Augu allra beindust að hinum 44 ára gamla Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, þegar hann tók til máls á árlegri öryggisráðstefnu í München hinn 19. febrúar í ár.
Frammi fyrir u.þ.b. 30 þjóðarleiðtogum og eitt hundrað ráðherrum varaði Zelensky við þeirri hættu að Rússar kynnu að gera innrás í Úkraínu. Hann var þá nýkominn úr heimsókn í leikskóla sem rússnesku flugskeyti hafði verið skotið á, sagði hann.
„Þegar sprengjugígur myndast á barnaleikvelli, spyrja börnin: ‘Hefur heimurinn gleymt mistökunum sem áttu sér stað á 20. öld?’ Skeytingarleysi ykkar gerir ykkur samseka“, mælti Zelensky í viðvörunartóni.
„Við munum ekki leggja niður vopn. Við munum verja landið okkar sökum þess að sannleikurinn er okkar vopn“
Volodymyr Zelensky.
Örfáum dögum eftir að ræðan var haldin réðust rússneskar hersveitir inn í Úkraínu. Eftir að innrásin hófst var greinilegt að forsetinn varð að sameiningartákni allrar úkraínsku þjóðarinnar, meðal annars sökum harðvítugrar andstöðu hans við Pútín.
Engum hafði raunar dottið í hug að Zelensky ætti eftir að styðja þjóð sína í gegnum stríð. Þegar hann hafði lokið laganámi stofnaði hann ásamt öðrum grínleikarasveitina Kvartal 95 árið 1997 sem kom fram í fyrrum Sovétlýðveldum og framleiddi sjónvarpsefni. Árið 2015 tryggðu grínistahæfileikarnir Zelensky aðalhlutverkið í óhemjuvinsælli sjónvarpsþáttaröð sem nefndist „Þjónn fólksins“.
Þar lék hann raunar kennara sem verður forseti Úkraínu fyrir algera tilviljun þegar myndband sem sýnir hann gagnrýna spillinguna sem þreifst meðal stjórnmálamanna komst í almenna dreifingu.
Bandaríkjamenn buðust til að aðstoða Zelensky við að yfirgefa landið þegar hersveitir Pútíns réðust inn í landið en úkraínski forsetinn afþakkaði boðið.
Sjónvarpsþættir urðu að veruleika
Árið 2018 stofnaði teymið að baki sjónvarpsþáttaröðinni stjórnmálaflokk með Zelensky í forgrunni og sem forsetaframbjóðanda. Sjálfur hefur Zelensky lýst því þannig að hann hafi leiðst út í stjórnmál til þess að koma „fagmannlegu, heiðvirðu fólki til valda“.
Eftir nokkurra mánaða kosningabaráttu sem átti sér mestmegnis stað á netinu, bar Zelensky sigur úr býtum í forsetakosningunum árið 2019, þar sem hann hlaut alls 73,2% atkvæða.
Frá því að þetta var hefur Zelensky leitt þjóð sína í gegnum heimsfaraldurinn og eftir að Rússar gerðu innrásina í Úkraínu sýndu myndbönd á samfélagsmiðlum svo ekki varð um villst að Úkraína hygðist berjast gegn óvininum.
„Við munum ekki leggja niður vopn. Við munum verja landið okkar sökum þess að sannleikurinn er okkar vopn“, lýsti Zelensky yfir í einum af mýmörgum myndböndum sínum.