Fangar í Auburn fangelsinu í New York voru þeir fyrstu til að klæðast röndóttum fangabúningum á árunum í kringum 1820.
John D. Cray aðstoðarfangelsisstjóri Auburn fangelsisins taldi að helsti kostur fangabúningsins væri hversu áberandi búningurinn var. Flótti var nánast ómögulegur, því fangarnir myndu uppgötvast á svipstundu ef þeir færu út fyrir fangelsismúrana.
Hins vegar var tilgangurinn með þessum auðþekkjanlegu búningum ekki aðeins að gera föngum á flótta erfiðara með að fela sig. Þeir voru líka hugsaðir sem hluti af nýrri nálgun varðandi fangelsun og refsingu sem aðstoðarfangelsstjórinn John D. Cray talaði fyrir. Hann taldi að fangarnir gætu orðið heiðvirðir borgarar með mikilli vinnu og einstaklega ströngum aga.
Erfiðisvinna í þögn
Á daginn voru fangarnir t.a.m. látnir byggja brýr eða grafa skurði hlekkjaðir hver við annan. Fangaverðirnir kröfðust algjörrar þagnar sem – ásamt röndóttu búningunum – átti að draga úr sjálfsvitund fanganna og gera þá hlýðnari, að sögn John D. Cray.
Fangabúningarnir röndóttu urðu fljótt algengir í fjölda fangelsa í Bandaríkjunum en árið 1904 hætti New York borg að nota þá því búningarnir þóttu óþarflega niðurlægjandi fyrir fangana.
En búningarnir voru þá þegar orðnir samheiti yfir glæpi og voru áfram notaðir t.d. í kvikmyndum og teiknimyndum.
Járnbeisli fyrir kjaftforar konur, afhöggnar hendur fyrir þjófnað og brennimerking á fyllibyttum – öldum saman hlutu lögbrjótar líkamlega refsingu. Sem viðbót við sársaukann bættist svo skömmin.
Þess í stað var farið að nota einlita samfestinga í fjölmörgum fangelsum, m.a. hinn þekkta appelsínugula samfesting.
Í seinni tíð hafa sum fangelsi hins vegar tekið upp röndóttu fangabúningana aftur.