Reykingar drepa meira en 8 milljónir manna á hverju ári og eru orsök allt að 90% allra lungnakrabbameinstilvika. Vísindamenn álíta að fólk sem reykir eigi 15-30 sinnum frekar á hættu að fá lungnakrabbamein en aðrir.
Krabbameinsvaldandi efni skadda lungnafrumurnar og valda stökkbreytingum í erfðaefni þeirra. Genagreiningar hafa leitt í ljós að á einu ári verða 150 nýjar stökkbreytingar í lungnafrumum þeirra sem reykja einn pakka á dag.
Stökkbreytingar geta komið frumunum til að breyta hegðun sinni, t.d. með því að fara að fjölga sér hömlulaust en það getur einmitt leitt til myndunar krabbameinsæxlis. Fjöldi stökkbreytinga í lungnafrumum er nátengdur því magni reyks sem þær hafa orðið fyrir. Þess vegna eykst hættan á lungnakrabba eftir því sem meira er reykt.
Keðjureykingamenn gera við DNA skemmdir á skilvirkari hátt
Nýjar rannsóknir sýna nú að stökkbreytingum hættir að fjölga þegar fólk hefur reykt í 23 ár. Þetta er talið skýra hvers vegna sumir stórreykingamenn ná hárri elli án þess að fá lungnakrabba.
Lungnafrumurnar virðast aðlagast sífelldum reykingum með því að leggja aukna áherslu á að gera við skaddanir í erfðamassanum og sleppa þannig við stökkbreytingarnar.
Vísindamenn hyggjast nú rannsaka hvers vegna frumur í sumu fólki eru þess umkomnar að lagfæra skemmdir í erfðaefni en ekki í öðrum. Niðurstöðurnar gætu gagnast til að segja fyrir um einstaklingsbundna áhættu á lungnakrabba vegna reykinga.
15-30 sinnum meiri er hættan á lungnakrabba hjá þeim sem reykja en þeim sem reykja ekki.
Bandarískir og kínverskir vísindamenn hafa reiknað út að tvær tegundir tilfinninga virðast auka öldrun hraðar en reykingar.