Ástæður þess að reyk skipa er hleypt út í andrúmsloftið en ekki í sjóinn eru margar.
Í fyrsta lagi eykst þrýstingurinn mjög hratt í vatni, eða um u.þ.b. 10 hundraðshluta af loftþrýstingi fyrir hvern metra undir yfirborði sjávar. Þetta gerir það að verkum að beita þyrfti þrýstingi til að hleypa reyknum út í sjóinn og afkastageta vélarinnar myndi að sama skapi minnka.
Í öðru lagi hefur reykurinn að geyma brennistein, þungmálma og agnir sem valda myndu mengun í sjónum. Með því að leiða reykinn út í loftið þynnist mengunin miklu hraðar út en raunin yrði í sjónum.
Í farþegaskipum skiptir miklu máli að notast við háa reykháfa til að reyknum slái ekki niður á farþegana um borð. Fyrir vikið eru það útreikningar á iðustreymi sem ráða hæð reykháfa í þessum skipum.