Enginn veit fyrir víst hvaðan hjartalögunin, sem notuð er í tengslum við ást og rómantík, er fengin.
Stílfærða og táknræna hjartað líkist líffærinu hjarta aðeins að mjög óverulegu leyti. Bogana tvo, sem eru svo mjög einkennandi efst á rómantísku hjörtunum, er sem dæmi ekki að finna í hjartanu sem slær í líkömum vorum en hins vegar minna þeir allmikið á kvenlegan vöxt.
Hjartalögunin er að sama skapi talsvert lík egypsku myndletri yfir hjarta. Í Egyptalandi til forna varð hjartað svo mikilvægur hluti af líkama og sál að það var eina líffærið sem skilið var eftir í líkamanum þegar líksmurning fór fram. Hjartað skyldi nefnilega vega á móti fjöður, áður en sá látni fékk inngöngu í himnaríki.
Til er önnur forn lögun sem minnir talsvert á táknræna hjartað en um er að ræða fræ lækningajurtarinnar Silphium, en það er útdauð planta af fennikkuætt, sem óx í Kyrene, sem var strandhérað í landinu sem nú heitir Líbýa.
Þessi planta var mikilvæg útflutningsvara fyrir Kyrene og á peningamyntum þar var mynd af blóminu öðrum megin og fræinu hinum megin. Lögun fræsins minnti óneitanlega mikið á hið táknræna hjarta.
Silphium var bæði notað sem grænmeti og kryddjurt og samkvæmt heimildum gríska landfræðingsins Strabó var plantan einnig notuð í lækningaskyni.
Rómverski sagnfræðingurinn Pliníus hinn eldri kvað plöntuna hafa verið notaða m.a. til að koma í veg fyrir þungun. Það er þetta hlutverk plöntunnar sem sagnfræðingar telja að tengi plöntuna við rómantíska ást.