Í ýmsum löndum hefur tíðkast að láta fanga lausa gegn tryggingu, m.a. í Bandaríkjunum, Frakklandi og Bretlandi.
Í slíkum tilvikum getur dómari leyft að ákærði losni úr varðhaldi ef hann getur tryggt að hann verði viðstaddur réttarhöldin þegar þau fara fram, yfirleitt með því að reiða fram tiltekna peningaupphæð sem tryggingu.
Þó svo að það að láta fanga lausa gegn tryggingu sé einn af hornsteinum refsilöggjafarinnar í mörgum löndum nú til dags, á þetta fyrirkomulag sér eldgamlar rætur og nær aftur til fyrstu fornu menningarsamfélaganna.
Sem dæmi má nefna að fornleifafræðingar hafa fundið leirtöflu frá því um 2750 f.Kr., þar sem sagt er frá því að kaupmaður nokkur frá borginni Akkud í Mesópótamíu hafi greitt tryggingu fyrir bónda einn til þess að sá hinn sami yrði losaður úr varðhaldi.
Bóndinn hafði undirgengist samkomulag og lofað að hann, gegn greiðslu, skyldi sá, bera á og uppskera akur annars manns á meðan sá síðarnefndi gegndi herþjónustu.
Til þess að tryggja að maðurinn stæði við sinn hlut samkomulagsins gekkst kaupmaðurinn í ábyrgð fyrir bóndann og skuldbatt sig til að reiða fé af hendi stæði bóndinn ekki við sinn þátt.
Trygging gegn því að fangar gengju lausir í tengslum við réttarhöld hefur m.a. tíðkast frá því í Rómarborg til forna. Í einu af fyrstu tilvikunum sem vitað er um hafði aðalsmaðurinn Caeso Quinctius verið ákærður fyrir að hafa myrt mann nokkurn árið 461 f.Kr.
Öldungaráðið tók ákvörðun um að láta Quinctius lausan gegn tryggingu en þegar sá hinn sami svo lét sig hverfa úr borginni neyddist faðir hans til að „selja allar sínar eigur“ til þess að greiða fyrir tryggingu sonarins.
Morðtíðnin í Oxford á 14. öld var 50 sinnum meiri en raunin er núna í enskum stórborgum og hópslagsmál þar sem öxum var beitt voru algeng. Ný rannsókn fer í saumana á morðunum og varpar ljósi á ofbeldið.
Til forna, svo og á okkar dögum, er unnt að borga sig lausan gegn tryggingu ef dómstólarnir meta sem svo að lítil hætta sé á að viðkomandi stingi af eða að samfélaginu stafi ógn af honum.
Þessi háttur hefur aldrei tíðkast á Íslandi en í nágrannalöndum okkar, t.d. í Danmörku, er í einstaka tilvikum unnt að fá sig keyptan lausan gegn tryggingu en því ákvæði er afar sjaldan beitt.