Á okkar tímum er orðið framfærsla konungborinna notað yfir þá upphæð sem ríkið greiðir kóngafólki árlega fyrir uppihald þess.
Þegar framfærslueyri konungborinna fyrst var komið á laggirnar á öndverðum miðöldum var tilgangurinn sá að koma í veg fyrir hallarbyltingar og blóðugar borgarastyrjaldir.
Þetta var gert með því að úthluta öllum sonum konungsins landsvæðum sem þeir gætu ríkt yfir. Með því móti fengju allir prinsar sinn skerf af völdum, svo og tekjustofn sem gerði það að verkum að þeir hefðu enga ástæðu til að hrifsa völdin af elsta syninum sem ætlað var að erfa krúnuna.
Einna fyrstur þeirra sem notfærðu sér þessa gerð af framfærslueyri var franski konungurinn Karl mikli (748-814).
Áður en hann lést árið 806 skipti hann stóru ríkinu meðal sona sinna þriggja sem hver hlaut sinn væna skerf af voldugu ríki Karls mikla. Keisarinn batt vonir við að synir hans þrír yrðu sáttir hver við sinn hlut og myndu ekki stríða hver gegn öðrum að honum gengnum. Þetta tókst en þó aðallega fyrir þær sakir að tveir sona hans voru þegar látnir þá er hann sjálfur lést.
Danska konungshúsið fær 114,6 milljónir danskra króna á ári - þar af fær drottningin u.þ.b. 91 milljón danskra króna.
Konungur deildi ríki sínu með fjölskyldunni
Hugmyndin um framfærslueyri konungborinna barst til ólíkra ríkja Evrópu á miðöldum og þróaðist smám saman yfir í það að eiga ekki einvörðungu við um syni konungsins, heldur alla konungsættina.
Í stað þess að koma í veg fyrir borgarastríð varð framfærslueyririnn í raun að leið konungsins til að stjórna ríki sínu. Með því að skipta ríkinu og dreifa valdinu meðal dyggra ættingja sinna hafði handhafi konungsvaldsins tök á að ríkja yfir gríðarlegum landsvæðum og jafnframt að tryggja sér hernaðarlegan stuðning ef til styrjaldar kæmi.
Það er vel þekkt að hreinlætið á 17. og 18. öld var ekki upp á marga fiska en hvernig lyktaði einn voldugasti maður heims?
Það sem í dag kallast framfærslueyrir konungborinna, einnig nefndar ársgreiðslur, varð til þegar konungsfjölskyldurnar misstu stjórnmálalegt vald sitt og þar með einnig tekjurnar.
Framfærslueyrinn notar kóngafólk í dag til að standa straum af útgjöldum, m.a. vegna starfsfólks, stjórnunar, öryggismála, svo og fyrir einkaþarfir.