Fólk talar upp úr svefni á öllum stigum svefnsins. Þetta þekkist aðallega hjá börnum en sumt fólk talar í svefni alla ævina.
Í sumum tilvikum kann tal upp úr svefni að tengjast geðrænum kvillum eða hitasótt. Þetta heyrir þó til undantekninga og að öllu jöfnu eru það heilbrigðir, fullfrískir einstaklingar sem tala í svefni.
Mjög breytilegt er hversu mikið fólk talar, allt frá stökum orðum upp í heilar setningar. Yfirleitt er sá sem talar ekki meðvitaður um hvað hann segir. Ekki hefur tekist að greina nein tengsl milli tals í svefni og svefnleysis og eru ástæður svefntalsins óþekktar.
Sárameinlaust virðist vera að tala í svefni og gefur það ekki til kynna að viðkomandi sé að dreyma. Þó eru vísbendingar um að streita og slælegar svefnvenjur, auk svefnleysis, geti aukið líkur á svefntali.