„Án hatta fyrirfinnst engin siðmenning“, sagði franski tískufrömuðurinn Christian Dior árið 1954.
Dior hafði rétt fyrir sér að því leyti að allt fram á síðari hluta þriðja áratugarins voru hattar órjúfanlegur hluti af klæðnaði allra karla með virðingu fyrir sjálfum sér og voru m.a. notaðir til að gefa til kynna þjóðfélagsstöðu þeirra.
Engu að síður byrjuðu hattar að fara úr tísku á árunum eftir seinni heimsstyrjöld og ein mikilvægasta ástæða þess var að skilin milli hinna ólíku stétta voru óðum að mást út.
Á millistríðsárunum varð sífellt algengara að ungmenni tilheyrandi miðstétt fengju aðgang að háskólunum sem áður voru einungis ætlaðir yfirstéttinni og sem settu strangar reglur hvað réttan klæðnað snerti.
Þegar svo nemendahópurinn fór að breytast, breyttust að sama skapi reglur um klæðnað og farið var að líta á hatta sem óþarfa leifar gamla tímans. Þessi nýju viðmið bárust út til annarra hluta samfélagsins þegar unga fólkið hafði lokið námi og fór út á vinnumarkaðinn.
Sumir sagnfræðingar halda því fram að bílnotkun á millistríðsárunum hafi jafnframt stuðlað að falli hattsins.
Langir vegir auðvelduðu fólki að ferðast um langar vegalengdir og almenningur fór að eignast bíl. Þess má til gamans geta að innan við einn hundraðshluti íbúa Bandaríkjanna hafði yfir að ráða bifreið árið 1920 en hlutfallið hafði hækkað upp í u.þ.b. 25% árið 1940 og árið 1970 áttu alls 55% bifreið.
Andstætt við það sem við átti um lestar, sporvagna og hestvagna, var lágt til lofts í bifreiðum og því einkar óhagkvæmt að vera með hatt í bíl.
Þar að auki höfðu karlarnir enga þörf lengur fyrir hatt til að verja sig gegn veðri og vindum, úr því að þeir sátu innandyra í eigin bifreið.