Stærsta eyja heims hefur aldrei verið sérlega gestrisin þeim sem búa þar. Á þúsundum ára hafa nokkrar þjóðir komið og farið – eða þær hafa farist í hörðu heimskautsloftslaginu.
Eitt sinn settust víkingar þar að. Það var um svipað leyti og núverandi íbúar Grænlands, Inúítar, fluttu til landsins. En víkingarnir fengu nóg og hurfu sporlaust.
Á 17. öld reyndu Evrópumenn aftur. Evrópsk nýlenduveldi börðust um auðlindir eyjarinnar. Árið 1721 tryggði Danmörk yfirráð yfir Grænlandi og gerði það að nýlendu sinni.
Í dag er raunveruleikinn allt annar og sennilega ekki auðvelt fyrir forseta og annað gott fólk að skilja það til hlítar.
Hér er yfirlit yfir sögu Grænlands og stöðu eyjarinnar samkvæmt alþjóðalögum í dag.
Verður Donald Trump hinn nýi nýlenduherra Grænlands?
Donald Trump fékk margar skringilegar hugmyndir í forsetatíð sinni á árunum 2017 til 2021.
Haustið 2019 komst dagblaðið The Wall Street Journal á snoðir um eina kostulegustu hugmyndina: Forseti Bandaríkjanna og fyrrverandi fasteignarisinn, Donald Trump, hugðist kaupa Grænland af Dönum fyrir hönd Bandaríkjanna.
Og þær hugmyndir hafa skotið upp kollinum aftur nú árið 2025 þegar Trump tekur við embætti forseta Bandaríkjanna.
Trump virtist alls ekki skammast sín fyrir hugdettuna þegar hún kvisaðist út. Fréttamenn náðu tali af forsetanum á flugvelli einum í New Jersey og spurðu hann spjörunum úr. Þar gerði hann grein fyrir hugmyndum sínum.
„Um er að ræða gríðarlega fjárfestingu, ef þannig má að orði komast. Möguleikarnir eru óendanlegir. Grænland er baggi á Dönum því það kostar Danina hartnær 700 milljón Bandaríkjadali árlega að halda öllu gangandi í landinu. Einnig út frá hernaðarlegu sjónarmiði myndi það henta Bandaríkjunum ákaflega vel að eignast Grænland“, sagði Trump á meðan fréttamenn tóku upp viðtalið og golan lék við ljóst hár forsetans.

Danski forsætisráðherrann, Mette Frederiksen, var ekki lengi að stinga upp í Trump og stöðva allar vangaveltur hans um að kaupa Grænland.
„Grænland er að sjálfsögðu ekki til sölu og ég vil ítreka að ég hef enga heimild til að selja Grænland. Grænland er ekki dönsk eyja. Grænland tilheyrir Grænlendingum“, lýsti hún yfir stuttu seinna.
Aaja Chemnitz sem situr á danska þinginu fyrir hönd grænlenska stjórnmálaflokksins Inuit Ataqatigiit, var einn þeirra mörgu furðu lostnu Grænlendinga sem voru gáttaðir á þessu útspili Trumps.
„Ef Bandaríkin keyptu landið yrði velferðarþjóðfélag okkar að engu. Ég hef sjálf búið í Bandaríkjunum og samfélagsgerðin þar er gjörólík þeirri grænlensku. Ég kæri mig ekki um að neinn álíti Grænland vera söluvöru. Það er í raun skelfilega óþægilegt að nokkur skuli tala um okkur á þann veg. Þetta er samt sem áður því miður ekki í fyrsta skipti sem það er gert“, bætti hún við.
Rakarinn Friedrich Trump kom til New York árið 1885 með gufuskipi og stofnaði fjölskylduætt sem átti eftir að ná völdum í Hvíta húsinu með hjálp gullæðisins í Klondike, gjaldþrotum spilavíta og Ku Klux Klan.
Þetta voru orð að sönnu því eftir að Bandaríkjamenn keyptu Alaska af Rússum árið 1867 var skipuð nefnd í Bandaríkjunum sem fékk það hlutverk að kanna möguleikana á að eignast jafnframt Grænland, nú þegar farið var að kaupa land á annað borð.
Þá má einnig geta þess að Bandaríkjamenn buðu eitt hundrað milljón dollara fyrir Grænland í forsetatíð Harrys Truman árið 1946. Hefði sú sala gengið í gegn í þá daga, hefði upphæðin að öllum líkindum endað í ríkiskassa Dana en ef Grænland yrði selt í dag myndi salan gagnast sjálfri grænlensku þjóðinni.
Eignarhaldið yfir Grænlandi varð þó fyrst algerlega ljóst fyrir skemmstu.
Loftslagið ræður för

