Hópur vísindamanna frá Tékklandi og Austurríki hefur rannsakað losun skaðlegra agna frá nýársflugeldum. Rannsakendur komast að þeirri niðurstöðu að áramótafagnaðurinn ætti að gefa tilefni til umhugsunar um umhverfisáhrifin.
Þýskaland losaði til dæmis um 4000 tonn svifryks út í andrúmsloftið á gamlárskvöld 2016/17. Í stórborginni Munchen fór magn svifryks 26 falt yfir heilsuverndarmörk sem eru 50 µg/m3 (50 míkrógrömm í hverjum rúmmetra andrúmslofts).
Að sögn þýskra yfirvalda samsvarar þetta 15 prósentum af árlegri svifrykslosun frá bílaumferð.
Við Íslendingar eigum þó líklega metið því í Reykjavík fór klukkustundarstyrkur svifryks yfir 2000 µg/m3 í stillunni eftir miðnætti árið 2017 og yfir 3500 µg/m3 árið 2018 eða 70 föld heilsuverndarmörk. Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar.
Í Reykjavík fór klukkustundarstyrkur svifryks yfir 2000 µg/m3 í stillunni eftir miðnætti árið 2017 og yfir 3500 µg/m3 árið 2018.
Rannsóknarhópurinn lýsir gamlárskvöldi sem einum óvenjulegasta, einstaka mengunaratburði í andrúmsloftinu á hverju ári.
Svifryk ofan í lungun
Flugeldarnir losa m.a. mengandi lofttegund sem kallast köfnunarefnisoxíð (NOx), sama efnir og kemur úr útblæstri dísilbíla.
Tölur frá Taívan sýna að magn fíngerðra agna sem kallast PM2.5 og innihalda málma eins og blý, strontíum og magnesíum eykst allt að tífalt. PM2.5 agnirnar eru minni en 2,5 míkrómetrar (milljónustu úr metra) og komast því auðveldlega í lungun.
Auk þess er gríðarleg mengun frá umbúðum flugeldanna – t.d. plasthettur fyrir rakettur – auk hávaðamengunar sem bitnar sérstaklega á dýrum.
Hægt er að kaupa svokallaða umhverfisvæna flugelda sem samkvæmt rannsóknum sem birtust í tímaritinu Environmental Science & Technology frá American Chemical Society losa 15-65 prósent færri skaðlegar agnir. En það breytir því ekki að flugeldarnir munu samt menga talsvert.
Hversu mikið CO2 losa flugeldar?
Auk svifryksmengunar geta flugeldar að auki losað umtalsvert magn af koltvísýring á stuttum tíma.
Kínversk rannsókn hefur sýnt að flugeldar á kínversku vorhátíðinni leiddu af sér aukna losun efna sem skapa CO2 – m.a. CO og NOx.
Að sama skapi jókst koltvísýringsmagn í andrúmslofti skyndilega um 17% á þjóðhátíðardagshátíðahöldunum 4. júlí í Minnesota í Bandaríkjunum.
Í samanburði við aðrar uppsprettur koltvísýringslosunar eins og bílaumferð og iðnað er heildarmengun flugelda tiltölulega lágt.