Fornminjar sem grafnar voru úr jörðu gefa til kynna að borgin Machu Picchu hafi verið eins konar orlofsdvalarstaður fyrir yfirstétt Inka og að öllum líkindum einnig fyrir Inkakeisarann Pachacuti (1438–1472).
Borgina er að finna á hárri fjallsbrún í rösklega 2.000 metra hæð í suðurhluta Perú og gegndi hún þar hlutverki griðastaðar fyrir keisarafjölskylduna og aðalinn, þar sem þau gátu slakað á og safnað kröftum.
Keisarafjölskyldan kom aðeins stöku sinnum til borgarinnar en nokkur hundrað íbúar höfðu hins vegar fasta búsetu þar. Í þeirra hópi voru prestar, bændur og iðnaðarmenn sem ætlað var að sjá til þess að keisarinn og fólk hans nytu dvalarinnar eins vel og frekast var unnt.
Allt til þessa hafa sagnfræðingar haft afar takmarkaða vitneskju um þá sem voru með fasta búsetu í Machu Picchu en nú hafa nýlegar DNA-rannsóknir varpað ljósi á hverjir íbúar borgarinnar voru þegar veldi Inka stóð hvað hæst, á árunum 1420 til 1532.
Sagnfræðingar hafa löngum haft grunsemdir um að íbúarnir hafi ferðast frá ýmsum ólíkum svæðum Inkaríkisins til Machu Picchu með það fyrir augum að þjóna keisaranum og sú kenning hefur fengið staðfestingu hóps vísindamanna víðs vegar að úr heiminum.
Vísindamönnunum hefur tekist að greina erfðaefni 34 einstaklinga sem lagðir höfðu verið til hinstu hvílu við borgina Machu Picchu fyrir rösklega 500 árum og að bera erfðaefnið saman við DNA-sýni fólks frá öðrum hlutum þessa stóra ríkis.

Hafist var handa við að reisa Machu Picchu upp úr árinu 1400 og hún var í byggð allt þar til Spánverjar hernámu landið árið 1532.
Þjónar komu frá Amazon
Rannsóknirnar hafa leitt í ljós að þeir sem voru með fasta búsetu í Machu Picchu áttu rætur að rekja til allra afkima Inkaríkisins og að sumir þeirra komu frá afar fjarlægum stöðum á borð við Amasónfrumskóginn.
Þá ber einnig að geta þess að aðeins fáir þeirra voru með sameiginlegt erfðaefni sem gefur til kynna að þeir hafi farið til Machu Picchu sem einstaklingar og ekki sem hluti af hópi.
Listinn yfir sjö undur veraldar til forna hefur alvarlegan galla: Sex af sjö byggingarafrekunum sem Forngrikkjar heilluðust af er ekki lengur að finna.
Ekki hefur tekist að færa sönnur á hvers vegna þessir einstaklingar lögðu land undir fót og héldu til Machu Picchu en sennilegt þykir að þeir sem þjónuðu keisaranum hafi notið mikillar virðingar og að um hafi verið að ræða mikinn fjárhagslegan ávinning fyrir þá sem hlotnaðist slíkur heiður.
Nærtækt er að gera því skóna að aðeins færustu einstaklingarnir hafi verið sóttir til þessarar glæsiborgar en það veit í raun enginn fyrir víst og þörf er fyrir frekari rannsóknir til að unnt verði að segja fyrir um það af nokkurri vissu.
Gerðu Machu Picchu að borg keisarans
Keisarinn og fjölskylda hans komu aðeins stöku sinnum til Machu Picchu en íbúar sem höfðu þar fasta búsetu gættu hins vegar hallarinnar og sáu um rekstur þessarar konunglegu orlofsborgar.

Prestarnir
Prestarnir gegndu mikilvægu hlutverki í Machu Picchu. Þeir sinntu daglegum helgiathöfnum, færðu fórnir og stjórnuðu hátíðahöldum guðum Inka til heiðurs, einkum sólguðinum Inti sem gegndi mikilvægu hlutverki í trúariðkun Inkanna. Prestarnir lögðu jafnframt stund á stjarnfræðilegar athuganir og skipulögðu helgiathafnir með hliðsjón af stöðu sólar.

Útvaldar konur
Aclla kölluðust þær konur sem höfðu verið sérlega „útvaldar“, fegurðar sinnar vegna. Þær gegndu hlutverki kvenpresta í hofunum, ófu fíngerð klæði og brugguðu kornmjöðinn chicha sem neytt var við trúarlegar athafnir. Sumar konur voru jafnframt gefnar þeim körlum í brúðargjöf sem þjónað höfðu keisaranum dyggilega.

Iðnaðarmenn
Iðnaðarmenn og listamenn voru í hávegum hafðir í ríki Inkanna. Þeir reistu tígulegar steinbyggingar, ófu klæði og smíðuðu skartgripi og áhöld. Þó svo að karlmenn þessir hafi ekki endilega tilheyrt efsta hópi samfélagsins í Machu Picchu, nutu þeir engu að síður mikillar virðingar fyrir handverkskunnáttu sína.

Bændurnir
Daglegur rekstur borgarinnar Machu Picchu var í höndum bænda, þó svo að sagnfræðingum hafi oft yfirsést þessi staðreynd. Þeir ræktuðu landið á stöllum umhverfis Machu Picchu og fólst uppskeran einkum í maís, kartöflum og „kínóa“ en þess má geta að bændurnir þróuðu flókna landbúnaðartækni sem tryggði matvæli fyrir gjörvalla 500-750 íbúa borgarinnar.