Íbúar Grænlands eru tæplega 60.000 talsins og er mest allt landið í raun risavaxin auðn sem samanstendur af gríðarmiklum ísbreiðum, fjöllum og sléttum.
Grænland er einungis réttnefni meðfram strandlengju landsins yfir stuttan sumartímann þegar gróðurinn þekur svæðið.
Grænland býr yfir miklum auðlindum en kalt loftslagið hefur hingað til ekki freistað verktaka og ævintýramanna úr hópi stjórnmálamanna. Þessu má búast við að hnatthlýnunin eigi eftir að breyta.
Hækkun hitastigs af völdum hnatthlýnunar hefur tvöfaldað umfang grænna svæða í landinu frá því á síðasta áratug 20. aldar og gríðarstórt jökulsvæði á stærð við Belgíu hefur bráðnað á þessu tímabili og þess í stað er þar nú að finna túndru og stöðuvötn sem jökulár renna í.
Fyrstu íbúar eyjunnar
Þetta er engan veginn í fyrsta sinn sem loftslagsbreytingar stjórna þróuninni á Grænlandi. Loftslagið hefur nefnilega löngum stjórnað fólksflutningum til og frá landinu og lifnaðarháttum þar.
Þegar fyrstu mennina bar að eyjunni frá Alaska fyrir hartnær 4.500 árum var veðurfarið hlýrra en nú. Í þá daga lifðu á frjósömu landinu stórar hjarðir sauðnauta, svo og refir og hérar.
„Ég kæri mig ekki um að neinn álíti Grænland vera söluvöru”.
Aaja Chemnitz , grænlensk stjórnmálakona.
Fyrstu landnemunum mætti skipta í tvo hópa, independence I-þjóðflokkinn annars vegar og saqqaq-þjóðflokkinn hins vegar. Fyrrgreindi hópurinn settist að í þeim landshluta sem gengur undir heitinu Peary Land í norðurhluta Grænlands en saqqaq-þjóðin tók sér búfestu á Vestur-Grænlandi.
Um það bil 1800 f.Kr. hvarf independence I-þjóðflokkurinn frá eynni, að öllum líkindum sökum loftslagsbreytinga sem ollu auknum kulda á svæðinu.
Saqqaq-þjóðflokkurinn hélt kyrru fyrir á Grænlandi allt til um 800 f.Kr. og er fyrir vikið sá þjóðflokkur sem haft hefur hvað lengsta samfellda búsetu á eyjunni.

Um það bil sex mánaða gamalt uppþornað reifabarn frá Qilakitsoq frá því um 1475. Ungabarnið er eitt af átta líkum sem fundust árið 1972. Bæði líkami og klæðnaður eru ótrúlega vel varðveittur vegna kulda og lágs raka í norðurskautsloftslaginu. .
Ekki er vitað fyrir víst hvort saqqaq-þjóðflokkurinn dó út eða fluttist búferlum til norðurkanadískra svæða í suðvestri. Hins vegar þykir víst að nýir aðkomumenn hafi komið í þeirra stað þegar dvöl þeirra á Grænlandi lauk.
Kringum 800 f.Kr. barst svokölluð Dorset-menning til Grænlands frá austurhluta Kanada. Dorset-þjóðflokkurinn er nefndur í höfuðið á Dorset-höfða á suðvesturhluta Baffins-eyju, þar sem nú er Kanada en þar hafa fyrstu byggðir þessa menningarheims verið grafnar upp.
Dorset-menningunni hefur verið skipt í þrjú tímabil. Á fyrstu tveimur tímabilunum höfðu íbúarnir eyjuna út af fyrir sig. Á þriðja tímabilinu bjuggu víkingar þar einnig (frá 985) og frá og með um 1200 hafði einnig sest þar að nýtt veiðimannasamfélag sem kom til Grænlands úr norðrinu.
Þessi þjóðflokkur kallaðist inúítar og næstu þrjár aldirnar settust þeir að meðfram gjörvallri strandlengju Grænlands. Inúítarnir stöfuðu upprunalega frá norðausturhluta Síberíu þar sem Beringssund mætir Íshafinu og höfðu þeir yfir langt tímabil þróað fullkomnar aðferðir við einkum hval- og selveiðar.
Óvíst er hvað olli því að inúítar fluttust búferlum til Grænlands en vísindamenn telja að milt loftslagið hafi gert það að verkum að hvalirnir leituðu inn á grænlensk fiskimið og að inúítarnir hafi beinlínis fylgt í kjölfarið. Ínúítarnir eru beinir forfeður grænlensku þjóðarinnar í dag.
Búferlaflutningar úr austri

