Golda Meir sem gekk gjarnan undir heitinu „járnfrú Ísraels“, átti þátt í stofnun Ísraelsríkis og árið 1969 var hún kjörin fyrsti og jafnframt eini kvenforsætisráðherra landsins.
Hún leiddi Ísrael á mjög viðsjárverðum tímum í kjölfarið á sexdagastríðinu þar sem landið var beitt miklum þrýstingi af hálfu arabískra nágrannalanda þess. Spennuþrungið ástandið leiddi af sér Jom kippúr-stríðið í stjórnartíð Goldu Meir árið 1973 en hún stýrði ríkinu í átökunum við Egyptaland og Sýrland.
Fátt benti til þess að Golda Meir ætti eftir að stjórna heilu ríki þegar hún kom í heiminn árið 1898 en faðir hennar var fátækur smiður í Kænugarði. Fjölskyldan fluttist vestur um haf árið 1906 í leit að betra lífsviðurværi og hin unga Golda kynntist síonisma í Bandaríkjunum.
Sú hugmyndafræði síonista sem felst í því að gyðingar ættu eftir að hverfa aftur til landsins helga átti hug ungu konunnar allan og árið 1921 ferðaðist hún til Palestínu í því skyni að stuðla að stofnun gyðingaríkis.
Meir hafði mikla pólitíska hæfileika
Golda Meir starfaði innan verkamannaflokksins í Palestínu og gegndi svo mikilvægu hlutverki innan flokksins að hún var ein þeirra sem undirrituðu sjálfstæðisyfirlýsingu nýja ríkisins þegar Ísraelsríki var stofnað árið 1948.
Golda þótti búa yfir miklum hæfileikum á sviði stjórnmála og utanríkismála. Þessir hæfileikar stuðluðu að því að hún var kjörin fyrsti sendiherra Ísraelsríkis í Sovétríkjunum og síðar meir valin sem atvinnuráðherra og utanríkisráðherra.
Hizbollah-samtökin eru talin hafa um 100.000 hermenn og þau gætu hvenær sem er tekið upp baráttuna með Hamas.
Árið 1969 tók Golda Meir við æðsta embætti landsins þegar hún var kjörin forsætisráðherra en hún var afar umdeild á þessu tímabili er hún gegndi æðstu stöðu þjóðarinnar.
Hún hlaut töluverða gagnrýni fyrir framgöngu sína í Jom kippúr-stríðinu og svo fór að hún lét af embætti árið 1974.
Orðspor hennar beið þó engan hnekki og í dag er hennar minnst sem eins áhrifamesta leiðtoga sem Ísraelsríki hefur átt.
Ísraelsríki blóði drifið
Hinn 14. maí árið 1948 lauk afskiptum Breta af Palestínu og þann sama dag lýstu gyðingar yfir stofnun gyðingaríkis. Strax næsta dag hófst stríðsrekstur Ísraela gegn arabísku grannþjóðunum en þær deilur áttu eftir að skilja eftir sig blóði drifin spor næstu áratugina.

Stríð milli Ísraela og Arabaríkjanna
Hvenær: 15. maí 1948 – 20. júlí 1949
Þegar Ísraelar höfðu undirritað sjálfstæðisyfirlýsinguna réðst bandalag Arabaríkja til atlögu við nýstofnað gyðingaríkið.
Afleiðingar:
Bardögunum lyktaði með vopnahléssamkomulagi en Ísraelum tókst að stækka yfirráðasvæði sitt til muna umfram það sem ákvarðað hafði verið í upphaflegu skiptingunni sem Sameinuðu þjóðirnar gerðu tillögu um árið 1947. Rösklega 700.000 Palestínumenn misstu heimili sín.

Súesdeilan
Hvenær: 29. október – 5. nóvember 1956
Ísraelar réðust inn á Sínaískaga eftir að Egyptar ákváðu að þjóðnýta Súesskurðinn og loka á skipaumferð Ísraela.
Afleiðingar:
Deilunni lyktaði með vopnahléi sem fól í sér að Ísraelar skyldu hverfa á brott af Sínaískaganum í skiptum fyrir að tryggt yrði að Ísraelsmönnum skyldi heimilt að sigla skipum sínum um Súesskurðinn, auk þess sem friðarsveitir SÞ yrðu staðsettar á Sínaískaga.

Sexdagastríðið
Hvenær: 5.-10. júní 1967
Eftir langvarandi fjandsamlegar aðgerðir gerðu Ísraelar loftárás á Egyptaland og báru sigur úr býtum gegn Egyptalandi, Jórdaníu og Sýrlandi.
Afleiðingar:
Ísraelar hertóku Vesturbakkann, Gólanhæðir, Gasaströndina og Sínaískaga. Þetta leiddi af sér gríðarlegar breytingar á landafræði og stjórnmálum Miðausturlanda og lagði í raun línurnar í nýjum átökum á svæðinu.

Jom kippúr-stríðið
Hvenær: 6.-25. október 1973
Egyptar og Sýrlendingar stóðu fyrir skyndiárás á hendur Ísraelum á helgidegi gyðinga, Jom kippúr.
Afleiðingar:
Stríðinu lyktaði með vopnahléi sem fól í sér samkomulag um óbreytt ástand hvað landsvæði áhrærði. Deilan opnaði augu Ísraela fyrir varnarleysi þeirra og farið var að einblína í auknum mæli á samningaumleitanir og brautin fyrir friðarsáttmála og samninga var rudd.