Bandaríkjamaðurinn Charles Manson er þekktur sem einn alræmdasti morðingi sögunnar, þó svo að aldrei hafi tekist að sanna að hann sjálfur hafi í raun réttri drepið neinn.
Hann var nálægt því að deyða mann í júlí árið 1969 þegar hann skaut á mann sem hann átti í eiturlyfjaviðskiptum við en maðurinn lifði skotárásina af.
Manson var engu að síður dæmdur til dauða hinn 29. mars 1971 fyrir að myrða sjö manns að yfirlögðu ráði.
Dauðadóminum var síðar meir breytt í lífstíðarfangelsi. Öll fórnarlömbin höfðu verið stungin til bana af meðlimum sértrúarsafnaðar Charles Mansons sem gekk undir heitinu Fjölskyldan.
Heilaþvegin til að drepa
Dómarinn áleit Manson standa að baki öllum morðunum, því hann hefði heilaþvegið gerendurna og hvatt þá til að fremja morðin.
Áður en að réttarhöldunum kom hafði hinn 35 ára gamli Manson varið hálfri ævinni á bak við lás og slá.
Þessum geðveila atvinnuleysingja tókst á árunum upp úr 1967 að safna í kringum sig um 20 manna hópi og stofna sértrúarreglu þar sem myrkur hugsanagangur hans var hafður í öndvegi.
Manson sannfærði fylgjendur sína um að dómsdagur væri í nánd og myndi hafa í för með sér hatramma kynþáttastyrjöld sem lærisveinar Mansons ættu eftir að hafa betur í.
Í ágúst árið 1969 frömdu áhangendur Mansons nokkur morð til að marka upphaf kynþáttastríðsins.
Charles Manson varði ævinni í fangelsi þar til hann lést 83 ára gamall hinn 19. nóvember árið 2017.