Saga Grænlands einkennist af endurteknum búferlaflutningum og landnemarnir komu ekki einungis frá Kanada, Alaska og Síberíu.
Árið 985 bættist Eiríkur rauði svo í hóp landnemanna á Grænlandi. Hann hafði verið gerður útlægur frá Íslandi, eins og lesendur vita og fluttist fyrir vikið með fjölskyldu sína til Grænlands. Þar reisti hann stórbýlið Bröttuhlíð á suðvesturhluta Grænlands.
Í kjölfarið fluttu fjölmargir víkingar á eftir honum til Grænlands og næstu fjórar aldirnar lifðu þeir góðu lífi meðfram strandlengju Grænlands þar sem þeir lifðu af gæðum jarðar. Nýju landnemarnir voru norrænir menn og andstætt við veiðimennina frá heimskautasvæðunum komu víkingarnir úr austri.
Í Eiríkssögu rauða og Grænlendingasögu er löngun víkinga til að fara til Grænlands skýrð á þann veg að löndin í norðri hafi þá enn ekki verið sameinuð undir einum kóngi.
Þetta hafi leitt til þess að margir höfðingjar hafi iðulega átt í stríði hver við annan sem varð mörgum þeirra hvatning til að freista gæfunnar annars staðar. Þá ber einnig að geta þess að norrænu mennirnir höfðu yfir að ráða góðum sjóskipum sem gerðu þeim kleift að sigla yfir úthöfin.
Þeir norrænu fluttu með sér afar framandlega menningu til Grænlands, í formi landbúnaðar og kristinnar trúar sem varð sífellt útbreiddari meðal víkinga. Landbúnaðurinn byggði einkum á kjöt- og mjólkurframleiðslu húsdýra á beit, svo og framleiðslu á ull sem notuð var í vefnað.
Víkingarnir hófu jafnframt að leita uppi verðmætan söluvarning á borð við hvítabjarnarfeldi og rostungs- og náhvalstennur sem selja mátti dýrum dómum á meginlandi Evrópu.
Víkingar á Grænlandi
Víkingarnir komu til Grænlands á árunum upp úr 980 og lifðu á eyjunni í ein 400 ár þar sem þeir stunduðu landbúnað og fóru á veiðar. Nærri árinu 1400 hurfu víkingarnir skyndilega aftur á braut af eyjunni og að þessu sinni var það ekki einungis veðurfarið sem hrakti landnemana á brott.

Grænland hið græna
Víkingahöfðinginn Eiríkur rauði kom fyrstur allra víkinga til Grænlands árið 985 eftir að hafa verið dæmdur í útlegð frá heimabyggð sinni á Íslandi. Eiríkur rauði var jafnframt sagður hafa átt heiðurinn af því að hafa gefið Grænlandi heiti sitt. Á þessum árum var hitastigið á eyjunni hærra og landið frjósamara. Fornleifar hafa leitt í ljós að „Grænlendingar“, líkt og norrænir menn á Grænlandi kölluðust, ræktuðu m.a. korn og stunduðu sauðfjárrækt. Þetta væri ekki gerlegt í dag.

Rúnir með kristilegan boðskap
Þegar víkingarnir komu til Grænlands voru norrænir menn í þann veg að taka kristna trú og þessi nýja trú öðlaðist jafnframt mikla útbreiðslu á Grænlandi. Frá og með árinu 985 voru ristar mýmargar rúnir þar með kristilegum boðskap. Rúnirnar voru fyrsta dæmið um notkun ritmáls sem vitað er um á Grænlandi.

Kirkjur víkinganna standa enn
Hvalseyjarkirkja er sennilega þekktasta dæmið um kirkjurústir á Grænlandi. Kirkjan var reist á 14. öld og er eina byggingin á Grænlandi frá tímum norrænna manna sem vitað er til að hafi verið hlaðin úr steini með kalksteypu á milli steinanna. Kalksteypa dregur ekki í sig vatn sem gerir það að verkum að frostið ýtir steinunum ekki úr stað og þess vegna stendur kirkjan enn.

