Ekkert sleppur frá svartholi, ekki einu sinni geislun. Hin svonefnda Hawking-geislun brýtur ekki gegn þessu lögmáli. Geislunin berst sem sé ekki frá svartholinu sjálfu heldur frá tómarúminu næst hinum svonefndu sjónhvörfum eða „event horizon“.
Í svartholi hefur allur massi þjappast saman í einn punkt sem kalla mætti einkjarna (singularity). Utan við einkjarnann eru kúlulaga mörk, svonefnd sjónhvörf.
Innan sjónhvarfanna fellur allt inn í einkjarnann á meira en ljóshraða. Utan við sjónhvörfin er hraðinn minni. Allar eindir, líka ljóseindir, eru því komnar á vald svartholsins innan sjónhvarfanna en rétt utan við þau geta eindir sloppið.
Eindapör aðskiljast
Jafnvel tómarúmið er í rauninni aldrei alveg tómt. Samkvæmt túlkun Hawkings á skammtafræðinni myndast sjóneindir eða „virtual particles“ í sífellu í tómu rúmi. Þær myndast sem pör einda og andeinda sem strax renna saman og eyða hvor annarri.
En myndist slíkt eindapar nógu nálægt sjónhvörfunum, ná eindirnar ekki saman, heldur sogast önnur þeirra inn í svartholið áður en þær ná að eyða hvor annarri. Hin eindin sleppur – og það er straumur slíkra einda sem kallast Hawking-geislun.
Stephen Hawking setti fram þessa frægu kenningu um eindirnar árið 1974. Hann áleit geislunina rökrétta afleiðingu af skammtasviðskenningunni.
Ekki hefur tekist að greina Hawking-geislun frá svartholi, enda er hún langt undir þeim mörkum sem jafnvel allra öflugustu sjónaukar ráða við. Aftur á móti hefur tekist að sýna ferlið að baki geisluninni í rannsóknastofu.
Eindatvíburar valda geislun
Pör einda og andeinda myndast og þær eyða hvor annarri jafnóðum. Myndist slíkt par rétt utan marka svartholsins getur það valdið Hawking-geislun.

1. Eindapar myndast
Samkvæmt skammtafræðinni sveiflast rafsegulsvið og þyngdarsvið stöðugt. Af sveiflunum leiðir að sí og æ myndast pör einda og andeinda sem svo strax eyða hvor annarri.

2. Aðskildar í fæðingu
Ef eindapar myndast á þyngdarmörkum svarthols, getur önnur eindin sogast inn í svartholið en hin verið á nákvæmlega réttum hraða til að sleppa í formi geislunar.

3. Geislun rýrir svartholið
Geislaeindirnar hafa jákvæða orku en þær sem falla inn í svartholið neikvæða orku. Hawking-geislunin veldur þess vegna því að svartholið glatar orku og rýrnar smám saman.
Svarthol gleypa allt sem kemur í námunda við þau. En geta þau bara haldið áfram að vaxa í hið óendanlega eða eru einhver mörk sem ákvarða hámarksstærð?