Hvernig eigum við að skipta Afríku á milli okkar? Þetta var helsta spurningin þegar nýlenduveldi Evrópu komu saman á fundi í Berlín þann 15. nóvember 1884.
Fram að þeim tíma höfðu Evrópubúar einkum byggt verslunarstöðvar meðfram ströndum Afríku til að stunda viðskipti við innfædda en nú horfðu þeir gráðugir til hins mikla ríkidæmis sem var að finna í iðrum Afríku.
Einn þátttakendanna, Frakkland, hélt frá ráðstefnunni í Berlín með loforð um mikið landflæmi á þessu stóra meginlandi.
Ein möguleg nýlenda fyrir Frakkland var Níger og fáeinum árum eftir ráðstefnuna sendu Frakkarnir fjölmarga leiðangra til Afríku til að krefjast yfirráða í landinu.
Á meðan Frakkarnir voru að leggja undir sig Níger frömdu leiðangursmenn margvísleg brot gegn þarlendum íbúum og voru alræmdir fyrir að ræna, nauðga konum og drepa borgara. Árið 1922 var landið opinberlega nýlenda í frönsku Vestur-Afríku.
Níger var fullkomlega staðsett
Einn ríkur þáttur í nýlendustefnu Frakka var leitin að hrávörum fyrir vaxandi iðnað heima fyrir.
Því miður fyrir Frakkana var ekki mikið um verðmæt hráefni í Níger en landið var þó ríkt af margvíslegum nytjajurtum og síðar kom í ljós að þar var að finna mikið magn af úrani.
Þó að Níger hafi ekki boðið upp á mikið af hráefnum var staðsetning þess ákaflega heppileg. Eitt af stærstu fljótum Afríku, Nígerfljótið, rennur í gegnum landið og þannig gátu Frakkar öðlast stjórn á einni mikilvægustu flutningaleiðinni í Vestur-Afríku.
Rússar prófuðu kjarnorkuvopn sín á dreifbýlum steppunum í Kazakstan og Bandaríkjamenn vildu grafa nýjan Panamaskurð með vetnissprengjum. En engin var eins öflug og Zar-sprengjan sem var sprengd árið 1961.
Auk þess gaf landfræðileg lega Níger Frökkum tækifæri til að ráða yfir verslunarleiðum í gegnum Sahara og með þeim hætti gátu þeir hindrað önnur evrópsk nýlenduveldi í að ná fótfestu á svæðinu.
Níger fékk að lokum sjálfstæði árið 1960 en hefur síðan verið plagað af fátækt, þurrkum og borgarastríðum.
Sjálfstæðið markaði upphafið að ringulreið
Eftir að Frakkar höfðu stýrt Níger um áratuga skeið fékk landið loksins sjálfstæði árið 1960. Þessi sögulegi atburður ætti að hafa markað upphafið að tímabil þróunar og velmegunar en þess í stað endaði Níger sem eitt fátækasta og vanþróaðasta land heims.
1960: Sjálfstæði Níger
Þann 3. ágúst 1960 hlaut Níger sjálfstæði og Hamani Diori varð fyrsti forseti landsins. Tími hans við völd einkenndist af nánu sambandi við Frakkland og eins-flokks kerfi. Þrátt fyrir að Diori hafi komið á pólitískum stöðugleika var hann einnig gagnrýndur fyrir að standa í fararbroddi spilltrar og ólýðræðislegrar ríkisstjórnar.
1974: Bylting gegn Diori
Ríkisstjórn Hamani Dioris féll árið 1974 eftir að herinn náði völdum undir forystu Seyni Kountché ofursta. Mikil óánægja hafði gripið um sig vegna vangetu Diori við að takast á við djúpa efnahagslægð og mikla þurrka sem herjuðu á landið. Kountché stýrði Níger með harðri hendi allt fram að dauða sínum árið 1987.
1990: Tuareg-uppreisnin
Eftir 1990 einkenndist ástandið í Níger af vopnaðri uppreisn Tuareg þjóðflokksins í norðurhluta landsins. Tuaregarnir sögðust vera jaðarsettir af ríkisstjórninni og kröfðust meira sjálfstæðis. Eftir eins árs bardaga var friðarsamkomulag undirritað árið 1995 en stöðug vopnuð átök héldu áfram næstu áratugi.
2010: Bylting og lýðræðisleg stjórn
Í febrúar 2010 varð enn ein bylting hersins eftir að Mamadou Tandja forseti reyndi að breyta stjórnarskránni til að lengja tíma sinn við völd. Herforingjastjórnin sem tók við völdum lofaði að koma á lýðræði og í kosningum árið 2011 var Mahamadou Issoufou kosinn forseti.
2023: Enn ein bylting
Þann 26. júlí 2023 veltu herforingjar lýðræðislega kjörna forsetanum Mohamed Bazoum úr stóli eftir að hafa kært hann fyrir landráð. Byltingin vakti miklar áhyggjur á Vesturlöndum enda talin draga úr getu landsins til að vinna gegn hryðjuverkum heittrúaðra í Vestur-Afríku sem gætu mögulega opnað umfangsmiklar flóttamannaleiðir til ESB.