Sagan greinir frá mörgum moldríkum persónum en orðið „milljónamæringur“ var í fyrsta sinn notað um skoska hagfræðinginn John Law.
Law fæddist inn í fjölskyldu bankamanna árið 1671 og tók við starfsemi fjölskyldunnar þegar faðir hans féll frá. Hann var þó alls ekki ábyrgur maður og vanrækti skyldur sínar en ferðaðist oft til Lundúna þar sem hanna svallaði og stundaði fjárhættuspil.
Árið 1694 endaði þetta gjálífi skyndilega þegar hann drap mann í einvígi. Hann var dæmdur til dauða en tókst að flýja úr fangelsinu. Hann fór til meginlands Evrópu og ferðaðist þar um árum saman þar til hann endaði í Frakklandi.
Þar var efnahagurinn í rúst eftir margra ára stríðsrekstur en Law tókst að heilla konung Frakklands með málskrúði sínu og var settur sem fjármálaráðherra í ríkisstjórninni.
MYNDBAND: John Law og Mississippi kúlan
Law fékk leyfi til að stofna franskan þjóðarbanka árið 1716 sem tókst svo vel að hann kom á laggirnar fyrirtækinu Compagnie du Mississippi – almenningshlutafélagi sem hafði einokun á öllum viðskiptum við nýlendur Frakka í Ameríku.
Verðgildi hlutabréfanna jókst hratt og steig um einhver 3.500 prósent – aðallega vegna spákaupmennsku sem og loforðum Laws um stórkostlegt ríkidæmi í nýlendunum.
Hlutbréf Laws hækkuðu svo mikið í verði að hugtakið „milljónamæringur“ var í fyrsta sinn notað á prenti til að lýsa því hversu moldríkur Law var nú orðinn.
Peningar borga sig ekki! Greiðslukort og símgreiðslur hafa leyst af hólmi kostnaðarsama peningaseðla, svo og mynt.
Árið 1720 fór að halla verulega undan fæti hjá Law. Franska ríkið prentaði peningaseðla í miklum mæli sem fjárfestar nýttu til að kaupa fleiri hlutabréf en þegar afraksturinn frá nýlendunum stóð ekki undir væntingum þeirra greip örvænting um sig meðal fjárfesta.
Þeir kepptust nú við að selja hlutabréf sín sem skjótast og verðgildi þeirra hrundi.
Efnahagskreppa skall á í Frakklandi og John Law neyddist til að flýja land.
Aftur þvældist hann um Evrópu, þar sem hann eyddi tíma sínum helst í fjárhættuspilum allt þar til hann lést blásnauður aðeins 57 ára gamall í Feneyjum árið 1729.
Ríkur, ríkari og ríkastur
Fyrsti margmilljónamæringur sögunnar varð ríkur af loðfeldum og fasteignum á 19. öld. Hundrað árum síðar skapaði olían fyrsta milljarðamæring heimsins. Nú berjast þrír auðmenn um að verða fyrsti billjónamæringurinn.

Fyrsti margmilljónamæringurinn
Nafn: John Jacob Astor
Ár: 1763-1848
Atvinna: Pelsa- og fasteignasali
John Jacob Astor fæddist í Þýskalandi, flutti árið 1783 til BNA, þar sem hann endaði sem einn auðugasti maður landsins. Astor aflaði auðævanna á sölu pelsa og snéri sér síðar að fjárfestingum í fasteignum – einkum í New York borg þar sem hann festi kaup á stórum landsvæðum sem urðu síðar að verðmætum borgarhverfum. Hann stofnaði Astor-ættarveldið sem varð eitt það valdamesta í Bandaríkjunum.

Fyrsti milljarðamæringurinn
Nafn: John D. Rockefeller
Ár: 1839-1937
Atvinna: Olíubarón
John D. Rockefeller var einn af auðugustu mönnum sögunnar. Árið 1870 stofnaði hann olíufyrirtækið Standard Oil og náði yfirburðastöðu innan geirans með harðfengi í viðskiptum sem útrýmdi fjölmörgum keppinautum hans. Standard Oil náði nánast einokunarstöðu og árið 1916 varð Rockefeller fyrsti milljarðamæringur sögunnar í dollurum talið. Þá námu auðævi hans tveimur hundraðshlutum af vergri landsframleiðslu BNA.

Fyrsti billjónamæringurinn?
Frá árinu 2020 hafa fimm auðugustu menn heims tvöfaldað auðævi sín og eftir nokkur ár gætum við fengið fyrsta dollara-billjónamæringinn – auðmann hvers auðævi eru metin á 1.000 milljarða dollara eða meira. Þetta sýnir rannsókn frá Oxfam en það eru samtök sem berjast gegn fátækt í heiminum.
Þeir þrír kandidatar sem eru líklegir til að komast í sögubækurnar eru auðkýfingurinn Bernard Arnault (223 milljarðar dala), Tesla-eigandinn Elon Musk (195 milljarðar dala) og eigandi Amazon, Jeff Bezos (194 milljarðar dala).