„Fílabein“ úr rostungi og náhval
Síðustu rituðu heimildirnar um norræna menn eru frá 16. september árið 1408, þegar ungt par lét gefa sig saman í Hvalseyjarkirkju. Skömmu síðar hurfu víkingarnir og skildu ekki eftir sig nein ummerki. Loftslagsbreytingar sem ollu kaldari vetrum, hafa að öllum líkindum átt þátt í hvarfi norrænu mannanna. Vísindamenn hafa jafnframt bent á að minnkandi eftirspurn eftir rostungi og náhval í Evrópu hafi átt þátt í brotthvarfi víkinganna en þetta hafi einmitt verið þær söluvörur sem einkum freistuðu þeirra fyrst í stað.
Grænland varð að nýlendu
Tímabilið frá því að norræna fólkið hvarf af sjónarsviðinu nærri árinu 1450 og þar til Danir fóru að flytjast til Grænlands árið 1721 kalla sagnfræðingar „miðtímabilið“. Á þessu tímabili settust inúítar að meðfram allri strandlengju Grænlands og náðu þar með tökum á eyjunni.
Inúítar höfðu yfir að ráða sérhæfðum veiðarfærum og þekktu vel til veiða sem gerði þeim kleift að leggja að velli stór spendýr úr bátum á sjó, veiða fisk í ánum og að fanga jafnframt villibráð á landi.
Inúítarnir lifðu í sátt og samlyndi við náttúruna og álitu að allt í náttúrunni, allt frá dýrum og steinum til sólarinnar og tunglsins, hefði yfir að ráða sinni eigin sál, sínu „inúa“. Ef jafnvægið milli manna og náttúru yrði rofið, hefði það afar alvarlegar afleiðingar.
Andatrú og virðing fyrir náttúrunni voru afar fjarri hinum kristilega hugsanagangi.
Þegar trúboðinn Hans Egede kom til Grænlands árið 1721, í leit að norrænum mönnum og til að boða kristna trú, áttu sér stað árekstrar milli nýju norrænu landnemanna og inúíta.
Kapphlaupið um Grænland
Presturinn Hans Egede flytur predikun um djöfulinn yfir Grænlendingum.

Presturinn Hans Egede flytur predikun um djöfulinn yfir Grænlendingum. Landakort yfir þann hluta Grænlands sem enn hefur ekki verið rannsakaður (u.þ.b. 1850-70).
Frá Hollandi til Hans Egede
Landnámið á Grænlandi var kapphlaup milli nokkurra evrópskra ríkja, þar sem Danmörk bar að lokum sigur úr býtum.
Frá því á 17. öld og allt fram á 19. öld var lýsi notað sem eldsneyti í götulýsingu um gjörvalla Evrópu. Lýsi er unnið úr spiki og þegar eftirspurnin eftir lýsi jókst fóru fleiri nýlenduveldi að venja komur sínar til Grænlands í því skyni að stunda hval- og selveiðar.
Hollendingar og Englendingar voru í hópi þeirra fyrstu sem gerðu út leiðangra til Grænlands og á 17. öld höfðu hval- og selveiðimenn þessara tveggja stórvelda yfirhöndina í þessum veiðum við stærstu eyju heims.
Í upphafi 18. aldar gerði norsk-danska konungsríkið kröfu um yfirráð á Grænlandi. Krafan átti rætur að rekja til þeirrar staðreyndar að norrænir menn (víkingarnir) hefðu haft búsetu á eyjunni mörg hundruð árum áður.
Ef ætlast væri til að vesturevrópsku nýlenduherrarnir viðurkenndu dansk-norsk yfirráð á Grænlandi þyrftu þeir síðarnefndu að setjast að á eyjunni.
Þetta gerðist árið 1721 þegar kristnitrúboðinn Hans Egede stofnaði fyrstu nýlenduna á Grænlandi á Vonareyju við mynni Nuuk-fjarðar.
Þaðan sinnti hann trúboðsstarfi sínu sem fólst í því að kristna inúítana og að koma aftur á tengslum við horfnu norrænu íbúana sem álitið var að enn lifðu á eyjunni. Hans Egede lagði síðar grunninn að bænum Godthåb og skipulagði verslunarstöðvar meðfram strandlengjunni.
Árið 1774 tóku Danir upp verslunareinokun á eyjunni til að tryggja yfirráð yfir ábatasamri verslun með þorskalýsi, húðir og aðrar verðmætar afurðir.
Næstu áratugina á eftir voru gerðar tilraunir til að þvinga upprunalega íbúa landsins til að taka kristna trú.
Ekkert ráðrúm var fyrir frumstæða andatrú inúítanna né heldur gömlu veiðiaðferðirnar í nýja, kristna samfélaginu á Grænlandi sem nú heyrði undir dansk-norska konunginn.
Kristni var ekki það eina sem barst til Grænlands. Með norrænu landnemunum bárust að sama skapi vestrænir sjúkdómar á borð við taugaveiki, berkla, sárasótt og lekanda.
Einhverju sinni barst bólusóttarfaraldur til Nuuk (sem þá kallaðist Godthåb) en veikin barst til eyjunnar frá einu af birgðaskipum landnemanna. Álitið er að sjúkdómurinn hafi dregið um 6.000 inúíta til dauða.
Leið Grænlendinga í átt að sjálfstæði

