Þetta marr sem heyrist í snjónum þegar við göngum á honum hefur í raun ekki verið rannsakað með vísindalegum hætti. Vísindamenn geta sér engu að síður til um að hljóðið eigi rætur að rekja til ískristalla sem eru undir þrýstingi.
Snjór samanstendur af neti ískristalla. Þegar nægilega margir kristallar liggja þétt hver uppi við annan í nokkra stund mynda þeir litlar fíngerðar tengingar og verða að samhangandi neti. Vísindamenn tala um að kristallarnir sindri.
Þegar við stígum á snjólagið gerist tvennt, ef marka má helstu kenningar: Í fyrsta lagi rofna tengingarnar milli kristallanna og í öðru lagi nuddast þeir hver upp við annan. Hvort tveggja felur í sér orkuafhleðslu og hljóðið sem við heyrum er hið dæmigerða marr.
Mest marr í köldum snjó
Mesta marrið heyrum við í snjó sem legið hefur á jörðinni í nokkra tíma.
Þá hafa oddar kristallanna nefnilega haft rúman tíma til að tengjast saman í stóru neti sem myndar meiri hávaða þegar það molnar.
Snjór sem marrar hressilega í er afar kaldur, oft undir fimm frostgráðum. Sé hann hlýrri veldur þrýstingur vetrarskónna því að tengingarnar bráðna í stað þess að molna og fyrir vikið verður hljóðið ekki nægilega hávært til að við heyrum það.
Að öllu jöfnu dregur snjór úr hljóði sökum þess að hann dregur í sig orkuna í hljóðbylgjunum sem dreifast fyrir vikið ekki mjög langt.