðu 50 egypska hermenn og lögregluþjóna lífið.
Ráðist hafði verið á hermennina sem vopnaðir voru veigalitlum vopnum, með vélbyssum og skriðdrekum og slátrunin vakti gríðarlega reiði meðal Egypta. Íbúarnir í Kaíró þyrptust út á götur til að mótmæla Stóra-Bretlandi sem ráðið hafði ríkjum í Egyptalandi allar götur síðan 1882.
Óeirðirnar sem beindust að Bretum bitnuðu m.a. á Rivoli kvikmyndahúsinu sem var í eigu Breta.
Stuðningsmennirnir höfðu frjálsar hendur
Sökum þess að lögreglu og öryggissveitir var hvergi að sjá tóku skipulagðir hópar mótmælin brátt yfir í stað þeirra tilviljanakenndu mótmælenda sem hafið höfðu mótmælin. Stjórnendur þessara hópa beindu fólksfjöldanum að byggingum sem annað hvort voru í eigu eða höfðu tengingu við Stóra-Bretland.
Hópar þessir voru fremstir í fylkingu þeirra sem rændu og brenndu niður byggingar en hverjir stóðu á bak við „Svarta laugardaginn“ er enn ekki vitað fyrir víst.
Óeirðirnar mörkuðu upphafið að tímabili sem einkenndist af óstöðugleika á sviði stjórnmála og enduðu með valdaráni í júlí árið 1952 en í kjölfarið var stofnað lýðveldi í stað konungsríkisins sem hafði verið hliðhollt Vesturlöndum. Bretar yfirgáfu loks Egyptaland fjórum árum síðar, þ.e. árið 1956.