Ísfjarðarmiðstöðin við Ilulissat sem Dorte Mandrup arkitekt teiknaði. Hugmyndina að lögun safnsins segir hönnuðurinn vera sótta í „flug snæuglunnar yfir landið“.
Grænlendingar hafa töluverðan sjálfsákvörðunarrétt og stjórn á innanríkismálum en Danir sinna á hinn bóginn utanríkismálum og vörnum í landinu. Sjálfsstjórnarlögin frá árinu 2009 fela í sér réttinn til að öðlast fullkomið sjálfstæði í framtíðinni.
Danir losuðu töluvert um tökin á Grænlandi eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Hinn 5. júní árið 1953 taldist Grænland ekki lengur vera dönsk nýlenda heldur öðlaðist stöðu sem hérað innan danska ríkisins. Þessi nýja staða leiddi m.a. til þess að Grænland fékk tvö sæti á danska þjóðþinginu.
Árið 1979 sömdu stjórnmálamenn Grænlands um heimastjórn. Með heimastjórninni tóku Grænlendingar sjálfir við ýmsum málefnum sem áður höfðu heyrt undir danska ríkið, m.a. menntun, félagsmál og húsnæðismál.
Þegar sjálfsstjórnin tók gildi árið 2009 öðluðust Grænlendingar opinbera viðurkenningu sem þjóð í samræmi við þjóðarréttinn í Danmörku.
Sjálfsstjórn Grænlands samanstendur af „Inatsisartut“ (þjóðþingi með 31 þingmanni), svo og „Naalakkersuisut“ (ríkisstjórn og stjórnsýslu).
Sjálfsstjórnin felur það í sér að Grænland ræður yfir eigin auðlindum og getur öðlast sjálfstæði hvenær sem landið óskar þess.
Frá því að Grænland hætti að vera dönsk nýlenda árið 1953 og öðlaðist næstu áratugina á eftir fyrst heimastjórn og síðan sjálfsstjórn, hefur upprunalega inúítamenningin staðið í miklum blóma.
Hyggist Grænland losa sig undan viðjum nýlendutímabilsins er nauðsynlegt að íbúarnir verði færir um að takast á við þær efnahagsráðstafanir sem landafræði landsins hefur í för með sér. Í dag fá Grænlendingar 4,3 milljarða danskra króna í fjárveitingu frá danska ríkinu ár hvert en um er að ræða rúmlega helming af tekjum landsins.
„Án öruggra tekna til að standa straum af hinum ýmsu útgjöldum sem fylgja því að reka land með svo fáum og dreifðum íbúum, í jafn hrjóstugri náttúru og um er að ræða á Grænlandi, er fullkomið sjálfstæði áhættusamt“, ritar Grænlandssérfræðingurinn Torbjørn Ydegaard í bók sinni „Saga Grænlands“ frá árinu 2021.

Ársafmæli sjálfsstjórnar fagnað á þjóðhátíðardegi Grænlands, 21. júní 2010, í Sisimiut. Grænlenski fáninn var kynntur 25 árum áður eða árið 1985.
Óskina um fullkomið sjálfstæði telja margir sérfræðingar ekki lengur vera spurninguna um hvort, heldur öðru fremur, hvenær það verði. Eða líkt og Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, sagði í nýársræðu sinni árið 2019:
„Eftir tíu ára sjálfsstjórn er kominn tími til að við sem þjóð ræðum á markvissari hátt og metum hver næstu skref okkar verða og hvernig hvert og eitt okkar getur axlað ábyrgð“.
Ef Trump ætlar að endurtaka tilboð sitt um að kaupa Grænland bæri honum sennilega að snúa sér til arftaka Kim Kielsen, Múte Bourup Egede formanni grænlensku landsstjórnarinnar.